Tenglar

3. apríl 2012 |

Búnaðarfélagið: Nýjar félagssamþykktir til afgreiðslu

Fundarboð: Aðalfundur Búnaðarfélags Reykhólahrepps verður haldinn í Reykhólaskóla þriðjudaginn 10. apríl og hefst kl. 13.30. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður á dagskránni tillaga að nýjum samþykktum fyrir félagið. Tillagan fylgir hér fyrir neðan. Athygli skal vakin á því, að tvær útgáfur eru af 8. grein (A og B) og tekur fundurinn afstöðu til þess hvor leiðin verður farin.

 

 

 

Tillaga að nýjum félagssamþykktum

 

 

1. grein

Félagið heitir Búnaðarfélag Reykhólahrepps. Félagssvæðið er Reykhólahreppur. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns.

 

2. grein

Félagið er aðili að Búnaðarsambandi Vestfjarða og þar með aðili að Bændasamtökum Íslands samkvæmt samþykktum þessara félaga.

 

3. grein

Markmið félagsins er að vinna að eflingu búskapar og búsetu á félagssvæðinu og inna af hendi hverja þá skyldu sem leiðir af aðild að búnaðarsamtökum héraðsins og landsins alls.

 

4. grein

Tilgangi sínum hyggst félagið m.a. ná með því að:

  • Efla jarðrækt og ræktunarmenningu á félagssvæðinu og stuðla að framförum á því sviði.
  • Auka búþekkingu og búmenningu í víðustu merkingu.
  • Gangast fyrir fræðslufundum, fræðsluferðum og skemmtiferðum félagsmanna.
  • Leggja áherslu á snyrtimennsku á bændabýlum og verndun umhverfis og gróðurs.
  • Gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnsýslunni og eiga hlut að hverju því máli sem til heilla getur orðið fyrir samfélagið.

 

5. grein

Aðild að félaginu geta þeir fengið, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, eða til eigin nota, á félagssvæðinu. Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta. Félögum er hætt hafa búskap skal heimil áframhaldandi þátttaka með fullum félagsréttindum. Heiðursfélagar og félagar eldri en 70 ára eru undanþegnir árgjaldi.

 

6. grein

Hver félagsmaður/félagi sem skráður er skal greiða félagsgjald. Einnig er heimilt að leggja gjald á hvert bú sem er í rekstri. Gjald þetta skal ákveðið á aðalfundi.

 

7. grein

Aðalfund skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert, en aukafundi, þegar félagsstjórn telur þess þörf, eða 1/3 félagsmanna óskar þess skriflega við félagsstjórn. Fundarefni og ástæða skal þá tilgreind í fundarboði. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála, nema um sé að ræða lagabreytingar samkvæmt ákvæðum 11. greinar í samþykktum þessum. Á aðalfundi skal eftirfarandi tekið fyrir:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi á liðnu ári.
  2. Endurskoðaður ársreikningur síðasta árs lagður fram til umræðu og samþykktar.
  3. Umræður, tillögur og atkvæðagreiðslur um önnur málefni félagsins.
  4. Kosningar samkvæmt 8. grein.
  5. Ákvörðun um þóknun til stjórnar og skoðunarmanna fyrir störf þeirra.

Aðalfund/félagsfund skal boða bréflega, eða á annan sannanlegan hátt til félagsmanna með minnst 4 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

 

8. grein A

Aðalfundur kýs stjórn félagsins til þriggja ára í senn. Eru í henni formaður, sem kosinn skal sérstaklega, og gjaldkeri og ritari á sama hátt. Skal á hverjum aðalfundi eftir fyrsta árið kjósa einn mann og ræður hlutkesti því um hverja er kosið fyrstu tvö árin, en síðan gildir röðin. Einnig kýs aðalfundur varastjórn eftir sömu reglum. Við kosningu stjórnarmanns hverju sinni eru aðrir stjórnarmenn kjörgengir jafnt öðrum félögum. Verði stjórnarmaður þannig kosinn í annað starf skal kosið í hans stað. Enn fremur kýs aðalfundur tvo skoðunarmenn reikninga og einn varaskoðunarmann til eins árs í senn.

Allir félagsmenn eru kjörgengir og skyldir að taka kosningu eitt kjörtímabil.

Þá skal kjósa fulltrúa á fund Búnaðarsambands Vestfjarða og varamenn þeirra, fulltrúafjöldi fer eftir samþykktum þess.

Framkvæmd kosninga vegna Búnaðarþings fer eftir samþykktum Bændasamtaka Íslands.

 

8. grein B

Aðalfundur kýs stjórn félagsins til þriggja ára í senn. Eru í henni formaður, gjaldkeri og ritari. Stjórnin skiptir með sér verkum. Skal á hverjum aðalfundi eftir fyrsta árið kjósa einn mann í stjórn og ræður hlutkesti því um hverja er kosið fyrstu tvö árin, en síðan gildir röðin. Einnig kýs aðalfundur tvo menn í varastjórn. Enn fremur kýs aðalfundur tvo skoðunarmenn reikninga og einn varaskoðunarmann til eins árs í senn.

Allir félagsmenn eru kjörgengir og skyldir að taka kosningu eitt kjörtímabil.

Þá skal kjósa fulltrúa á fund Búnaðarsambands Vestfjarða og varamenn þeirra, fulltrúafjöldi fer eftir samþykktum þess.

Framkvæmd kosninga vegna Búnaðarþings fer eftir samþykktum Bændasamtaka Íslands.

 

9. grein

Stjórn félagsins fer með málefni þess á milli aðalfunda. Starfsár og reikningsár er almanaksárið. Starfsskýrslu, reikninga og félagaskrá sendir hún til Búnaðarsambands Vestfjarða. Stjórnarfundir eru haldnir svo oft sem þurfa þykir og getur hver stjórnarmaður óskað þess að hann sé haldinn. Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Stjórn heldur gjörðabók, þar skulu skráðar fundargerðir.

 

10. grein

Ósk um félagsaðild skal berast skriflega til stjórnar eða á fund félagsins og skoðast nýr félagi fullgildur uppfylli hann ákvæði samþykkta þessara. Úrsögn skal vera skrifleg og berast stjórn. Félagsmaður er skuldar félaginu félagsgjöld í tvö ár fyrirgerir rétti sínum til félagsaðildar.

 

11. grein

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi og þá með samþykki 2/3 atkvæða fundarmanna. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu fylgja fundarboði. Breytingar á samþykktum skulu sendar Búnaðarsambandi Vestfjarða til staðfestingar.

 

12. grein

Verði félagið lagt niður skulu sjóðir þess, eftir uppgjör skulda, varðveittir hjá Bændasamtökum Íslands. Sjóðinn skal ávaxta með traustum hætti í 10 ár. Rísi samsvarandi félag/búnaðarfélag á starfssvæðinu falla eignir þess því til ráðstöfunar. Að þeim tíma liðnum falla þær til viðkomandi búnaðarsambands, eða arftaka þess. Til að leggja félagið niður skal það samþykkt á löglegum aðalfundi samkvæmt 7. grein og með sama atkvæðafjölda og þarf til að breyta samþykktum þessum samkvæmt 11. grein.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30