Tenglar

10. október 2011 |

Ekki pláss fyrir verðlaunin í bakpokaferð um heiminn

Ágústa Ýr hlaðin viðurkenningunum sem hún fékk.
Ágústa Ýr hlaðin viðurkenningunum sem hún fékk.

Ágústa Ýr Sveinsdóttir frá Skálanesi í Gufudalssveitinni gömlu í Reykhólahreppi er núna á Indlandi í byrjun bakpokaferðar sem á að standa næsta hálfa árið. Með sanni má segja að hún verðskuldi svolítið frí og jafnvel rúmlega það eftir unnin námsafrek og einstakan dugnað. Fyrir tveimur vikum fékk hún sveinsréttindi í rafiðnum og var hlaðin verðlaunum við brautskráninguna, bæði í verklegum og bóklegum greinum. Strax eftir það lagði hún upp í ævintýraferðina um heiminn ásamt vinkonu sinni. Ekki hefur hún verðlaunin sín meðferðis enda er takmarkað pláss í bakpokum.

 

Ágústa útskrifaðist sem fjölmiðlatæknir frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði vorið 2008 og lauk síðan stúdentsprófi frá sama skóla árið eftir. Fyrir jólin 2009 lauk hún námi í rafvirkjun frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti sem hún hafði stundað í kvöldskóla ásamt náminu í Flensborg jafnhliða því að vinna í álverinu í Straumsvík í tvö ár. Auk þess var hún eitt sumar í starfsnámi hjá rafvirkjameistara. Hún segir að þetta hafi tekið á – núna eftir á finnist henni alveg ótrúlegt að hún skuli hafa getað þetta.

 

Foreldrar Ágústu Ýrar eru Andrea Björnsdóttir og Sveinn Hallgrímsson á Skálanesi. Andrea er upprunnin á Akureyri en Sveinn á Skálanesi. Vorið 1988 settust þau að á Skálanesi og gerðust búendur þar ásamt foreldrum Sveins, Hallgrími bónda Jónssyni og Katrínu Ólafsdóttur eiginkonu hans.

 

Árið 1998 fluttist Andrea, sem er þroskaþjálfi, að Laugarbakka í Miðfirði ásamt börnunum sem gengu þar í skóla en Sveinn var áfram við búskapinn á Skálanesi næstu tvö árin. Þá var Ágústa búin að vera þrjá fyrstu veturna í skóla á Reykhólum. Sveinn bættist síðan í hópinn á Laugarbakka tveimur árum seinna þegar hann og Andrea hættu búskap á Skálanesi.

 

Þau fluttust svo aftur þangað vestur árið 2008. Voru samt alltaf fyrir vestan í fríum, í æðarvarpinu og öðru sem til fellur í sveitinni. Eins og að líkum lætur þegar gætt er að upprunanum er Ágústa Ýr mikið náttúrubarn og náttúruunnandi. Hún segist alltaf og hefur alltaf sagst vera Vestfirðingur. Það er og hefur verið mjög ríkt í þeim systkinunum öllum að vera frá Skálanesi.

 

Systkinin frá Skálanesi, börn Andreu og Sveins, eru fjögur. Elstur er Björn Orri 25 ára, síðan kemur Ágústa Ýr sem er 22ja ára, svo Björgvin Logi 18 ára og loks Aldís Eir 16 ára. Yngstu krakkarnir eru komnir í Fjölbrautaskólann á Akranesi. Sá elsti býr á Akranesi og starfar í álverinu á Grundartanga.

 

Þó að ekki sé nema hálfur mánuður frá því að Ágústa Ýr lagði upp í bakpokaferðina miklu um heiminn ásamt vinkonu sinni eru þær þegar komnar til Indlands. Samt ekki svo að skilja að þær hafi lagt þessa leið að baki fótgangandi á þessum tíma. Að vísu eru þær léttstígar enda ekki með neitt meðferðis nema bakpokana sína.

 

Þær ætla að ferðast um Asíu næstu þrjá mánuði. Meðal landa á dagskránni þar, auk Indlands, eru Nepal og Víetnam. Frá Asíu stefna þær á Ástralíu rétt fyrir jólin, fara þaðan til Nýja-Sjálands og koma svo við á Cook-eyjum langt austur á Kyrrahafi áður en þær fara til Bandaríkjanna í mars áður en þær koma aftur heim til Íslands með viðkomu í Lundúnum.

 

Ferðalagið byrjaði með flugi til Þýskalands þar sem þær stöllur voru á Októberhátíðinni frægu í München, flugu þaðan til Lundúna og síðan til Nýju-Delhi á Indlandi. Í morgun lögðu þær upp í tíu daga bílferð um Indland með bílstjóra sem jafnframt er leiðsögumaður.

 

Aðalfréttin á baksíðu Morgunblaðsins fyrir stuttu var helguð því þegar Ágústa Ýr og Sylvía Dagsdóttir frá Seyðisfirði „sópuðu til sín“ öllum verðlaunum á sveinsprófi í rafiðnum. „Ég vann einu sinni við kvikmyndahátíðina RIFF og ætlaði fyrst að verða sýningarstjóri, þá þarf maður að læra grunninn í rafvirkjun en ég féll alveg fyrir þessu“ sagði Ágústa í spjalli við Morgunblaðið. Hún sagði karlana í Straumsvík hafa tekið sér vel. „Ég var eina konan. Sumum finnst pínu erfitt í byrjun að kyngja því þegar maður segir að eitthvað eigi að vera öðruvísi. En flestir eru alveg ótrúlega indælir, mér finnst þægilegt að vinna með körlum. Og svo verður maður að svara þeim þegar nauðsyn krefur!“

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, mnudagur 10 oktber kl: 19:50

En frábært, þetta er sko örugglega alveg geeeeðveikt, vonandi verður bara gaman hjá þeim;-9

Solla Magg, mnudagur 10 oktber kl: 20:42

Þetta er stórkostlegt hjá Ágústu Ýr hún er snillingur og hefur staðið sig alveg frábærlega vel .

Magnús S. Gunnarsson, mnudagur 10 oktber kl: 22:37

Halli og Kata mega vera stolt af barnabarni sínu og að sjálfsögðu foreldrarnir líka.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30