Tenglar

16. júní 2011 |

Facebook-söfnun vegna gönguferða um Jónsmessu

Við Vaðalfjöll á Jónsmessunótt.
Við Vaðalfjöll á Jónsmessunótt.
Ef Facebooksíðan Gengið um sveit, Reykhólahrepp nær 150 „aðdáendum“ verður dreginn út vinningur, frítt í tvær stuttar göngur eða langa göngu án kjötsúpu fyrir tvo. Göngurnar verða í fjóra daga kringum Jónsmessuna en þar af er raunar ein hjólaferð. Einfalt er að taka þátt í þessu. Smellið á „Líkar þetta“ og deilið, kvittið síðan í athugasemdir og þið eruð komin í pottinn, segir Harpa Eiríksdóttir, ferðamálafulltrúi Reykhólahrepps. Dregið verður á morgun, 17. júní, og kemur nafnið fram á síðunni. Hún minnir fólk líka á að skrá sig í netpósti eða síma 434 7830 og taka þátt í skemmtilegri gönguhelgi. Sjá nánar um göngurnar hér fyrir neðan.

 

 

Gengið um sveit - Reykhólahrepp

 

 

Fimmtudagur 23. júní

 

Barnaganga

Fararstjóri Harpa Eiríksdóttir.

Mæting við upplýsingamiðstöðina á Reykhólum kl. 18 og þaðan farið í skemmtigöngu fyrir krakka upp á Grundarfjall. Gangan mun taka 2-3 tíma. Hækkun 200-300 m. Gott að taka með létt nesti.

 

Jónsmessuganga á Vaðalfjöll

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson.

Mæting við Hótel Bjarkalund kl. 22.45. Fólk fer á eigin bílum áleiðis upp að Vaðalfjöllunum. Vegurinn upp eftir er vel jeppafær. Síðan er gengið að Vaðalfjöllunum og upp. Þaðan er mjög gott útsýni. Áætlað að vera þar um miðnættið. Leiðin upp á sjálf Vaðalfjöllin er frekar brött en þó er ekki um klifur að ræða. Fólk fer síðan heim þegar því hentar.

 

 

Föstudagur 24. júní

 

Gufudalsháls

Leiðsögumaður Þröstur Reynisson.

Mæting við Neðri-Gufudal kl. 10. Þar er sameinast í bíla og ekið að Galtará við Kollafjörð. Þaðan er gengin gamla gatan yfir Gufudalshálsinn og komið niður í Gufudal. Áætluð lok um kl. 14. Vegalengd 4-5 km. Hækkun rúmir 300 m.

 

Skálaneshraun

Leiðsögumaður Þröstur Reynisson.

Mæting hjá Skálanesi kl. 15. Gengið um Skálaneshraunið sem er mjög fallegt vestfirskt „hraun". Áætluð lok um kl. 17. Vegalengd 2-3 km.

 

Óvissuganga um Geiradal

Leiðsögumaður Sveinn Ragnarsson.

Mæting kl. 18 við gamla kaupfélagshúsið í Króksfjarðarnesi. Gangan mun taka 2-3 tíma. Um kvöldið er síðan stefnt á varðeld við Bjarkalund og grillað verður ef veður leyfir.

 

 

Laugardagur 25. júní

 

Hofsstaðir - Laugaland - Staður

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson.

Lagt af stað kl. 10 frá Hofsstöðum. Afleggjarinn að Hofsstöðum er rétt vestan við Bjarkalund. Frá Hofsstöðum verður farið gangandi út með Þorskafirðinum. Þegar í Laugaland er komið verður boðið upp á kjötsúpu sem er innifalin í fullu verði á ferðinni (það þarf að taka fram þegar fólk skráir sig í gönguna hvort það vilji kjötsúpu eða ekki). Leiðsögn lýkur við kirkjuna á Stað. Áætluð lok um kl. 16. Þetta er létt ganga og hæðaraukning mjög lítil. Farið verður frekar hægt yfir og stoppin mörg. Því ætti þetta að vera ferð sem hentar flestum. Vegalengdir: Hofsstaðir - Laugaland um 10 km. Laugaland - Staður um 5 km. Heildarvegalengd rúmir 15 km.

 

Borgarland

Leiðsögumaður Þröstur Reynisson.

Mæting kl. 18 við reiðvöllinn á leiðinni út að Borg. Gangan tekur 2-3 tíma. Gengið verður um Borgarlandið og út að Bjartmarssteini.

 

 

Sunnudagur 26. júní

 

Hjólreiðaferð fyrir Gilsfjörð

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson.

Lagt af stað kl. 12 frá Vogalandi í Króksfjarðarnesi. Hjólað verður fyrir Gilsfjörð og svo yfir Gilsfjarðarbrúna til baka í Króksfjarðarnes. Hjólað er á malarvegi fyrir fjörðinn og á malbiki yfir fjörðinn. Hægt verður að fylgja hópnum á bílum og í raun má hjóla hvaða hluta leiðarinnar sem menn kjósa. Nokkrar brekkur eru á leiðinni en þær eru frekar stuttar og ekki mjög brattar. Nestisstopp verða á leiðinni. Áætluð lok um kl. 16. Heildarvegalengd um 31 km.

 
Hægt er að kaupa helgarpakka og fjölskyldupakka með öllum göngunum inniföldum og 50% afslætti í sund á svæðinu, í þaraböð og á sýningu Bátaverndar og hlunnindanytja. Sami afsláttur verður fyrir þá sem skrá sig í tvær stuttar göngur eða í löngu kjötsúpugönguna á laugardeginum.
 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30