Tenglar

22. mars 2012 |

Fuglaskoðun er vannýtt auðlind Breiðafjarðar

Hvaða fuglategund er þetta og hvaða sker úti á firði? Nánar í meginmáli.
Hvaða fuglategund er þetta og hvaða sker úti á firði? Nánar í meginmáli.

„Fuglaskoðun innlendra og erlendra ferðamanna hefur aukist talsvert síðustu ár. Enn eru þó ónýtt tækifæri á þessu sviði til markaðssetningar svæða á Íslandi til fuglaskoðunar. Víðast hvar er skortur á stöðluðum skráningum fuglalífs sem nýtast við kynningu svæða til fuglaskoðunar,“ segir í nýútkominni skýrslu um athuganir á fuglalífi á Snæfellsnesi og í Dölum á liðnu sumri. Undirtitill hennar er Grunnupplýsingar ætlaðar ferðaþjónustu og ferðamönnum. „Snæfellsnes og Breiðafjörður eru rík af fuglalífi og er ljóst að þegar kemur að fuglaskoðun er hér um vannýtta auðlind að ræða“, segir þar einnig.

 

Hér má minna á, að mestur hluti Breiðafjarðar og Breiðafjarðareyja er innan vébanda Reykhólahrepps.

 

Nokkrar glefsur úr skýrslunni, sem unnin var af starfsmönnum Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi: 

  • Talið er að yfir 150 þúsund innlendir og erlendir ferðamenn hafi skoðað fugla á ferðum sínum um Ísland árið 2008. Yfir tíu ára tímabil eða frá árinu 1998 til ársins 2008 var einnig áætlað að fjöldi erlendra ferðamanna sem skoðaði fugla eitthvað í Íslandsferð sinni hafi aukist um 60 þúsund manns, eða úr 45 þúsund í 105 þúsund.
  • Framvinda fuglatengdrar ferðamennsku á Íslandi síðustu ár hefur því verið hröð og er góð ástæða til að bæta söfnun grunngagna um fuglalíf og miðlun þeirra, ásamt því að vinna vel að verkefnum á sviði markaðssetningar fyrir fuglaskoðara og þeim atvinnutækifærum sem hún hefur upp á að bjóða.
  • Breiðafjörður er m.a. þekktur fyrir mikinn fjölda eyja, hólma og skerja, sem telja hátt í þrjú þúsund en slík búsvæði geta hentað vel fyrir ýmsar tegundir fugla að verpa á. Svæðið er stærsta grunnsævis- og fjörusvæði landsins og byggja margar tegundir fugla afkomu sína á þeim, þá einna helst sjó- og strandfuglategundir.
  • Bæði yfir varp- eða fartíma fugla er Breiðafjörður mikilvægur ýmsum stofnum fugla en hann er talinn hafa alþjóðlegt mikilvægi fyrir fuglalíf. Á firðinum eru t.d. stærstu díla- og toppskarfabyggðir landsins, tveir þriðju arnarstofnsins og tæplega þriðjungur æðarstofnsins verpa við fjörðinn en auk þeirra kemur stór hluti heimsstofns margæsar, tildru og rauðbrystings þar við á fartíma.

Skýrslan í heild (pdf)

 

Myndina tók hinn landsþekkti fuglaáhugamaður, fuglabókarhöfundur og áhugaljósmyndari sr. Sigurður Ægisson á Siglufirði 21. maí 2008. Þá dvaldist hann nokkra daga á Reykhólum og brá sér m.a. í bátsferð út um eyjar og sker með Birni Samúelssyni til að skoða fugla og taka myndir.

 

Hvaða fuglategund er á myndinni og hvað heitir skerið?

 

Athugasemdir

Harpa Eiríksdóttir, fimmtudagur 22 mars kl: 20:14

Ég vil segja Skarfaklettar og það sé skarfsungar á myndinni, tel þetta vera dílaskarfsungar... en þetta er ekki mín sterkasta hlið, bara skemmtilegt að giska. hvet alla til að giska

Vilhjálmur Arnórsson, fimmtudagur 22 mars kl: 20:20

Toppskarfsungar á Hrólfskletti við Flatey???

Harpa Eiríksdóttir, fimmtudagur 22 mars kl: 23:14

gæti nú líka verið Kirkjusker og held enn fram að þetta séu dílaskarfsungar...

Björk Stefánsdóttir, fimmtudagur 22 mars kl: 23:16

Skoðaði fuglabók og er sammála Hörpu, held að þetta sé dílaskarfungar, annars hef ég ekki hugmynd og veit ekki hvar þetta er ;-)

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, fstudagur 23 mars kl: 10:45

Réttu svörin - eða staðfesting á réttum svörum - koma hér í athugasemdum þegar líður á morgundaginn. Fleiri tilgátur þangað til?

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, laugardagur 24 mars kl: 18:51

Rétt hjá Hörpu í seinni atrennu: Dílaskarfsungar í Kirkjuskeri.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31