Tenglar

17. mars 2012 |

Gátan: Svarendur og handrit Eysteins sjálfs

Tún-garður.
Tún-garður.

Vefnum bárust tólf réttar lausnir á gátu Eysteins í Skáleyjum, sem hér var birt fyrir nokkrum dögum. En ekki nóg með það - samband hafði kona sem átti gátuna í fórum sínum frá hendi Eysteins sjálfs um miðjan síðasta áratug. Eins og tekið var fram þegar gátan var birt hér, þá var ekki full vissa um alla orðanna hljóðan og þess vegna hnoðað í skörðin. Nú hefur verið bætt úr því og þannig er gátan frá hendi höfundar:

 

          Ég er vörður um bændanna ræktaða reit,

          og rósirnar fóstra ég víða,

          á suðvestur-Íslandi útkjálkasveit,

          ég er óðalið stóra og fríða.

          Ég er glæsileg keðja af fannþöktum fjöllum,

          ég fossa við strendur með drynjandi sköllum.

          Ég æði úr norðri og ýfi upp dröfn,

          ég er eldgamalt hús úti í Kaupmannahöfn.

 

Jóhannes Geir Gíslason, bróðir Eysteins, telur sig reyndar muna með vissu að áður fyrr hafi í síðasta vísuorðinu verið talað um eldgamla stofnun en ekki eldgamalt hús. Vel er þekkt að fleygar vísur gangist til í munni fólks - og hvers vegna ekki líka hjá höfundunum sjálfum ef svo ber undir?

 

Réttar lausnir bárust frá þeim sem talin eru hér fyrir neðan og í þeirri röð. Athygli vekur, að þar er í tíu tilvikum um að ræða fólk búsett utan Reykhólahrepps þó að a.m.k. flest eigi meiri eða minni tengsl við héraðið. Innan sviga tilgreinir vefhaldari eitthvað nánara sem hann veit eða man í svipinn um þessa málvini vefjarins (í síðasta póstinum sem barst með réttu svari var aðeins hægt að sjá að hann var sendur frá fyrirtæki í Mosfellsbæ en ekkert mannsnafn fylgdi).

 

Fyrir fyrsta rétta svarið var lofað klappi á bakið við hentugleika. Við það verður staðið og gott betur: Allt það fólk sem hér er talið fær slíka trakteringu þegar færi gefst - og líka þeir sem sendu póst en voru ekki með rétt svar. Kærar þakkir fyrir áhugann og þátttökuna.

 

▪ Hrafnkell Daníelsson

        (afi hans var Jón Daníelsson bóndi í Hvallátrum á Breiðafirði)

Vilhjálmur Arnórsson frá Króksfjarðarnesi

Sigurmar Kristján Albertsson

        (með náin tengsl við Flatey á Breiðafirði)

Inga Birna og Hjalti, Reykhólum

Georg Jón Jónsson, Kjörseyri

Ari Óskar Jóhannesson

        (hleðslumeistarinn landsþekkti frá Múla í Gufudalssveit - hann ætti að kannast við tún-garð!)

Guðmundur Beck

        (austfirskur að uppruna en rammbreiðfirskur í móðurætt, amma hans úr Skáleyjum en afi hans frá Barmi í Gufudalssveit)

Emil Ragnar Hjartarson

        (frá Flateyri, sonur Hjartar Hjálmarssonar skólastjóra og sparisjóðsstjóra, bróður ættmóðurinnar miklu Steinunnar Hjálmarsdóttur á Reykhólum)

Kristbjörg Sunna Reynisdóttir, Reyðarfirði

Indiana Ólafsdóttir, Reykhólum

Jóhannes Kristjánsson

        (rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Ísafirði)

Nýja bílasmiðjan

 

Georg Jón Jónsson segir í svarpóstinum: Þetta er skemmtileg gáta og vel gerð eins annað sem Eysteinn Gíslason hefur látið frá sér fara.

Guðmundur Beck: Þetta er mjög skemmtileg gáta til þess að leggja út af í kennslu. Dálítið augljós fyrir okkar kynslóð - lausnarorðið ljóst við fyrstu línurnar.

Emil R. Hjartarson: Við Eysteinn áttum mörg góð ár saman í grunnskólanum á Flateyri þar sem við kenndum báðir. Annar eins öðlingur og hæfileikamaður er vandfundinn.

 

Lausnin á gátunni er garður (Garður) og má finna það orð eða heiti í hverju vísuorði (línu).

 

Lausnarskýringar:

 

     Ég er vörður um bændanna ræktaða reit

             tún-garður, vallar-garður

 

     og rósirnar fóstra ég víða

             blóma-garður, skrúð-garður

 

     á suðvestur-Íslandi útkjálkasveit

             Garður á Reykjanesskagatá (nú Sveitarfélagið Garður)

 

     ég er óðalið stóra og fríða.

             herra-garður

 

     Ég er glæsileg keðja af fannþöktum fjöllum

             fjall-garður

 

     ég fossa við strendur með drynjandi sköllum.

             brim-garður

 

     Ég æði úr norðri og ýfi upp dröfn

             norðan-garður

 

     ég er eldgamalt hús úti í Kaupmannahöfn.

             Collegium Domus Regiae (Regensen), stúdentagarður Kaupmannahafnarháskóla, nefndist Garður í munni íslenskra Hafnarstúdenta

 

14. mars 2012  Gáta úr Skáleyjum: Lausn og kórrétt útgáfa óskast

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30