Tenglar

6. maí 2011 |

Handverksfélagið Assa: Félagatalan tvöfaldaðist

Frá handverkssýningu heimilisfólks í Barmahlíð á sumardaginn fyrsta.
Frá handverkssýningu heimilisfólks í Barmahlíð á sumardaginn fyrsta.
Sölumálin hjá Handverksfélaginu Össu í Reykhólahreppi voru mjög til umræðu á aðalfundi félagsins í fyrrakvöld eins og að var stefnt. Fyrir liggur að handverkssala verður í sumar í Kaupfélaginu í Nesi. Áhugi er fyrir því að hafa opið alla daga í 6-8 vikur frá miðjum júnímánuði ef starfskraftur fæst á viðráðanlegu verði. Auk þess munu félagar leggja fram sjálfboðavinnu um helgar og þá verður selt kaffi og vöfflur. Í aðalstjórn félagsins voru kjörin Sóley Vilhjálmsdóttir, Erla Björk Jónsdóttir og Sveinn Ragnarsson. Fram kom í ársskýrslu Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, fráfarandi formanns, að félagatalan hafi tvöfaldast á árinu. Ársskýrslan fer hér á eftir í heild:

 

 

Skýrsla stjórnar fyrir árið 2010

 

Handverksfélagið Assa hélt aðalfund sinn árið 2010 þann 27. apríl í Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi.

 

Frá síðasta aðalfundi höfum við haldið fimm stjórnarfundi, aðallega vegna umræðu um sölumál. Félagatala tvöfaldaðist á árinu, sem er alveg metfjölgun miðað við síðustu ár. Engum vafa er undirorpið að sú breyting sem varð í sölumálum á stærstan þátt í því, en auk þess reyndum við stjórnarkonur að laða til okkar handverksfólk víða að til að auka fjölbreytni í vöruúrvali. Var það haft á orði af þeim sem versluðu að handverkið væri mjög fjölbreytt.

 

Sú breyting varð í sölumálum félagsins, að við vorum með sölu í Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi frá 17. júní til loka ágúst. Einnig vorum við með sölu á Ólafsdalshátíð og bryggjudögum á Drangsnesi. Síðan var opið réttarhelgina í september og síðan jólasala með öðrum félögum helgina fyrstu í aðventu í lok nóvember. Við höfðum opið allar helgar föstudaga til sunnudaga frá opnun til loka ágúst og var þetta einungis sjálfboðavinna félagsfólks. Þá var einnig bætt við að hafa nytjamarkað og bókamarkað sem vakti mikla ánægju viðskiptavina. Og að ógleymdu kaffi með nýbökuðum vöfflum allar helgar. Einnig fór fram sýning myndlistarmanna í húsnæðinu og var þá opið alveg í tvær vikur samfellt í júlí. Á Reykhóladögum vorum við svo með veislukaffi á sunnudeginum. Gekk öll þessi sala mjög vel eins og kemur fram í ársreikningi. Það var allmikil vinna lögð í að koma sölunni upp í Kaupfélaginu og voru það aðallega stjórnarkonur sem unnu að því vikurnar áður en opnað var, en við fengum góða aðstoð frá ýmsum fleiri sem hjálpuðu til.

 

Þá vil ég geta þess, að í mars 2010 héldum við námskeið í tálgun sem var ágætlega sótt og greiddi félagið að mestu kostnaðinn við það. Kennari var Helgi Björnsson frá Hvammstanga.

 

Salan á bókum og nytjamarkaðsvörum gekk mjög vel og var í upphafi ákveðið að láta það ganga til góðra málefna í heimabyggð. Við Erla Björk afhentum síðan í desember 150.000 krónur sem skiptust jafnt á milli Vinafélags Barmahlíðar, Vinafélags Grettislaugar og til Bókasafns Reykhólahrepps til tölvukaupa.

 

Einnig má geta þess, að félagið auglýsti í vetur föndurkvöld í Vogalandi tvisvar í mánuði og voru þau vel sótt alla jafna.

 

Á aðalfundi í fyrra var Erla Björk Jónsdóttir kosin í stjórnina til þriggja ára og er hún gjaldkeri félagsins. Aðrir í stjórn eru nú Guðlaug Guðmundsdóttir sem hefur verið ritari í 3 ár og Jóna Valgerður formaður síðastliðið ár en hafði áður verið gjaldkeri í 4 ár. Í varastjórn eru Sóley Vilhjálmsdóttir, Ingibjörg Kristjánsdóttir og Guðbjörg Karlsdóttir.

 

Ég vil þakka þessum stjórnarkonum mínum fyrir mikla sjálfboðavinnu á síðasta ári og alveg sérstaklega Erlu Björk sem tók að sér gjaldkerastarfið, sem reyndist vera alveg gífurleg vinna vegna þess hversu mikil sala varð á árinu.

 
- Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30