Tenglar

19. desember 2012 |

Hreppaþras um útfararkostnaðinn stóð árum saman

Fyrir skömmu kom út hjá Vestfirska forlaginu æviágrip og nokkur hluti ljóðasafns alþýðuskáldsins Tómasar Guðmundssonar Geirdælings, eins og hann kallaði sig, en almennt var hann nefndur Tómas víðförli. Hann fæddist á Gilsfjarðarbrekku 1827 eða 1828 en kenndi sig stundum við Gróustaði. Þegar á ævina leið var hann löngum förumaður á Vestfjarðakjálkanum. Enda þótt hann hafi verið á miklum flækingi mun hann einna mest hafa verið á ýmsum bæjum í Geiradal og á Ströndum. Kvæði Tómasar hafa ekki komið út áður þó að slíkt hafi verið draumur hans.

 

Lárus Jóhannsson safnaði saman kvæðum Tómasar eftir því sem kostur var, dró saman heimildir um skáldið og förumanninn og ritaði æviágrip hans. Titill bókarinnar er Andvaka, lífshlaup og ljóð Tómasar skálds Geirdælings hins víðförla.

 

Tómas Guðmundsson ólst upp við örbirgð, missti móður sína barnungur og lenti á sveit meira og minna fram á unglingsár og öðru hvoru síðar á ævinni. Snemma stefndi hugur hans hátt og þótti hann efnilegur við kveðskap strax á unglingsaldri. Hann þyrsti í þekkingu og menntun, en það var draumsýn fátæklings að veraldlegum verðmætum sem aldrei gat ræst. Hann gerði sér vel grein fyrir þeirri stöðu sinni en aflaði sér þess í stað þekkingar með lestri íslenskra og erlendra bókmennta hvar sem hann náði til þeirra.

 

Förumaðurinn og skáldið Tómas Geirdælingur hinn víðförli varð úti á göngu sinni stuttan veg milli bæja á Ströndum á jólaföstu 1895, nær sjötugur að aldri. Líkið fannst viku síðar og stóðu hreppstjórar árum saman í bréfagerðum varðandi útfararkostnaðinn enda hafði skáldið aldrei efnast svo mjög á lífsleiðinni að eiga fyrir útförinni.

 

Klausur úr formála Lárusar Jóhannssonar:

  • Sagan sem hér er sögð er að mestu byggð á heimildum. Heimildir um sögu Tómasar skálds Guðmundssonar Geirdælings eru yfirleitt ekki margorðar og hér vonandi ekki tæmandi. Heimildirnar sem tekist hefur að afla hér og safna koma úr ýmsum áttum, mestmegnis úr kirkjubókum, sóknarmannatölum (sálnaregistrum), manntölum, hrepps- og sveitarbókum, dagbókum, ljóðasafni og samtíningi Halldórs Jónssonar frá Miðdalsgröf.
  • Einstaka sögur af Tómasi hafa lifað, en þá helst sögur af breyskleika, ómegð og óreglu hans á seinni árum og frekar á neikvæðan hátt en hitt. Lítið hefur verið skrifað um hans eigin persónu, mótbyr í lífinu, listamannshæfileika og þekkingu. Ekki er vitað til að Tómas hafi haldið dagbækur eða skrifað um sjálfan sig, enda ekki maður sem bar lífshlaup sitt á torg. Þess í stað hefur hann valið að nota hæfileika sína í kveðskap og ljóðmáli til að lýsa líðan sinni, trú og tilfinningum. Úr ljóðum hans má lesa nokkuð vel hugsanir hans, væntingar og vonbrigði og ekki síður það sem milli línanna stendur. Tómas gekk yfirleitt með skrifbók á sér, sem hann skrifaði ljóð sín í. Heimild er til fyrir því að Tómas hafði haft áhuga á að birta eitthvað af ljóðum sínum eða gefa út, en sá draumur varð heldur ekki að veruleika vegna fátæktar. Bók þessa sem aldrei varð nefndi hann Amlóðann.
  • Í þessu fyrra bindi ljóðasafnsins er saga Tómasar rakin en að henni lokinni birtast ljóð hans sem tímasett hafa verið og raðað í réttri tímaröð eftir því sem mögulegt er. Ótímasett ljóð Tómasar munu birtast í seinna bindi ljóðasafnsins.

 

Einar Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði, ritstjóri á Ísafirði, bróðir sr. Matthíasar, ritaði firnalanga grein um Tómas. Var þar sumt ófagurt og undarlegt en sjálfur var Einar sjálfur álitinn undarlegur á síðari hluta ævinnar. Hann taldi sig hafa orðið gagntekinn af dæmandi spásagnaranda í Reykhólakirkju á nýársdag og taldi sig prédika eins og spámaður, sem vald hafi fengið frá Guði en ekki mönnum. Á sínum tíma var Einar Jochumsson oddviti og hreppstjóri í Geiradalshreppi og bænda efnaðastur en það var áður en fyrrnefndur andi tók sér bólfestu í honum. Hér segir Einar frá fyrsta samfundi þeirra Tómasar:

  • Ég ætlaði ekki að trúa sjálfum mér, að það væri aumingja Tumi [Tómas], bráðnæmi Geirdælingurinn, sem ég heyrði svo oft talað um í ungdæmi mínu. Við kysstumst; það fór titringur um mig allan; tár komu á kinnar mér, útlit hans var voðalegt. Andlitsfarvinn bleikur, engin holddróg í kinnum hans, augun rauð og vot inn í höfðinu, útlitið flóttalegt. Maðurinn var hreint búinn að missa alla verulega mannsmynd.
  • Það var sem Kristur hvíslaði að mér, að hér væri sá hrasaði. Ég spurði ekki Tómas um æviferil hans, ég var búinn að heyra nógar sögur af honum, það var sjón sögu ríkari, að bölvun þrælaheimsins hafði fest rætur í hjarta hans; en blessunarandi drottins vors ekki fengið neitt ráðrúm til að ala sig í brjósti þess kristna lims. Öfund, örvænting, mannlast og óstjórnlegt sjálfsálit lýsti að ávextirnir voru upp komnir af þeim heiðindóm er látið var í barnshjartað.
  • Tómas var að sönnu búinn að geta sér víðfrægara nafn en ég; búinn að lesa ofan í sig ýmis fræðirit er ég hefi aldrei í litið. Grísk og rómversk skáldskaparrit, hersögur og rómana, eiga börn í lausaleik, drekka ótakmarkaða pottatölu af rommi, brennivíni og öðru áfengi er hann í náði, ráfað svo fram og aftur um fjórar sýslur landsins, með sínar bættu buxur, fullar af andlegu og líkamlegu fóðri hans. Nefbjörg sína geymdi hann í stórum hrútspung, sem var nú tómur í þetta skipti.
  • En andlega björgin, sem í buxunum bjó, ræfill af Snorra-Eddu, Grýlukvæði, Sultar-bragur, Göngu-Hrólfs-rímur, Svarfdæla. Þjóðsögur eftir Jón Árnason þá ný útgefnar, Machbet, Gandreiðin, gamall Grallari og ég man ekki hvað fleira, og var hann þó ekkert dulur á eigum sínum. Tóm tunna og flöskur skröltu þar innan um; en á brjóstinu bar hann efnið í sína stóru ljóðabók, er hann þá var búinn að skíra Amlóða. Og er mjög sorglegt að önnur eins stórkostleg útgáfa!! skuli ekki vera komin í dagsljósið.
  • Það gefur öllum að skilja, þar eð önnur eins hamhleypa eins og Tómas er, hefur unnið að henni mest það er af er ævi hans, og æft sinn meðfædda skáldskaparanda með því að lesa mestu skáldrit heimsins.

 

Síðar segir Einar Jochumsson í grein sinni um Tómas Geirdæling:

  • Hvað oft ég hýsti Tuma og gaf honum spjör til að hylja sig í. Það hefi ég ekki skrifað í vasabók mína, ekki heldur hvað mörg líknaryrði ég lagði honum, þá átti að misbjóða frelsi hans og setja hann á meðgjöf, svo hann flakkaði ekki á móti lögum, um þrjár og fjórar sýslur landsins, sumar og vetur, stundum bandvitlaus af ölæði, því brennivíns hamhleypa meiri hefir vart verið uppi á þessari síðustu brennivínsöld.
  • Svo dugði ég Tómasi vel, þó á móti lögum væri, að afskúmið aldrei var settur á hreppinn; aðeins gefið ríflega upp á sig aftur enn einu sinni, skinn og feitmeti, og honum lofað að fórna því í guðum sínum, hann brenndi það og allri gæfu sinni á því altari er hann frá æsku helgaði Amlóða, Bakkus og Amor girndaguð!
  • Þetta hefði mér nú ekki þótt eins sárt, hefði ég ekki fundið að Tómas var að réttu lagi prýðisvel gáfaður, bæði næmur, minnugur og hafði fjölbreyttar gáfur til sálar og líkama; lagvirkur þá sjaldan hann bar við að taka á verki. Þaullesinn í fornum og nýjum bókum, sem von er, þar maðurinn hefir allan aldur sinn ekki gert annað en éta, drekka, lesa og skera tóbak í nefið á sér, sem teljandi sé. Því fyrir utan það að labba eða skríða bæja á milli til að baktala og ljúga á náungann. Stöku sinnum fór hann þó á sjó oftast á Gjögri eða Snæfjöllum.

 

Saga Tómasar Guðmundssonar Geirdælings hins víðförla er saga brostinna vona, saga ásta og ástarsorga, saga ómegðar og barnamissis. Og saga af víðlesnu og stórmerku alþýðuskáldi sem var á hrakhólum alla sína tíð og átti ekki einu sinni fyrir útförinni þegar yfir lauk.

 

Bækurnar að vestan

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30