Tenglar

20. desember 2015 |

Mæðgin og meistarapróf

Áslaug og Ásbjörn með ritgerðirnar.
Áslaug og Ásbjörn með ritgerðirnar.
1 af 2

Væntanlega er ekki algengt að mæðgin ljúki meistaraprófi frá Háskóla Íslands á nánast sama tíma. Þau Ásbjörn Egilsson og Áslaug Berta Guttormsdóttir móðir hans á Mávavatni á Reykhólum gerðu þetta samt núna í sumar og haust og bæði með mjög lofsamlegum vitnisburði. Ásbjörn brautskráðist 20. júní með MS-próf á verkfræði- og náttúruvísindasviði, Áslaug brautskráðist 24. október með MA-próf á menntavísindasviði.

 

Lokaritgerð Ásbjörns ber titilinn Frumathugun á virkjun Múlaár í Gilsfirði. Lokaritgerð Áslaugar ber titilinn Fósturbörn og skólaganga: Samvinna, þátttaka og valdefling. Ritgerð Ásbjörns er um 100 blaðsíður en ritgerð Áslaugar um 120 blaðsíður (í heldur minna broti).

 

Á því er munur eftir deildum í Háskóla Íslands hvernig prófdómarar setja fram mat sitt á lokaverkefnum til meistaraprófs. Í tilviki Ásbjörns var gefin einkunn ásamt því sem hann fékk munnlega umsögn. Í tilviki Áslaugar var ekki gefin einkunn heldur lögð fram skrifleg umsögn. Bæði luku verkefnum sínum með láði (cum laude eins og kallað var á latínu fyrrum og fram eftir síðustu öld hérlendis, eða með fyrstu ágætiseinkunn). Lokaeinkunn Ásbjörns var 9,13 en lokaorð prófdómara í skriflegri umsögn um verkefni Áslaugar eru á þessa leið:

 

Ritgerð Áslaugar Bertu Guttormsdóttur er einstaklega vel skrifuð og innihaldsrík auk þess sem í henni felst ný og bætt þekking á viðfangsefni sem hvorki hefur verið mikið skrifað um né rannsakað á Íslandi. Fræðileg greining og heimildavinna er mikil og góð og rannsóknarvinnan einstök, bæði undirbúningur, framkvæmd og hvernig lýsingu á vinnunni er komið til skila í ritgerðinni. Ábendingar um lengd og nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara breyta því ekki að prófdómari telur að Áslaug Berta hafi staðið með láði.

 

„Ábendingar um lengd“ merkir ekki að ritgerðin hafi verið of stutt; þvert á móti hafi hún verið óþarflega löng. Í meginmáli í umsögninni sjálfri segir prófdómari m.a. um ritgerð Áslaugar:

 

„... og jafnan er betra að hafa ritgerðir eins knappar og mögulegt er. Það er hins vegar sjaldgæft að lesa námsverkefni, jafnvel til MA-gráðu, sem er jafn vel skrifað, auðlesið og innihaldsríkt og þessi ritgerð. Til marks um það gat prófdómari varla lagt ritgerðina frá sér fyrr en að lestri hennar lauk. Einkum er viðtalskaflinn (niðurstöður) áhrifamikill og ákaflega vel gerður hvernig sem á hann er litið, skilningur og greining á viðfangsefninu og nærgætni og virðing í garð ungmennanna sem voru viðmælendur Áslaugar. [...] Viðfangsefni Áslaugar Bertu er afar mikilvægt fyrir starf og stefnumótun í barnavernd og skólastarfi. Í því felst mikill fengur og viðbót við fremur fátæklegar rannsóknir á skólagöngu og lífi fósturbarna á Íslandi, sem tekst ekki síst með því að fá fram viðhorf nokkurra ungmenna sem miðla reynslu og lýsingu á lífi sínu sem fósturbörn og nemendur. [...] Niðurstöður ritgerðarinnar þyrfti að nýta til kynningar og samræðu allra þeirra aðila sem koma að uppeldi og námi fósturbarna á Íslandi.

 

Hér á vefnum var fyrir tæpu ári (tengillinn fyrir neðan) greint ítarlega frá lokaverkefni Ásbjörns Egilssonar, honum sjálfum, námsferli og störfum. Tilefnið var að honum hafði hlotnast veglegur námsstyrkur úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar fyrir góðan árangur í meistaranáminu. Ásbjörn er stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 2009 og fékk þar viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi. 

 

Hlaut styrk til rannsókna á virkjun Múlaár í Gilsfirði

 

Áslaug lauk stúdentsprófi frá MR árið 1985 (umsjónarmaður þessa vefjar leyfir sér að nefna hér til gamans, að sjálfur lauk hann stúdentsprófi frá þeim sama skóla þegar Áslaug var nokkurra mánuða gömul). Hún lauk síðan B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1990 og Dipl.Ed-gráðu í sérkennslufræðum frá sömu stofnun árið 2001.

 

Leiðbeinandi Áslaugar í lokaverkefninu var dr. Guðrún Kristinsdóttir, sem hefur tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kvenna og barnaverndarstarfi í áratugi. Hún hlaut Menningarverðlaun DV og Fjöruverðlaunin (bókmenntaverðlaun kvenna) fyrir rannsóknina/bókina Ofbeldi á heimili - með augum barna.

 

Áslaug vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem aðstoðuðu hana á lokasprettinum í ritgerðarsmíðunum, einkum við yfirlestur. Hún segir að án þeirra góðu vina hefði líklega ekki heppnast að ljúka meistaragráðunni núna í haust.

 

Sjá nánar í Skemmunni (tenglarnir hér fyrir neðan), rafrænu gagnasafni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Háskólans á Hólum, Háskólans í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Listaháskóla Íslands. Í safninu eru einkum geymd lokaverkefni nemenda en einnig rannsóknarrit kennara og fræðimanna. Þar má í báðum tilvikum lesa útdrætti úr ritgerðunum sem hér um ræðir ásamt fleiri upplýsingum. Jafnframt má lesa þar ritgerð Ásbjörns í heild en almennur aðgangur að ritgerð Áslaugar er lokaður til 1. október 2016.

 

Ásbjörn Egilsson: Frumathugun á virkjun Múlaár í Gilsfirði

Áslaug Berta Guttormsdóttir: Fósturbörn og skólaganga: Samvinna, þátttaka og valdefling

 

Athugasemdir

BirnaKristín Lárusdóttir, rijudagur 29 desember kl: 18:41

Til hamingju með áfangann Áslaug og Ásbjörn frændi!

Við Lói vorum aðeins á undan ykkur, við brautskráðumst sama dag vorið 2011 með mastersgráðuna. Við vorum þá og nú bæði með lögheimili í Dalasýslu.

Bestu Kveðjur
Birna á Brunná

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30