Tenglar

30. desember 2016 | Umsjón

Mjólkurframleiðslan í nýjum hæðum 2016

Súlurit: Morgunblaðið.
Súlurit: Morgunblaðið.

Útlit er fyrir að mjólkurbílar flytji 150,6 milljónir lítra mjólkur frá kúabændum hérlendis á árinu sem nú er að ljúka eða 4,6 milljón lítrum meira en á árinu 2015 sem var metár. Kýr hafa því skilað meiri framleiðslu en nokkru sinni áður. Þótt salan aukist stöðugt verður framleiðslan í ár töluvert yfir þörfum innanlandsmarkaðar.

 

Mikil aukning var í mjólkurframleiðslu framan af ári enda var hún þá frjáls, kvótinn var aftengdur og menn fengu fullt verð fyrir alla framleiðslu. Um mitt ár var farið að innheimta innvigtunargjald til að hamla á móti aukningunni og hefur dregið úr framleiðslu seinni hluta ársins. Samkvæmt upplýsingum Samtaka afurðastöðva í landbúnaði stefnir nú í að heildarframleiðslan verði 150,6 milljónir lítra í lok árs. Er það nokkru minna en útlit var fyrir um mitt ár. Framleiðslan var um 146 milljónir lítra á árinu 2015.

 

Þetta kemur fram í úttekt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

„Það er metár bæði í framleiðslu og sölu. Vikuleg framleiðsla er nú 3-3,5% minni en á sama tíma í fyrra en salan eykst annað eins á móti. Það stefnir því í að jafnvægi náist,“ segir Egill Sigurðsson, formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar. Hann segir að salan stefni í að verða 139 milljónir á innanlandsmarkaði, miðað við fituefni mjólkurinnar, og er það 3 milljónir umfram framleiðslurétt ársins. Framleiðsla umfram sölu verður því 11-12 milljónir lítra, miðað við fitu, og enn meiri ef miðað er við prótein.

 

Þrátt fyrir offramleiðslu hafa birgðir ekki aukist á árinu, frekar minnkað, vegna þess að umframframleiðslan hefur verið flutt út jafnóðum. Egill segir að verð á heimsmarkaði hafi verið lágt. Það hafi heldur hækkað á árinu en styrking íslensku krónunnar hafi unnið á móti því. Gengið vinni ekki með útflutningi nú um stundir.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2023 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31