Tenglar

28. janúar 2012 |

Óánægja með „pólitíska“ yfirtöku á AtVest

Sveitarfélög á Vestfjörðum. Kort af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).
Sveitarfélög á Vestfjörðum. Kort af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).

Ósætti er meðal eigenda Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (AtVest) vegna áforma um yfirtöku Fjórðungssambands Vestfirðinga á félaginu. Ákvörðun um slit félagsins var frestað á átakafundi á Ísafirði í vikunni og ákveðið að skipa starfshóp til að leita lausnar. Auka-fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var seint í nóvember, samþykkti tillögu um sameiningu stofnana stoðkerfis atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Um er að ræða stofnanir sem sveitarfélög á Vestfjörðum koma að með beinni eignaraðild eða samstarfssamningum og greiða árleg framlög til. Sameiningin tæki til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða og Menningarráðs Vestfjarða ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Reykhólahreppur á hlut að þessu starfi öllu.

 

„Það er mikil óánægja meðal margra fyrirtækja, einstaklinga og félagasamtaka um að leggja eigi félagið niður og færa starfsemi þess undir pólitíska stjórnun“, sagði Guðrún Stella Gissurardóttir, stjórnarmaður í AtVest og formaður At-kvenna, sem eru einn stærsti hluthafinn í Atvinnuþróunarfélaginu, í samtali við bb.is á Ísafirði.

Sigurborg Þorkelsdóttir, ein af At-konunum, tók undir með Guðrúnu Stellu. „Það er skiljanlegt að það mæti andstöðu þegar einn hluthafinn ákveður að yfirtaka félagið án þess að tala fyrst við hina hluthafana. Þegar Atvinnuþróunarfélagið var stofnað var lögð áhersla á að það yrði ekki pólitískt og allir sem til félagsins leituðu sætu við sama borð og hefur það myndað góðar tengingar út í atvinnulífið. Þá er aðkoma atvinnulífsins í félaginu allmikil enda eiga mörg fyrirtæki og einstaklingar hlut í félaginu. Fjórðungssambandið er hins vegar skipað sveitarstjórnarmönnum sem eru pólitískt kjörnir fulltrúar og því aðrar forsendur fyrir því.“

Stærstu hluthafar í AtVest eru Byggðastofnun, Fjórðungssambandið og AtKonur, en alls eru hluthafarnir liðlega hundrað. Að sögn Ómars Más Jónssonar, sveitarstjóra í Súðavík og formanns stjórnar AtVest, mætti stór meirihluti hluthafa til fundarins. Hann sagði fundinn hafa verið málefnalegan og upplýsandi.

„Sveitarstjórnarstigið á Vestfjörðum hefur staðfest að það vilji sjá stoðkerfi atvinnu og byggða samþætt, en það eru hluthafar sem telja að AtVest eigi ekki að vera of tengt sveitarstjórnarstiginu. Þá eru sumir hluthafar sem telja að of geyst sé farið í málið, meðan sveitarstjórnarstigið telur að rétti tíminn sé núna“, segir Ómar Már. Sveitarstjórnarstigið muni halda sinni stefnu í að sameina Markaðsstofu Vestfjarða og Menningarráð Vestfjarða við AtVest og Fjórðungssambandið. „Ef slit á Atvinnuþróunarfélaginu næst ekki, þá eru aðrar leiðir færar. Ég tel ekki að þetta raski áformum sveitarstjórnarstigsins um að samþætta kerfið.“

10.01.2012  Ósamkomulag varðandi Atvinnuþróunarfélagið

28.11.2011  Sameiningar í stoðkerfi Vestfjarða samþykktar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30