Tenglar

18. janúar 2012 |

Svartfugli fjölgar stöðugt með hverju ári

Eiríkur, Brynjólfur og Tumi við stýrið renna upp að Blíðunni.
Eiríkur, Brynjólfur og Tumi við stýrið renna upp að Blíðunni.
1 af 3

„Okkur finnst merkilegt hvernig svartfuglinum er stöðugt að fjölga hér inn frá á veturna. Ekki eru nein fuglabjörg hérna nálægt. Honum hefur farið fjölgandi ár frá ári og hefur aldrei verið eins og núna“, segir Tómas Sigurgeirsson á Reykhólum. Þetta má ef til vill telja athyglisvert í ljósi þess að til stendur að alfriða svartfugl hérlendis. Núna einn daginn fór Tómas ásamt þeim Eiríki Kristjánssyni og Brynjólfi Smárasyni á gúmmítuðru út um Breiðafjarðareyjar til að kanna fuglalífið.

 

„Við sáum ótrúlega mikið af bæði álku og haftyrðli sem virðist fjölga ár frá ári. Það fer ekki á milli mála að eitthvert æti er stöðugt að aukast hér inni í Breiðafirðinum og virðist vera fiskseiði eða síli. Ef hægt er að komast að því hvaða fæða það er sem svartfuglinn sækir í gæti það gefið vísbendingu um það í hvaða æti breiðurnar miklu af æðarfugli gætu verið sem eru hérna inn um allt“, segir Tómas.

 

„Við skutum álku til að athuga hvað hún hefði innbyrt og það voru einhver fiskseiði sem hún hafði sporðrennt. Það var íshröngl alveg út í Ólafseyjar og svartfuglinn var mikið með ísnum. Líka var talsvert af æðarfugli þarna úti þó að mun meira sé af honum hérna innar. Það er augljóst að æðarfuglinn er í einhverju æti því að svartbakurinn og hvítmávurinn eru að hamast í þeim torfum líka.“

 

Tómas og Eiríkur eru tveir af þremur talningarmönnum á svæðinu í skipulegri fuglatalningu Náttúrufræðistofnunar um land allt nálægt hverjum áramótum. „Í þessari ferð núna vorum við líka að skipuleggja nýtt talningarsvæði úti á sjó til viðbótar þeim fjórum uppi á landi þar sem við höfum talið á undanförnum árum“, segir Tómas.

 

Félagarnir þrír fóru frá Reykhólahöfn og suður fyrir Ólafseyjar og síðan vestur fyrir Suðurlönd og allt vestur undir Svefneyjar. Til baka héldu þeir norðan við Suðurlönd og Ólafseyjar.

 

Við Suðurlöndin hittu þeir Halldór Jóhannesson skipstjóra á Blíðunni og menn hans. Halldór tók myndir nr. 1 og 2 en Eiríkur tók mynd nr. 3 að ferðarlokum þegar búið var að koma bátnum fyrir í skýlinu heima hjá Tómasi.

 

Hérlendis má veiða fimm tegundir af svartfugli - álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda. Hins vegar eru þær allar friðaðar innan ESB. Starfshópur á vegum umhverfisráðherra lagði til núna í ársbyrjun að allar þessar tegundir verði friðaðar hér á landi að minnsta kosti næstu fimm ár. Þau áform hafa vakið hörð viðbrögð Bændasamtaka Íslands (fulltrúi þeirra sagði sig úr starfshópnum), einstakra hlunnindabænda (þar á meðal er Salvar í Vigur á Ísafjarðardjúpi) og samtaka skotveiðimanna (Skotvís).

 

08.01.2012  Fuglatalning: Núna leyfðum við Eiríki að vera með

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31