Tenglar

3. ágúst 2016 |

„Þannig að ég gerði bara voða lítið“

Styrmir og Jóhanna Ösp prófa hjólabát fyrir Bátafjörið á Berufjarðarvatni.
Styrmir og Jóhanna Ösp prófa hjólabát fyrir Bátafjörið á Berufjarðarvatni.

Héraðshátíðin mikla Reykhóladagar, sem fram fór helgina fyrir verslunarmannahelgi eins og tíðkast hefur núna í fimm ár, var fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Í nokkur ár var Reykhóladagurinn aðeins einn, en með tímanum hefur hátíðin undið upp á sig smátt og smátt. Árið 2010 stóð hún frá föstudegi fram á sunnudag, en frá 2011 hefur hún byrjað á fimmtudegi og staðið fram á sunnudag.

 

Fyrstu árin var hátíðin síðasta laugardag í ágúst, árið 2011 var hún um verslunarmannahelgina, en eftir það helgina á undan, eins og áður sagði.

 

Dagskrárliðir að þessu sinni voru á þriðja tuginn og ýmsir þeirra voru sjálfir í nokkrum liðum. Til upprifjunar má sjá dagskrána hér.

 

Mörgum dagskrárliðanna hafa verið gerð skil hér á vefnum í máli og myndum . Auðvelt er að finna þær fréttir, sem birtust öðru hverju allt frá mánudegi í síðustu viku og fram á laugardag. Sjá líka Ljósmyndir, myndasöfn - Myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin á síðunni.

 

Yfirleitt var mætingin mjög góð og stundum var fullt út úr dyrum á viðburðum innanhúss. Þannig var meðal annars á tónleikum Bjartmars Guðlaugssonar, sem fór á kostum eins og honum einum er lagið. Líklega eru ekki margir sem geta haldið tveggja tíma tónleika einungis með eigin lögum sem hafa komist í fyrsta sæti vinsældalista.

 

Dráttavélarnar gömlu eru löngu orðnar fastur og ómissandi liður á Reykhóladögum. Fólk kemur víðs vegar að til að fylgjast með þessari „skrúðgöngu“ forntraktora. Ásta Sjöfn og Guðmundur á Grund eru svo með dráttavélarallið á eftir, og það er líka orðið fastur liður.

 

Ýmist viðraði mjög vel eða allsæmilega á viðburði sem haldnir voru úti. Á Bátafjörinu á Berufjarðarvatni var grenjandi rigning á tímabili, en það gerði hreint ekkert til. Því miður var hins vegar þurrt á þaraboltanum, þannig að slökkviðliðið kom með nauðsynlega rigningu svo að þarinn sem spilað var á væri sem sleipastur.

 

Góð stemmning var í hverfakeppninni og gátu allir fundið þrautir við sitt hæfi. Að þessu sinni var ekki gefið upp hverjir sigurvegararnir voru, en það má kannski setja það fram í eins konar gátu. Það var sem sagt rauða liðið sem vann, en liðin voru svo jöfn að í rauninni voru allir þátttakendur sigurvegarar, eins og einhver sagði. Krakkarnir gegndu þar veigamiklu hlutverki og stóðu sig eins og hetjur allir sem einn.

 

Vegna rigningar þurfti á síðustu stundu að færa grillveisluna sem átti að vera í Hvanngarðabrekkunni inn í íþróttahús, en allir voru mjög þolinmóðir og hjálpsamir að setja þar upp borð fyrir 270 manns. Fólk var mjög ánægt með matinn enda listakokkar á ferð og nóg af kjöti.

 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal, tómstundafulltrúi Reykhólahrepps, hafði veg og vanda af skipulagningu Reykhóladaganna að þessu sinni eins og í fyrra, og fórst það vel úr hendi.

 

Hún biður um að því verði komið hér skýrt á framfæri, að ótalmargir aðrir leggi mikla vinnu í hina og þessa viðburði. „Sannarlega sé ég ekki um allt“, segir hún. Hana langar að þakka öllu þessu fólki fyrir, en veit eiginlega ekki á hvar hún á að byrja og því síður hvar hún á að hætta ef hún fer að á annað borð að telja upp.

 

Þó nefnir Jóhanna Hörpu Eiríksdóttur og Báta- og hlunnindasýninguna og alla viðburðina sem þar fóru fram. Grundarfólkinu þakkar hún fyrir framlagið í fótboltagolfinu (sem var nýmæli á Reykhóladögum), og auðvitað fyrir dráttarvélarnar. Seljanesfólkinu fyrir uppboðið fjölsótta, þann ótrúlega viðburð (og auðvitað fyrir dráttarvélarnar). Erlu Björk og Ingibjörgu í Króksfjarðarnesi fyrir alla dagskrána þar.

 

Varðandi þaraboltann þakkar hún Bjarna Þór, Bjössa Sam, Aroni Garðari og Örvari Ágústssyni (Lemúrunum) fyrir að sjá algerlega um hann. Bjarkalundarmönnum þakkar hún fyrir að safna í brennuna og hjálpa til við bátana á Bátafjörinu. „Og svo eru allir hinir sem stukku til þegar vantaði aðstoð,“ segir Jóhanna.

 

„Þannig að ég gerði bara voða lítið!“ segir hún. Bætir síðan við: „Svo er enn eitt, Styrmir minn [eiginmaðurinn] hjálpaði mér rosamikið við allt umstang Reykhóladaga.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31