Tenglar

10. ágúst 2011 |

Þórólfur svarar gagnrýni varðandi landbúnaðarmál

„Talsmenn bænda og ráðherrar landbúnaðarmála hafa gjarnan rökstutt háa styrki til landbúnaðar með vísan til matvælaöryggis. Satt er það að sumt af því sem framleitt er í sveitum landsins endar á endanum á borðum landsmanna. En til þess að framleiða þennan mat þarf ógrynni af erlendum aðföngum. Olía og áburður eru mikilvægustu aðföngin sem flytja þarf erlendis frá“, segir Þórólfur Matthíasson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar svarar hann gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir vegna ýmissa skrifa sinna og ummæla um málefni íslensks landbúnaðar og má þar t.d. nefna næstu frétt hér á undan.

 

Síðan segir hann: „Samgöngur og flutningar eru lykilatriði í fæðuöryggi eyþjóðar í þúsund kílómetra fjarlægð frá næstu uppskipunarhöfnum. Fæðuöryggi slíkrar þjóðar hlýtur eðli máls samkvæmt að vera meira á borði utanríkisráðherra en landbúnaðarráðherra komi til samgöngutruflana við útlönd. Skiptir engu hvort slíkar truflanir verða vegna náttúruhamfara eða vegna styrjaldarástands.

 

Þegar til lengri tíma er litið snýst fæðuöryggi og matvælaöryggi um sjálfbærni. Landbúnaður hefur ekki verið stundaður með sjálfbærum hætti á Íslandi í aldanna rás. Þvert á móti. Íslenska þjóðin á enn býsna mikla skuld að gjalda landinu vegna ofbeitar og ofnýtingar undangenginna alda. Nokkuð hefur þokast fyrir tilstuðlan fjárframlaga skattborgaranna og með ötulu starfi opinberra landbætingastofnana. Það væri býsna grátlegt yrði þeirri iðju allri steypt í voða með því að flytja íslensk heiðalönd út í stærri stíl en nú er í formi niðurgreidds dilkakjöts.“

 

Niðurlagsorð Þórólfs Matthíassonar eru þessi: „Endurskoða þarf markmið og framkvæmd búvörustefnunnar. Bændum eru greiddar gífurlega háar fjárhæðir en markmiðin með þeim samningum sem við þá eru gerðir eru óljós og illa skilgreind. Það er ekki í takt við góða stjórnsýslu svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Þá samrýmast aðgerðir samkvæmt búvörusamningum illa markmiðum um sjálfbærni og framtíðar fæðuöryggi. Frá sjónarhóli skattgreiðanda er ekkert hægt að finna sem réttlætir þau fjárútlát sem samningunum fylgir.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30