Tenglar

17. janúar 2012 |

Vestfjarðarit III - Vestur-Barðastrandarsýsla

Fæst m.a. hjá Karli á Kambi.
Fæst m.a. hjá Karli á Kambi.

Út er komið fyrir skömmu þriðja bindið í stórvirki Útgáfufélags Búnaðarsambands Vestfjarða um byggðir og fólk á Vestfjarðakjálkanum. Það nefnist Vestfjarðarit III, Fólkið, landið og sjórinn, Vestur-Barðastrandarsýsla 1901-2010. Ritstjóri er Birgir Þórisson frá Hvalskeri við Patreksfjörð. Hér er á ferðinni mikil fróðleiksnáma og gott uppsláttarrit fyrir alla sem hafa áhuga á liðnum tíma og fólki sem horfið er af heimi. Einnig nær ritið til nútíðar – stöðu sveita og þéttbýlis í Vestur-Barðastrandarsýslu.

 

Þetta bindi er tæplega 600 blaðsíður. Fyrir utan allan annan fróðleik, svo sem um atvinnuhætti, þéttbýli, kaupfélög, prestaköll, heilbrigðismál, skóla og samgöngur, er greint frá öllum sveitabæjum í sýslunni á þessum tíma og fólkinu sem þar bjó hverju sinni, foreldrum þess og afkomendum. Urmull ljósmynda er í ritinu.

 

Ritnefnd Útgáfufélags Búnaðarsambands Vestfjarða skipa Valdimar H. Gíslason á Mýrum í Dýrafirði, bóndi og sagnfræðingur (formaður), Bergur Torfason á Þingeyri (Bergur á Felli), Magnús Hringur Guðmundsson, Hóli í Önundarfirði, Guðmundur Grétar Guðmundsson, Kirkjubóli í Dýrafirði, og Birkir Friðbertsson, Birkihlíð í Súgandafirði.

 

Bindin tvö í þessari ritröð sem áður eru komin út fjalla bæði um Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það fyrra er eftir Kjartan Ólafsson, fyrrum ritstjóra og alþingismann, og ber titilinn Vestfjarðarit I, Firðir og fólk 900-1900. Síðara bindið ber titilinn Vestfjarðarit II, Firðir og fólk 1900-1999. Það er uppbyggt á svipaðan hátt og þriðja bindið sem nú var greint frá og höfundar margir.

 

Karl Kristjánsson á Kambi í Reykhólasveit er með nýjasta bindið til sölu en fyrri bindin má panta hjá Birki Friðbertssyni í Birkihlíð. Þriðja bindið fæst á kynningarverði sem er aðeins kr. 9.000 en fyrri bindin tvö kosta kr. 3.000 hvort.

 

Eftirtaldir menn og verslanir (og fleiri) eru einnig með nýjasta bindið til sölu:

  • Bókabúðin, Tálknafirði
  • Vestfirska forlagið, Brekku í Dýrafirði
  • Vestfirska verslunin, Ísafirði
  • Fjarðarkaup, Hafnarfirði
  • Verslunin Rangá, Skipasundi 56, Reykjavík
  • Bókakaffi, Selfossi
  • Rögnvaldur Bjarnason, Leturprenti, Dugguvogi 12, Reykjavík
  • Birgir Þórisson, Þverbrekku 2, Kópavogi
  • Ragnar Guðmundsson, Brjánslæk á Barðaströnd
  • Búnaðarsamtök Vesturlands, Hvanneyri
  • Valdimar H. Gíslason, Mýrum í Dýrafirði
  • Guðmundur Gr. Guðmundsson. Kirkjubóli í Dýrafirði
  • Magnús Hr. Guðmundsson, Hóli í Önundarfirði
  • Bergur Torfason, Þingeyri

 

Athugasemdir

Hlynur Þór Magnússon, rijudagur 17 janar kl: 10:19

Leyfi mér að skrifa hér nokkrar línur neðanmáls um það stórvirki sem þessi ritröð er. Vissulega beinist áhugi fólks í ýmsar áttir - en ég segi bara fyrir mig: Fáar bækur hafa mér um dagana þótt skemmtilegri og fróðlegri en fyrsta bindið, sem spannar þúsund ára sögu. Ekki var mér nóg að lesa það einu sinni.

Þessi þúsund ára saga er einstakt eljuverk hins bráðskarpa og nákvæma en þó léttskrifandi fræðimanns Kjartans Ólafssonar. Þar sem ég er sagnfræðingur og starfaði fyrrum á Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands geri ég mér e.t.v. einhverja grein fyrir því hvers konar þrekvirki Kjartan hefur unnið við áralangar setur á Landsbókasafni. Þó er ekki nærri öll sagan sögð varðandi fyrsta bindið. Þar birtist ekki nema dálítill hluti af öllu því efni sem hann safnaði. Það er nú aðgengilegt öðrum fræðimönnum - og verður vonandi öllum aðgengilegt á einu eða öðru formi þegar tímar líða.

Fyrir utan allan hinn almenna fróðleik eru síðari bindin tvö ómetanleg uppsláttarrit fyrir fólk sem á einhver tengsl við héruðin og fólkið sem þar er fjallað um.

Nú er að finna mannskap (og peninga) til að gera Austur-Barðastrandarsýslu - núverandi Reykhólahreppi - skil á sama hátt.

Veit ekki hvort rétt er að þakka einum öðrum fremur. Segi samt: Búnaðarsamband Vestfjarða, Birkir og Valdimar Haukur og allir aðrir sem að þessu ótrúlega framtaki hafa staðið: Innilegar þakkir.

Grétar Snær Hjartarson, mivikudagur 18 janar kl: 16:17

Athugasemdir
Já, ég ætla að gera athugasemdir við fyrirsögn greinar Hlyns Þ. Magnússonar hér að ofan.
Athugasemd er afskaplega stórt orð og hefur, að minni meiningu, neikvæða merkingu. Hlynur er ekki að gera athugasemdir við fyrsta ritið heldur hæla því í hástert og því hefði mér fundist fyrirsögnin frekar átt að vera t.d.: "Ábendingar og þakkir' enda lýkur pistli Hlyns á: "Innilegar þakkir."

Hlynur Þór Magnússon, mivikudagur 18 janar kl: 16:44

Grétar Snær - ég get hreinlega ekkert við því gert að „athugasemdadálkurinn“ beri yfirskriftina Athugasemdir. Ég get ekki frekar en aðrir sem skrifa álit sitt fyrir neðan fréttir breytt vefkerfinu hverju sinni eftir geðþótta. Það sem ég skrifaði ber enga fyrirsögn frá mér.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30