Tenglar

26. júní 2011 |

„Vinalegasta viðmótið - gefðu bros í sumar“

Ferðamálastofa hefur í samstarfi við við Ferðamálasamtök Íslands, Ferðaþjónustu bænda, Íslandsstofu, Samtök ferðaþjónustunnar, Markaðsstofur landshlutanna og Rás 2 hrint af stað sumarherferð sem ber yfirskriftina Vinalegasta viðmótið. Hugmyndin að baki þessu er að verðlauna það sem vel er gert á ferðaþjónustustöðum um allt land og vekja sérstaka athygli á þeim stöðum með jákvæðum hætti. Markmiðið er einnig að herferðin sé hvatning til fólks sem starfar við ferðaþjónustu að sýna jákvætt og vinalegt viðmót og leggja sig fram um að veita góða þjónustu í hvívetna.

 

„Ég vona að sem flest ykkar taki þátt í þessu. Fljótlega verður hægt að nálgast plaköt, miða og tilheyrandi efni á næstu upplýsingamiðstöð ferðafólks“, segir Gústaf Gústafsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.
 
Ferðamenn og aðrir viðskiptavinir geta látið vita af góðri þjónustu eða vinalegu viðmóti með því að hringja í þáttinn Virka morgna á Rás 2 eða skrifa ábendingar á Facebook-síðu átaksins - en einnig verður hægt að „verðlauna“ gott viðmót á stöðunum sjálfum með því að „gefa bros“. Sérstakir broslímmiðar munu liggja frammi hjá fjölda ferðaþjóna og þá má líma á þar til gert veggspjald til að láta í ljósi ánægju sína með áþreifanlegum hætti. Þeir staðir sem safna flestum brosmiðum á veggspjaldið sitt ættu að vera í góðum málum með viðmót gagnvart viðskiptavinum.

 

Oft er erfitt að meta hvað felst í góðri þjónustu og gerðar eru mismunandi kröfur eftir stöðum. Í allri þjónustu skiptir þó viðmót starfsfólks höfuðmáli og því má segja að brosið sé samnefnari fyrir góða þjónustu og ánægjuleg viðskipti. Fólk er hvatt til að beita því óspart.

 

Post-it miðar - „Gefðu bros“

 

Partur af herferðinni eru „Post-it“-límmiðar með broskalli og textanum „Gefðu bros“. Þeim verður dreift á ferðaþjónustustaði út um allt land ásamt meðfylgjandi veggspjaldi. Þeir eru hugsaðir sem nokkurs konar áþreifanleg umbun eða „þjórfé“ fyrir vinalegt viðmót eða góða þjónustu.

 

Með þessu er kölluð fram þátttaka viðskiptavinarins og ferðamannanna sem eiga leið um landið og með táknrænum hætti geta viðskiptavinirnir látið ánægju sína í ljós með því að gefa bros á móti. Fólki er að sjálfsögðu velkomið að skrifa persónulega kveðju á Post-it miðana en það er ekki skilyrði. Ferðaþjónar eru hvattir til að setja veggspjaldið upp á góðum og áberandi stað og hafa broslímmiðana nálæga til að viðskiptavinir átti sig á út á hvað leikurinn gengur og hægt sé að skapa skemmtilega stemmningu kringum verkefnið.

 

Markmið

 

Markmiðið með átakinu í sumar er að gera starfsfólk fyrirtækja í ferðaþjónustu meðvitaðra um mikilvægi góðrar þjónustu, sýna fram á hvað mikið getur áunnist með litlum og einföldum atriðum (sbr. brosið) og ekki síst að fá ferðalanga og viðskiptavini til að sýna bæði þakklæti í verki (með því að brosa á móti) og umbuna fyrir góða þjónustu og gott viðmót.

 

Facebook

 

Sett verður upp sérstök Facebook-síða fyrir átakið (Vinalegasta viðmótið) þar sem fólk getur sent inn jákvæðar reynslusögur og jafnvel gefið bros með táknrænum hætti. Facebook-síðan verður vöktuð og engu hleypt þar í gegn án samþykkis ritstjóra til að forðast að hún verði grundvöllur neikvæðra skrifa.

 

Virkir morgnar á Rás 2

 

Í þættinum Virkum morgnum á Rás 2 munu stjórnendur heyra í hlustendum sem geta hringt inn með jákvæðar sögur og tilnefnt staði. Þeir hlustendur sem hringja og þeir sem skrifa á Facebookvegginn fara í pott og geta átt von á að vinna spennandi vinninga frá ýmsum ferðaþjónum.

 

Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband við Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur þróunarstjóra markaðsmála í síma 535 5502 eða með tölvupósti á sigrun@ferdamalastofa.is.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31