Á ég að grenja með Pétri?
Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum skrifar
Árið 1987 voru allir hreppar Austur-Barðastrandarsýslu sameinaðir í einn, núverandi Reykhólahrepp. Meðan á undirbúningnum stóð fengum við mikið hrós og klapp á bakið frá stjórnvöldum. Ekki stóð á loforðum um stuðning á öllum sviðum, þar sem við gáfum öðrum sveitarfélögum gott fordæmi.
Tvö atriði varðandi stuðning stóðu upp úr, fjárstuðningur og samgöngur.
Ég tel að sameiningin hafi tekist vel, enda voru loforðin ekki forsenda hennar. En eitt vissum við ekki á þeim tíma: Ríkisvaldið var að undirbúa mestu árás á lítið samfélag fram til þess tíma og var það met ekki jafnað fyrr en Fljótin voru tekin fyrir síðar.
Til að byrja með voru loforðin svikin, eins og við aðrar sameiningar.
Í stað þess að veita hámarks fjárstuðning vegna sameiningar var hann í lágmarkinu og engar samgöngubætur voru gerðar.
Þetta var nú bara lexía í trúgirni. Verra var að eiga við hitt, að hér var Hlið Vestfjarða og því var „lokað".
Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði var versti kosturinn fyrir norðanverða Vestfirði suður. En hann var góður fyrir Strandirnar, svo ég fordæmi hann ekki þó slæmur sé.
Bílferja úr Stykkishólmi á Brjánslæk á framfærslu okkar skattgreiðenda var glæpur gagnvart okkur íbúum Reykhólahrepps (og Dalamönnum, en þeir svara fyrir sig).
Óhemju fjármagn fór í skip og hafnarframkvæmdir í upphafi og síðan árlegan rekstrarkostnað.
Baldur hefur aldrei annað allri umferðinni af Suðurfjörðunum, svo að þeir sem ekki komast með honum og íbúar í vestanverðum Reykhólahreppi hafa mátt búa við síversnandi vegi.
Hverjar eru afleiðingarnar? Stærstur hluti hreppsins er kominn í eyði. Þrjár ferðamannaverslanir, Króksfjarðarnes, Bær og Skálanes, eru horfnar. Við sameiningu voru íbúar hreppsins á fimmta hundrað og hefur fækkað um 40% á tuttugu árum. Og fleira mætti telja.
Þó að Sturla Böðvarsson sé Hólmari, þá sá hann að þetta gekk ekki lengur og byrjaði á samgöngubótum vestur og boðaði afnám styrkja til Baldurs. Nú virðist sem bæði Kristján Möller og Vegagerðin dragi lappirnar og séu hreinlega gefa okkur langt nef með vegabótum í Þorskafirði án þess að þvera hann.
Það væri kóróna á ósvífnina að halda svo bara áfram að styrkja Baldur.
Á ég svo að grenja með Pétri Ágústssyni?
- Guðjón D. Gunnarsson.