Tenglar

Reynir Bergsveinsson minningarorð

Reynir Bergsveinsson. mynd Hrafnhildur Reynisdóttir
Reynir Bergsveinsson. mynd Hrafnhildur Reynisdóttir

Reynir var fæddur 30. nóv. 1938 og lést 6. apríl 2018.

Útför hans fór fram frá Gufudalskirkju 21. apríl 2018.

 

Reynir var sonur hjónanna í Gufudal, Bergsveins Finnssonar og Kristínar Sveinsdóttur. Hann hóf búskap í Fremri Gufudal árið 1958 og bjó þar til 1981.

 

Börn hans og Guðlaugar Guðbergsdóttur eru 7, Þröstur Guðberg, Svandís Berglind, Erla Þórdís, Hrafnhildur Erna, Bergsveinn Grétar, Sævar Ingi og Herdís Rósa.

 

Reynir var mikið náttúrubarn og hafði mikla þekkingu og skilning á samspili hinna mörgu þátta í náttúrunni, svo sem veðurfari, gróðri, en ekki síst dýralífi. Hann var slyngur veiðimaður og bar virðingu fyrir bráðinni, líka þegar hann var á refaveiðum, þá var gjarna leikin eins konar „refskák“ sem lauk yfirleitt þannig að refurinn tapaði.

 

Seinni árin fékkst Reynir við minkaveiðar vítt og breitt um landið og náði feikilega góðum árangri í að fækka í stofninum, sem byggðist á afburða þekkingu hans á háttalagi og eðli minksins.

 

Við skulum nú gefa Þresti syni Reynis orðið:

 

-Eftirfarandi var skráð fyrir nokkrum árum svo það ekki gleymdist. Gamli maðurinn í sögunni fékk tækifæri til að lesa það yfir síðastliðið sumar og var bara nokkuð sáttur. Engum datt þá í hug að hann væri að lesa eigin minningargrein. Þarna koma samt fram þeir eðlisþættir hans sem lengst verða í minnum hafðir og ekki að ástæðulausu, en það var takmarkalaus virðing fyrir náttúrunni og öllu lífi, og ekki síður sú mikla þekking á samspili náttúrunnar sem hann viðaði að sér á langri ævi.- 

 

Unnið greni.

Það er Jónsmessa. Ungi maðurinn kembir hlíðina ofan við Flókalund. Þar hefur tófa sést óvenju oft í sumar og líklegt að greni sé í grenndinni. Grenið ofan við Kýrholtið reyndist tómt. Það svosem útilokar ekkert. Hann er í sumar búinn að finna nokkur greni á nýjum stöðum. Líklega afleiðing af gisnari búsetu. Eða menn minna að þvælast fótgangandi eftir að hætt var að reka fé til beitar á veturna. Eða fjölgun tófu. Kannski sitt lítið af hverju. Allavega best að kemba alla kletta og urðir. Hafa öll skilningarvit galopin fyrir minnstu vísbendingum.

 

Hvernig var ekki með Gvendarsteinagrenið í Vattarfirðinum ´79? Þar sást enginn umgangur. Bara greinileg lykt úr gjótu. Og grenið innan við túnið á Hreggstöðum um daginn. Þar náðust 10 yrðlingar og eitthvað hafði þurft að bera í þann hóp. Eini sjáanlegi umgangur var nýlega étið egg tugi metra frá greninu og aflagaður einn Maríustakkur í breiðu framan við gjótu. Gamli maðurinn taldi það nægar vísbendingar til að leggjast á grenið og árangurinn lét ekki á sér standa. Reyndar kom meira í ljós þegar næturdöggin lagðist yfir. Það mátti greina götur upp úr tveimur framræsluskurðum spöl neðar. Þær mynduðu stórt V, þar sem mjói endin benti beint á grenið.

 

Jæja. Ekkert ofan við Flókalund og dagurinn líður. Komin stíf innlögn í sólskininu. Þá er að fara á bílnum inn að Eiðisá. Þarf að leita Helluhlíðina innanfrá, móti golunni. Ekkert tekið með nema byssan, vatnsflaska og samloka í vasann. Eftir smá umhugsun er lopapeysan bundin um mittið þótt hitinn sé hátt í 20 stig. Sólin sest snemma á Helluhlíðinni. Ef eitthvað finnst kemur gamli maðurinn með meiri búnað. Það verða ekki nema mest 300 metrar niður á veg, Hann gengur varlega á gúmmístígvélunum kindagötuna upp með Eiðisánni. Aldrei að vera með óþarfa gauragang á veiðum. Það er ekki langt upp á hjallann þar sem gamli maðurinn hafði vísað honum á grenið undir reynihríslunni. Hann hafði svosem ekki þurft að nota mikið af leiðsagnarhæfileikunum í þetta skiptið: „Fylgja gilinu upp á hjallann, svo út hjallann að urðinni. Þar er gamalt reynitré í urðarkantinum þín megin og grenið er undir trénu“. Það er eins og venjulega. Hefði eins getað verið með ljósmynd af staðnum.

 

Magnað hvernig gamli man alla staðhætti þótt hann hafi ekki komið á grenið í 19 ár. Víða erfiðari staðhættir en þarna og alltaf skal hann geta talið upp smáatriði í landslagi til að vísa veginn. Ungi maðurinn læðist að trénu og nokkrir munnar koma strax í ljós. Þar er ekkert nýlegt að sjá. Skorpnaður skinnræfill af unglambi. Nokkur bein af óvissum uppruna. Allt hálf sokkið í jörð og greinilega búið að vera þarna a.m.k. síðan í fyrra. Kannski lengur. Svona drasl getur haldið sér ótrúlega lengi í þurrum og dimmum gjótum. Hann læðist upp á urðina. Gott að vera með gúmmísóla núna. Það er vísast að fleiri munnar séu ófundnir. Urðin er líka víðáttumikil og lágfóta gæti hafa komið sér fyrir á nýjum stað.

Hann fikrar sig inn á urðina og skoðar undir hvern stein, alltaf erfiðara að leita ókunn greni. Hvergi neitt að sjá og hann bölvar í huganum. Það er stutt í kvöldið og ekkert fundið enn. Framundan virðist að fínkemba alla Helluhlíðina með óvissum árangri. Kannski verður ekkert greni til að liggja á í nótt.

 

Vindinn leggur af honum í átt að reynitrénu en það á ekki að gera neitt til. Hann er búinn að leita þar. Eða hvað ? Upp úr grjótinu heyrist ofurveikt: „HúúÚ“ Hann flýtir sér niður af urðinni, sömu leið og hann kom, án þess að vera með læti. Yrðlingamamma er að gefa hættumerki. Þegar hann fer yfir grenið heyrist það aftur og greinilega. Hann gengur þessa 200 metra inn undir gilið áður en hann dregur upp talstöðina. Ekki gera óþarfa hljóð nálægt greninu. Hann nær sambandi við gamla manninn og tjáir honum stöðu mála. Hann mun koma von bráðar með nýja riffilinn og meiri búnað. Fer svo til baka og finnur stað í löngu haglabyssufæri við grenið. Stór steinn til að styðja við bakið og annar fyrir framan svo hann verði ekki eins áberandi. Verst að hvergi er hægt að hafa yfirsýn um allt nágrennið nema fara út fyrir haglabyssufærið.

 

Svo hefst biðin. Hún verður örugglega löng. Klukkan er 3 síðdegis. Að öllu eðlilegu kæmi læðan út eftir 3, frekar þó 6 tíma. Spurning hve mikið bætist við fyrst hún varð vör við hann. Kannski kemur steggurinn heim áður. Litlar líkur til að það hafi verið hann sem var heima. Það sæist meiri umgangur ef yrðlingarnir væru byrjaðir að stálpast, svo uppeldið er enn læðunnar. Það er bara að fylgjast með umhverfinu. Hvað sem gerist næst verður það varla heima á greninu. Það er svosem ekki amalegt að sitja hér þótt sólin sé sest á Helluhlíð.

 

Til vinstri sést inn á Vatnsdalsvatnið og Lambagilseyrar þar sem er fallegasta birki á Vestfjörðum. Framundan er gamli vegurinn upp í Þingmannaheiðina. Gott að hann er ekki í notkun lengur. 28 km. langur og að stórum hluta á reginfjöllum. 50 metrar milli varða á kafla. Það segir sitt um veðráttuna. Utar er Hörgsnesið með klettum sem eru götóttir eins og ostur. Líklega för eftir stór tré sem brunnu inni í hálfstorknuðu hrauninu. Pláss fyrir nokkur tófugreni þar.

 

Til hafsins sjást óteljandi eyjar á Breiðafirði, þótt margar séu í hvarfi. Kvöldsólin glampar á húsin í Flatey. Kirkjan efst og mest áberandi. Í landinu til hægri gnæfir Arnórsstaðahyrnan yfir bæinn á Brjánslæk. Fallegt bæjarstæði þar. Um veginn fyrir fjörðinn er töluverð umferð í báðar áttir. Landinn er að fara í sumarfrí. Hvergi ref að sjá og friður á fuglunum. Þegar líður að kvöldi heyrist yrðlingavæl úr greninu. Þagnar strax aftur. Mamma hætti við að fara út.

 

Loks birtist á veginum ljósleit Lada með lítið hjólhýsi. Gamli er mættur. Tekur sér góðan tíma til að ferðbúast. Pakkar öllu í stórt ullarteppi sem hann hnýtir saman á hornunum. Það er hvergi hægt að fá bakpoka sem ekki skrjáfar í. Eða vefja utan um sig í næturkuldanum. Ungi maðurinn gengur spöl á móti honum. Það er ekki óhætt að tala saman í haglabyssufæri við grenið í svona kyrru veðri. Þeir ákveða að gamli verði með riffilinn þar sem betur sést yfir. Þó þannig að þeir geti haft nauðsynleg samskipti fljótt og hljóðlega.

 

Sólin hverfur af norðurströnd Breiðafjarðar. Seinast af Brjánslæk um ellefuleitið. Löngu síðar af eyjunum. Styttsta nótt ársins hellist yfir. Fuglarnir sofna og ekkert raskar ró þeirra. Öðru hverju væla yrðlingarnir, en alltaf stutt í einu. Alltaf guggnar læðan á að koma út. Úti í næturkyrrðinni gerist ekkert. Og þó. Um tvöleitið ber krumma við himin á klettabrúninni fyrir ofan og innan grenið. Hann er glettilega líkur tófu sem stendur með framfætur upp á steini og teygir upp hausinn meðan hún horfir yfir Vatnsfjörðinn. Mennirnir bregða upp sjónaukum. Þetta er örugglega krummi. Hann hverfur fljótlega. Svo gerist ekkert í tvo tíma. Erfitt að halda sér vakandi. Sólskinið er tekið að fikra sig niður úr fjallatoppunum.

 

Um þrjúleitið skin sólin aftur á Brjánslæk. Merkilega langur sólargangur svona sunnanundir fjöllum. Örugglega skörð á réttum stöðum í hálendinu. Ekki furða að þar yrði stórbýli. Ef vinnufólkinu var haldið að verki frá sólarupprás til sólarlags, þá náðust 20 tímar. Kannski svigrúm til að sýna góðvild og gefa eftir 2 tvo tíma í hvorn enda. Húsbændur sem sýna slíka eftirgjöf hafa örugglega getað valið úr fólki.

 

Allt í einu er krummi kominn aftur á sama stað. Frekar ólíklegt. Ungi maðurinn vaktar hann lengi í kíkinum. Hvort eð er ekkert annað að horfa á. Krummi hverfur stundum og kemur svo fram á næstu snös. Mikið finnst honum gaman að horfa á þá. Af hverju kemur hann ekki fljúgandi? Allt í einu sést það sem búist var við. Krummi er með skott. Ungi maðurinn læðist til þess gamla og segir honum tíðindin. Nú þarf að sýna hvað riffillinn getur. Verst hvað færið er langt, a.m.k. 300 metrar. Það er vandlega miðað. Alveg logn og fari kúlan í réttri hæð mun hún örugglega fella það sem fyrir verður.

 

Skotið bergmálar um allan fjörð og ekkert er lengur að sjá á brúninni. Gamli maðurinn arkar af stað að kanna árangurinn. Þarf að fara fyrst í hina áttina til að finna skarð í klettana. Svo drjúgan spöl inn brúnina. Mjaðmarliðirnir ónýtir og ekki farið hratt yfir. Eftir klukkutíma er hann kominn til baka með snyrtilega skotinn ref. Sýnir unga manninum hræið en ánægjan er blendin: „Mikið svakaleg verkfæri eru þetta orðin. Kvikindisgreyin eiga bara engan séns lengur“.

 

Jæja. Refurinn fallinn, en það er líka búið að liggja í 14 tíma á greninu. Klukkan er orðin 5. Um níuleitið er öruggt að læðan kemur ekki út þennan daginn. Gamli maðurinn röltir til hvílu í hjólhýsið niður á vegi. Ungi maðurinn sefur í lynginu þar sem hann hafði setið síðustu 18 tímana. Skammt frá honum suða flugurnar á hræinu af refnum. Hann treystir á að vakna við yrðlingana ef svo ólíklega vilji til að læðan fari á stjá. Allavega ætti hún að orga hraustlega komist hún það langt að finna lyktina af rebba sínum og manninum hlið við hlið. Enginn sefur af sér organdi tófu í haglabyssufæri.

 

Ekkert ber til tíðinda yfir daginn, en sterkt sólskin og fiskiflugukórinn trufla svefninn. Um kvöldmatarleitið kemur gamli maðurinn aftur. Útsofinn og með nýtt aðgerðaplan: „Þessi læða er þannig skapi farin að hún kemur ekki út meðan við erum svona nálægt. Það verður bara að hafa það þótt hún komist óséð í skóginn. Við verðum bara að vera vissir um að missa hana ekki inn aftur. Þú ferð út á hlíðina alveg uppundir klettana. Ég fer inn á hlíðina og fram á hjallabrúnina. Þá sérð þú yfir hjallann og ég skóginn undir honum“. 

 

Þeir taka sér nýja stöðu um áttaleitið. Enn hefst tíðindalaus bið hjá unga manninum, en hjá þeim gamla bar sitthvað til tíðinda, enda kunni hann betur að túlka það sem fyrir augun bar. Um eittleitið stendur hann upp og bendir unga manninum að koma. Þegar þeir hittast hvíslar hann: „Jæja; Hún er farin út. Hún fór út klukkan tíu, en ég var ekki alveg viss fyrr en núna. Klukkan tíu var skógarþrösturinn með pirring þar sem urðin opnast niður í skóginn. Þá var hún að læðast út. Stuttu síðar var hann með pirring utan í klettinum sem ég sat á. Það gat verið út af mér, en var af því tófan læddist með klettinum. Stundu seinna flaug hrossagaukur með látum upp úr skóginum fyrir neðan. Þá var hún á leiðinni niður í fjöru. Svo núna rétt áðan var tvílemban þarna í rjóðrinu niðri við veginn að horfa út í runnana og stappaði niður löppinni. Svo kallaði hún á lömbin með ægilegt stress í röddinni. Hún var að horfast í augu við tófuna okkar og ekkert annað. Nú skulum við fara og setjast ofan á grenið og snúa bökum saman svo hún sleppi ekki óséð inn“. Ungi maðurinn mótmælir þessu plani kurteislega. Bendir á þá staðreynd að ef ályktanir þess gamla séu rangar, þá sé umrædd læða þannig skapi farin að hún muni ekki koma út næstu vikuna. Sá gamli er alveg öruggur: „Dýrin í skóginum segja aldrei ósatt“.


 Hann talar víst af reynslu þar. Bara nokkrir dagar síðan þeir voru við bílana á vegarenda undir Eitraðahnúk hjá Haga. Þá heyrðist í stelk í fjarska. Gamli var ekki lengi að heyra hvað sá hafði að segja og niðurstaðan var afdráttalaus: „Drífum okkur! Það er tófa í fitinni fyrir innan Tungumúla!“. Ekki vafðist fyrir honum að skilja stelkinn þótt vegalengdin væri yfir 1,5 km. Tófan í fitinni var fallin hálftíma síðar. Ungi maðurinn veit af reynslu að best er að leyfa gamla að ráða og planið er framkvæmt.

 

Þegar þeir hafa setið tvo tíma ofan á greninu kemur læðan heim með mat. Það verður hennar hinsta för. Stuttu seinna er búið að nota kallhljóð foreldranna til að lokka alla yrðlingana út úr greninu og setja þá í poka. Þeir munu ekki þurfa að deyja úr hungri. Þrátt fyrir allt tók ekki nema 1 ½ sólarhring að vinna grenið. Að því loknu kanna mennirnir allar aðstæður og leggja sér á minni til seinni tíma. Í ljós koma „leyningöng“ úr greninu niður í skóginn 50 metrum neðar. Ungi maðurinn bendir á að þar þurfi bara lítið að hreyfa við steinum til að eyðileggja göngin svo tófan þurfi að koma upp á yfirborðið. Þá verði léttara að liggja á þessu greni, ef munnarnir dreifist ekki á 50 metra svæði. Afstaða gamla mannnsins er afdráttalaus: „Kemur ekki til mála, það verður að gefa þeim einhver tækifæri þegar við erum komnir með svona ógurlegar græjur“.

 

Þetta var 1998. Grenið undir reynihríslunni er óskemmt enn.

 

 

 

Reynir Halldórsson minningarorð

Reynir Halldórsson
Reynir Halldórsson

Reynir Halldórsson

f.10.01.1926-d.26.12.2017

 

Minningarorð;

 

Reynir Halldórsson var fæddur í Vestmannaeyjum 10. Janúar 1926.

 

Foreldrar hans voru Ingibjörg María Björnsdóttir, frá Hólum í Reykhólasveit og Halldór Loftsson frá Gríshóli í Helgafellssveit. Þau Ingibjörg María og Halldór eignuðust þrú börn sem nú eru öll látin: elstur var Garðar, þá kom Reynir og yngst þeirra systkina var Magnea Guðrún. Garðar, bróðir Reynis, lést 20. október s.l.  Hann var bóndi á Hríshóli  og stofnaði nýbýlið Hríshól II og varð síðar skrifstofumaður á Akranesi. Magnea Guðrún lést 18. Júní 2011. Hún var húsmóðir og bóndi á Skorrastað í Norðfirði.

 

Foreldrar Reynis skildu þegar Reynir var á öðru ári, en þá flutti móðir hans með þá bræður frá Vestmannaeyjum að Hríshóli. Á Hríshóli gerðist Ingibjörg María  ráðskona hjá Birni Ágústi bróður sínum. Þar fæddist Magnea Guðrún, yngsta barn hennar. Þau systkinin, Garðar, Reynir og Magnea Guðrún, ólust upp á Hríshóli, utan einn vetur þegar þau dvöldu með móður sinni á Eyri við Mjóafjörð. þar bjó annar bróðir Ingibjargar Maríu, Finnbogi.

Á Hríshóli ól Reynir manninn alla tíð þar til hann fluttist í Búðardal árið 2001.

 

Sumarið 1959 kom Gísela Halldórsdóttir sem kaupakona að Hríshóli I. Gísela var ættuð frá Þýskalandi, en foreldrar hennar voru Reinhard og Wanda Framme. Þau Reynir og Gísela felldu hugi saman og fjórum árum síðar gengu þau í hjónaband , þann10. mars 1963. Þau eignuðust tvö börn, þau Reinhard og Ingibjörgu;

 

Reinhard er fæddur 6. maí 1960. Eiginkona hans er María Kristjánsdóttir og eiga þau saman tvö börn, Reynir Inga, unnusta hans er Sirilin Keskla, og Hafþór, unnusta Chanee Thianthong. Fóstursonur Reinhards og sonur Maríu er Haraldur. Eiginkona hans er Berglind Júlíusdóttir og eiga þau þrjú börn.

 

Ingibjörg er fædd 8. maí 1963. Hún var gift Þorsteini Einarssyni, þau skildu, en þau eiga saman tvö börn, þau Einar og Guðrúnu Maríu.

 

Reynir vann að búi móðurbróður sins allt þar til þau hjónin keyptu jörðina Hríshól I, árið 1962.  Eftir að bróðir hans hætti búskap á Hríshóli II, árið 1968,  keyptu þau hjónin einnig þá jörð og sameinuðu báðar í eina að nýju.

Stöðugt var unnið að því að auka ræktun og búa þannig í haginn fyrir stækkun búsins. Með sameiningu jarðanna sköpuðust ný tækifæri og 1977 voru byggð upp 500 kinda fjárhús ásamt votheysflatgryfju. Jafnframt því var kúabúskapur lagður af. Árið 1990 seldu þau Reynir og Gísela jörðina til Þráins Hjálmarssonar og Málfríðar Vilbergsdóttur en bjuggu áfram í íbuðarhúsinu. Vann Reynir við búrekstur hjá nýjum eigendum allt þar til hann og Gísela fluttu í Búðardal árið 2001. Með búskapnum sinnti Reynir íhlaupavinnu utan bús, s.s. við sauðfjárslátrun hjá Kaupfélagi Króksfjarðar. Þá sá hann um viðhald hluta mæðiveikisgirðingar sem lág úr Berufirði í Steingrímsfjörð um nokkurra ára skeið. Krafta sína helgaði hann þó fyrst og fremst uppbyggingu og umsjón búsins á Hríshóli og skilaði þar góðu verki til þeirra sem tóku við keflinu. Í Búðardal átti hann hæglát efri ár en hugurin var þó altaf tengdur Hríshóli sem hann hafði helgað krafta sína svo lengi.

 

Reynir var mikið snyrtimenni og mikill nákvæmnismaður. Vandað var til allra verka og girðingar voru honum sérstakt áhugamál. Það var ekki nóg að þær væru góðar og skepnuheldar, heldur þurftu þær líka að líta vel úr. Já þær þurftu að  vera þráðbeinar og teinréttar eins og eftir reglustiku.

Eftir að þau Reynir og Gísela hættu búskap ferðuðust þau hjónin um landið, þá helst um afdali, þar sem Reynir tók út allar girðingar sem ekið var framhjá. Gísela átti það hins vegar til að banka upp á á bæjum þar sem henni fannst ekki nógu snyrtilegt og benda ábúendum á það.

 

En þau hjónin ferðuðust einnig til útlanda. Þau fóru m.a. til Þýskalands, heimaslóðir Gíselu. Einnig fóru þau til Póllands, en þar hafði fjölskylda hennar átt sumarhús.  En Reynir talaði ekki þýsku og því upplifði hann stundum að hann stæði eilítið fyrir utan allt. Átti til að segja þegar heim var komið: Það er ekkert að sjá þarna, bara tré !

 

Reynir var alla tíð tengdastur sínu nærumhverfi og var lítið að velta fyrir sér því sem var þar fyrir utan. Hann fylgdist vel með öllu því sem var að gerast í sveitinni og greip í kíkinn til að geta fylgst með: Kalli á kambi er byrjaður að slá! Börnin ólust upp við það að kíkirinn stóð alltaf í eldhúsglugganum. Hann hafði stóru hlutverki að gegna.

 

Reynir var stoltur af börnunum sínum en ráðskaðist aldrei með þau eða sagði þeim fyrir verkum. Ef eitthvað tókst vel til var hann spar á hólið. Ein setning lifir þó í minningu lítils drengs þegar pabbi sagði við hann “Sprondi minn”, sem þýddi spræki litli bóndi. Þá var Reynir verulega stoltur af syni sínum og taldi hann efnilegan til verka.

Reynir hafði það ekki í sér að vera verkstjóri en hafði mikinn metnað fyrir öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og þannig lærðu börnin af honum. Þannig var hann þeim dýrmæt fyrirmynd.

 

Það er margs að minnast frá æskuárum úr sveitinni heima. Það verður lengi í minnum haft þegar Reynir ákvað að kaupa sér nýja dráttarvél. Hún var ekki af lakara taginu, Massey Ferguson, og fannst  einhverjum nágrannanum vel í splæst og spurði Reyni af hverju hann hefði ekki frekar keypt Zetor dráttarvél.  “Þú hefðir getað fengið tvær fyrir þessa einu”. Svarið sem hann fékk var stutt og laggott : En ég þurfti bara eina!

 

Það var alltaf allt í röð og reglu á Hríshóli, aldrei rusl eða drasl neins staðar. Út í fjárhúsi var svo snyrtilegt að þar mátti leggja niður ungabarn ef því var að skipta. Úr loftinu í hlöðunni héngu baggaböndin í röðum niður úr bitunum, hver röð með sínum lit, öll jafn löng. Þetta var inngróin snyrtimennska.

 

 

Fjölskyldan eignaðist ekki bíl fyrr en eftir 1980, fram að þeim tíma var ferðast um á dráttarvélinni. Á haustin var farið fram í fjall í ber með nesti og teppi og börnin sátu  þá á kerru sem tengd var aftan í dráttarvélina. Það eru góðar minningar. Og úr sveitinni á elsta barnabarnið, Haddi, einnig góðar minningar frá því að girða með afa á Hríshóli. Já afi talaði alltaf við mig eins og fullorðinn!

 

Sumarið 2008, sjö árum eftir að þau Gísela og Reynir fluttu í Búðardal, veiktist Gísela. þann 16. september var hún flutt á sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem hún lést daginn eftir. Áður hafði hún verið búin að laga fullan pott af kjötsúpu og hafði mestar áhyggjur af því að nú myndi Reyni takast að klúðra súpunni: segðu nú pabba þínum að gera ekki kjötið ónýtt!  Með þau skilaboð hringdi Inga heim í pabba sinn. Svarið sem hún fékk var: Auðvitað geri ég ekki kjötið ónýtt!

Þau Gísela og Reynir virkuðu mjög vel sem heild og voru samstíga í því að allt ætti að vera í röð og reglu. Gísella var verkstjórinn og sú sem tók ákvarðanirnar.

En eftir fráfall Gíselu tileinkaði Reynir sér einveruna vel. Hann sá um sig sjálfur, þvoði þvott og þreif allt í kringum sig. Hann hafði þurft að gera það eftir að móðir hans dó, þann tíma sem hann var einn áður en Gisela kom inn í líf hans.

 

Reynir var hógvær maður og hans einkunnarorð voru þau að vera ekki með vesen. Síðasta vor var sótt um hvíldarinnlögn fyrir hann á Silfurtúni, en honum bauðst hún ekki fyrr en liðið var á sumar og hann mun hressari. Engu að síður þáði hann innlögninga með þeim orðum: ég ætla ekki að gera neitt vesen.  Hann fór því heim í íbúð og lagði sig þar á daginn og þvoði þvotta. Á silfurtúni borðaði hann og drakk kaffi og tók þátt í félagslífi og glaður var hann þegar hvíldarinnlögninni lauk. 

  

 Í október greindist Reynir með æxli í lungum og maga sem lagði hann að velli á styttri tíma en gert var ráð fyrir. Hann vissi í hvað stefndi og tók á móti örlögum sínum af mikilli auðmýkt og hógværð. Reynir lést á annan dag jóla, 26 desember s.l. á Dvalarheimilinu Silfurtúni. Hann hefði orðið 92 ára í næstu viku, þann 10 janúar. Fram að því hafði hann átt gott líf, var alltaf hraustur og sjálfbjarga.

 

Fjölskyldan vill koma á framfæri þakklæti til starfssfólks og vistamanna Silfurtúns fyrir vináttu, alúð og góða umönnun þann tíma sem Reynir dvaldi þar. Einnig vill fjölskyldan koma á framfæri þakklæti til Þórðar læknis og Þórunnar fyrir allan þann stuðning sem þau veittu honum undir það síðasta.

 

Reynir var alla tíð stálminnugur, allt fram undir það síðasta. Hann mundi öll bílnúmer og fylgdist jafnvel með því úr eldhúsglugganum sínum hverjir voru á vakt á Silfurtúni. Hann þekkti bílnúmerin. Sömuleiðis var hann minnugur á nöfn og það pirraði hann að  finna að minnið var farið að svíkja hann undir það síðasta.

 

Árin mín í Dölunum hef ég notið þess að horfa á Reyni út um eldhúsgluggann minn þar sem hann var alltaf eitthvað að bardúsa, þrífa bílinn sinn, sópa stéttina, þvo gluggana, moka snjó, bæta og fegra umhverfið með einhverjum hætti. Og ekki taldi hann það eftir sér að fara yfir til nágrannans ef það var eitthvað sem hann gat aðstoðað hann með. Hjálpsemi Reynis var öllum kunn og hann hafði lag á því að gera allt fallegra og betra í kringum sig.

 

Það eru margir sem minnast Reynis með hlýju í hjarta nú þegar við horfum á eftir honum í gegnum sjóndeildarhringinn þar sem hann leggur upp í ferð sína inn í lendur fegurðar og fullkomleika.

 

 

Útför Reynis fór fram í Reykhólakirkju 5. janúar 2018.

 

     Sr. Anna Eiríksdóttir sóknarprestur Búðardal

Reynir Halldórsson,  mynd Steinunn Matthíasdóttir
Reynir Halldórsson, mynd Steinunn Matthíasdóttir

 

Minningarorð

    

Það varð stutt á milli andláts þeirra bræðra Garðars og Reynis sem áður fyrr bjuggu  saman í  tvíbýli á Hríshóli í Reykhólasveit. Garðar flutti  síðan  suður og eftir það  bjuggu   Reynir og Gisela kona hans  myndarbúi á Hríshóli í mörg ár.

 

Ég minnist þess að meðan ég bjó í Hnífsdal og átti leið akandi um Reykhólasveitina,  þá vakti  það alltaf athygli mina hve snyrtilegt var heim að líta að Hríshóli.   Og eitt sinn er ég var á ferð með  fjölskylduna  á leið um landið sumarið  1964, hafði mjólkin klárast á leiðinni. Það var ekki ásættanlegt að vera mjólkurlaus  með þrjú smábörn í bílnum.  Þá var mjólk  seld í mjólkurbúð  Kaupfélagsins   á Ísafirði og mæld á brúsa, sem fólk kom með.  Í Hnífsdal  var mjólkin einnig seld með sama hætti í útibúi Kaupfélagsins, eða  komið með mjólk í brúsum frá sveitaheimilum, sem dreift var heim til fólks.  Ég var auðvitað  með einn slíkan  brúsa  í bílnum.   Og rétt komin af Þorskafjarðarheiðinni  lá beint við að fara heim að Hríshóli til að kaupa  mjólk í brúsann.  Það var auðsótt mál, en þá var ekki verið að spá í það hvort mjólkin væri gerilsneydd eins og síðar varð.  Enda varð okkur gott af mjólkinni frá Hríshóli. 


Eftir að ég flutti  í Reykhólasveitina 1996, kynntist ég þeim hjónum  Reyni og Giselu betur og ekki nema að öllu góðu.  Það var skemmtilegt að spjalla við Reyni , sem þekkti alla og fylgdist vel með öllu sem gerðist í sveitinni. Hann var alltaf til í að gefa góð ráð og upplýsingar um sveitina.  Þau hættu síðan  búskap þegar árin færðust yfir  og seldu jörðina en bjuggu áfram í  húsinu á Hríshóli all mörg ár eftir það.  Ég held  að Reynir hafi samt alltaf haldið áfram að hafa auga með búskapnum hjá nýju eigendunum  og þeim hafi ekki þótt það neitt verra að njóta aðstoðar hans.  Þau  hjónin fluttu sig svo seinna  í íbúð fyrir  aldraða í Búðardal og   þar tóku þau virkan þátt í starfinu í  Félagi eldri borgara og Gisela var  þar formaður um tíma.


Reynir  fann sér eitt og annað til dundurs, ekki síst í að snyrta og fegra umhverfið.   Eftir að Gisela lést fyrir nokkrum árum  hélt Reynir  áfram sjálfstæðri búsetu, en sótti þó ýmsa þjónustu í Dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal.  Síðustu vikurnar var hann þar  alveg  til heimilis.  Systir mín Þrúður segir hann hafa verið góðan nágranna, hjálpfúsan og vinsamlegan.  Hann leit oft eftir húsi þeirra  hjóna á Sunnubrautinni ef þau voru fjarverandi.  Síðast hitti ég Reyni um miðjan nóvember s.l.  þega Félag eldri borgara var með samkomu og kórsöng í  Hjúkrunarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum.  Hann var glaðlegur eins og alltaf, en þó greinilega ekki jafn hress og áður.  Á þeim tima var hann kominn með þann sjúkdóm sem sigraði hann að lokum.

 

Ég þakka  honum skemmtilegar samverustundir  og vináttu í gegnum árin.  Það er alltaf sjónarsviptir af  mönnum eins og honum, sem yrkja jörðina  af natni og ganga vel um allt sem þeim er trúað fyrir.  Guð blessi minningu Reynis og Giselu frá Hríshóli.

 

 

 

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

_______________________________________________________________________________

 


   

Minningargrein um Reyni Halldórsson:


 

Á árum áður þegar við Djúpmenn áttum leið suður á bóginn yfir Þorskafjarðarheiði, framhjá Bjarkarlundi og Reykhólavegamótum, blasti næst við augum, ofan vegar, bærinn Hríshóll, mjög vel hýstur með víðáttumikil tún í góðri rækt og þráðbeinar gallalausar girðingar. 

 

Á þessum bæ var snyrtimennska augljóslega í hávegum höfð. Þar bjuggu, vissi ég, Reynir og Gisela, þýskættuð skörungskona sem í tvo áratugi var allsráðandi á skrifstofu Kaupfélags Króksfjarðar, en við Skjaldfannarbændur vorum um skeið í sláturfjárviðskiptum þar. Betra var að hafa Giselu með sér en móti, enda kappkostaði ég það. Börn áttu þau tvö, óvenju mannvænleg, Reinhard og Ingibjörgu.

 

Svo líða árin og þau mjög mörg, þjóðleið Djúpmanna lá ekki lengur framhjá Hríshóli og þar orðin ábúendaskipti, Reynir og Gisela flutt suður í Búðardal.

 

Þá kemur það næst við þessa sögu að á sumardaginn fyrsta 2016 lítur hér inn hjá mér ásamt nágrönnum Ingibjörg Reynisdóttir og líst svo vel á bústofninn að hún gefur kost á sér sem lambaljósa á komandi sauðburði. Það var heldur betur fagnaðarefni og dró þann dilk á eftir sér að síðan hefur hún verið mín búskaparlega hægri hönd þegar mikils hefur þurft við. Inga sagði mér margt af föður sínum og persónuleg kynni okkar Reynis jukust að sama skapi. Gisela dó síðsumars 2008, en Reynir bjó áfram í parhúsi þeirra í Búðardal.

 

Á vesturleið um miðjan ágúst tók hann á móti mér á dyrahellunni sinni, ótrúlega unglegur og teinréttur, þrátt fyrir rúma níu áratugi á herðunum. Sest var við eldhúsborðið yfir mjólkurglasi og jólaköku. Ég sagði frá, en húsráðandi, sem ekki var margmáll maður, en því betri hlustandi, skaut að orði og orði. Eldhúsglugginn vissi í norðvestur í átt til Reykhólasveitar og þangað renndi Reynir augum er talið barst stuttlega að búskapnum á Hríshóli. Nær okkur blöstu við slegnar túnskákir með rúllum og gamli bóndinn lét þess getið að þeir sem þar heyjuðu hefðu alveg mátt slá nær girðingum og skurðbökkum og illt væri að sjá vindinn vefja plastinu aftur utan af heyinu.

 

Það hafði talast svo til að ég tæki með mér heim girðingarstaura sem Reynir hafði verið að vinna úr tilfallandi úrgangstimbri. Staurahornið hans var einstakt dæmi um þá vandvirkni, snyrtimennsku og hagar hendur sem erfst höfðu svo vel til Ingu dóttur hans. Allt nákvæmlega flokkað eftir lengdum og gildleika og renglur milli stauralaga, svo allt héldist þurrt og tvívírbundið yfir stæðurnar. Hver staur framhöggvinn með svo flugbeittri skaröxi að líkja mátti við velyddaðan blýant.

 

Er haustaði fór heilsu Reynis ört hrakandi og nú er hann horfinn yfir móðuna miklu. En hann er mér áfram lýsandi dæmi um þá aðgætni, elju, nýtni og nægjusemi, sem var svo ríkur og raunar nauðsynlegur þáttur í fari þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa af sjónarsviðinu. Blessuð sé minning þessa mæta manns. Ég sendi ástvinum einlægar samúðarkveðjur.

 

Indriði Aðalsteinsson.

   

Signý Magnfríður Jónsdóttir minningarorð

Signý M. Jónsdóttir
Signý M. Jónsdóttir

Signý Magnfríður Jónsdóttir - Magga eins og hún var alltaf kölluð - var fædd 19. júlí 1962 og lést 10.nóvember 2017.

 

Hún var dóttir hjónanna Þuríðar Sumarliðadóttur sem lést 12.október s.l. og Jóns Odds Friðrikssonar. Magga átti tvo bræður, þá Friðrik Daníel, maki er Hugrún Einarsdóttir og Bjarki Stefán, maki er Bára Borg Smáradóttir.

 

Maki Möggu var Bergsveinn Reynisson og börn þeirra eru Jón Ingiberg fæddur 28.maí 1988 og Guðlaug Guðmunda Ingibjörg fædd 22.septerber 1991.

 

Barnabörn þeirra Möggu og Begga eru tvö, þau Leo Ingiberg fjögra ára og Móðeiður Erna tveggja ára.

 

Magga var fædd og uppalin á Gróustöðum og bjó þar allt sitt líf.

 

Hún var ábyrgðarfullt, næmt, jarðbundið og skapandi barn og passaði það vel að enginn fór upp fyrir eða niður fyrir girðingu nema með leyfi. Álfar og huldufólk og umhyggja fyrir náttúrunni voru hluti af lífinu og þurfti til dæmis að kenna Sumarliða frænda, sem var hennar besti leikfélagi öll sumur, að hætta að hafa svona mikin hávaða í kringum stóra steina og klappir, en hann vissi hreinlega ekki að hann væri að trufla þá sem þar bjuggu.

 

Magga var mjög ung þegar hún lærði að lesa en bókum og lestri var haldið að öllum börnum á Gróustöðum. Þau Sumarliði sátu gjarnan uppi á hálofti á sumrin og þurfti nánast að henda þeim út þegar sól var, því lesturinn var svo spennandi. Þau spændu upp allt sem þau komust í...allar bækur og tímarit eins og Vikuna, Húsfreyjuna og auðvitað var Basil fursti í miklu uppáhaldi.

 

Sumarliði minnist æskuára þeirra Möggu sem endalausra gæða, að þannig sé Gróustöðum og Gróustaðafólki rétt lýst.

 

Þetta örvandi uppeldi varð til þess að Magga fór snemma sínar eigin leiðir og byrjaði ung að spreyta sig á eigin sköpun og skrifaði dagbækur frá unglingsaldri. Í grunnskóla var hún strax farin að klæðast fötum sem hún hafði saumað eða prjónað sjálf og var ekkert að láta aðra segja sér hvernig hún ætti að vera klædd.

 

Magga var mikil handavinnukona og byrjaði það mjög snemma. Hún átti minningar af sér mjög ungri sitjandi hjá afa sínum að tálga og að vinna með áhöld sem börnum í dag væri ekki treyst fyrir. Kennarinn, Sumarliði afi hennar, var ekki af lakara taginu og leyfði henni óhindrað að prófa sig áfram með ýmiss konar efniðvið og hvatti hana til að láta ímyndunaraflið koma fram í verkum hennar. Og þar var margt að finna enda þekkti Magga öll blóm, stjörnur og stjörnumerki, steina og fugla, en uppáhalds fuglinn hennar var Krían.

 

Magga kláraði grunnskóla, fyrst í Vogalandi og svo á Reykhólum, og lét það duga, þrátt fyrir að eiga mjög auðvelt með að læra en handverkið var það sem heillaði, og bústörfin.

 

Þetta þótti Möggu dásamlegt allt sitt líf. Hún hafði fengið meira af verksviti í vöggugjöf en flestir. Og að sjálfsögðu prjónaði hún allt sem hægt var að prjóna þegar hennar eigin fjölskylda varð til og hennar mesti fjársjóður, þau Jón og Gulla. Og þegar óþekktarormarnir hennar stækkuðu og frítíminn fór að verða meiri jukust afköstin í handavinnunni til mikilla muna og vinir og vandamenn fengu að njóta afrakstursins.

 

Í hennar augum voru jólagjafir ekki eitthvað sem var keypt út í búð. Það skipti ekki máli hvort hún væri að mála, vinna í leður, sauma, prjóna eða í skartgripasmíði, hún var jafnflink í þessu öllu saman.

 

Síðasta handverk hennar var gert seinni partinn í sumar, þegar hún var síðast heima. Það voru auðvitað jólagjafir fyrir barnabörnin, þau Leo og Móu. Þau geta klæðst hlýjum og fallegum ullarsokkum í vetur, síðustu kveðjunni frá ömmu Möggu.

 

Þann 5.september 1981 fór Magga á ball með Upplyftingu í Sævangi. Hún fór með Hugrúnu og Sigurvin á Gilsfjarðarbrekku á Landrover yfir Steinadalsheiði. Það snjóaði talsvert þetta kvöld, svo það var talsverð hálka á heimleiðinni og þau voru lengi yfir. En á þetta sama ball fór líka ungur maður vestan úr Gufudal, á gömlum Bronco, með Einar frænda sinn sem bílstjóra. Þau urðu ekki samferða heim eftir þetta ball, en eftir þetta var ekki aftur snúið og þetta ævintýri varð að 36 ára hjónabandi Möggu og Begga. En á sjálfan brúðkaupsdaginn 26. Desember árið 1988, var sama vonskuveðrið og hefur geysað hér í vikunni og sat presturinn pikkfastur hér í veghliðinu og komst hvorki lönd né strönd.

 

Magga byrjaði að vinna í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi á haustin frá 16 ára aldri og afrekaði það meðal annars að kenna manni sínum að þvo lambskrokka haustið sem þau byrjuðu saman. Var þar aftur verksvitið og það hversu auðvelt hún átti með að kenna öðrum sem heillaði við hana. Hvort sem það var þetta eða burðarhjálp í sauðburði, en hún var mjög lagin við hana, - nutu nágrannar góðs af því - eða það að kenna sjálfboðaliðum að prjóna og sauma. Hún meira að segja gat kennt Begga að prjóna og þá var víst mikið sagt.

 

Seinni árin vann Magga á skrifstofunni hjá Kaupfélaginu þangað til það hætti rekstri árið 2007 en hún hafði svo sem unnið þar með hléum frá unglingsaldri. Þegar kaupfélagið hætti starfsemi lenti það talsvert á hennar herðum að pakka því sem þvi tilheyrði saman og því má með sanni segja að hún hafi verið síðasti starfandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Króksfjarðar.

 

Hjartað sló þó sem sauðfjárbóndi og í listsköpun. Árið 1997 hófs forystufjárrækt og Magga varði heilmiklum tíma með forystufénu, að persónuleikagreina það og koma því vel á legg. Það hefur nú dreifst frá Borgarfirði eystri til Bolungarvíkur og frá Heklurótum til Hornstranda og alltaf kunni Magga allar ættartölur. Að mörgu leyti var hún frumkvöðull með Örninn sinn, kræklinginn og handverkið. Hún byrjaði útflutning á skeljum á undan Begga, þegar hún fór að mála inn í þær og selja í handverkinu.

 

Hún hugsaði í lausnum. Sum eyðublöð sem sauðfjárbændur fylla út í Gæðastýringu í dag eru komin frá Möggu á Gróustöðum, sem hún gerði fyrir búið sitt þegar hún var ekki nógu ánægð með eyðublöðin frá MAST. Þeir fengu svo leyfi frá henni til að gera að sínum.

 

Ein af uppáhalds bókaseríunum hennar á seinni árum voru Discworld bækurnar eftir Terry Pratchett. Úr þeim var ein uppáhalds tilvitnunin hennar:

 

“Hver sá guð sem ekki gerir sér grein fyrir að sauðburður gengur fyrir öllu öðru, er ekki guð sem er þess virði að tilbiðja”

 

Magga var mikill vinur vina sinna. Hún vissi fátt skemmtilegra en að fara á sveitaböll með góðri danshljómsveit og ekki óalgengt að Beggi og Magga væru ein eftir á dansgólfinu ásamt unglingunum. Margir drukknir og ódrukknir unglingar áttu við hana trúnaðarsamtöl á þessum tímum og gaf hún þeim góð ráð sem hjálpuðu til að feta sig áfram á lífsins braut.

 

Gegnum tíðina hefur talsvert af unglingum dvalið hjá þeim hjónum. Magga mat þau mjög mikils og þótti vænt um þau öll og það var gagnkvæmt því mörgum þótti hún vera þeim sem önnur móðir. Árið 2014 bættist svo enn meir í vinafjölskylduna því fyrstu sjálfboðaliðarnir sem þau hjónin fengu til sín komu um haustið, tveir franskir strákar sem voru hjá þeim samfleytt í hálft ár. Þetta var upphafið að miklum ævintýrum, þar sem fólk hvaðanæva að úr heiminum kom til þess að hjálpa til við bústörfin og kræklinginn. Það var ómetanlegt fyrir þau að hitta fyrir konu eins og Möggu, sem veitti þeim nýja sýn á lífið og tilveruna.

 

Hún kenndi þeim nýtni og virðingu fyrir umhverfinu, til dæmis að það væri nóg að setja einn fjórða af uppgefnum sápuskammti í uppþvottavélina, diskarnir yrðu samt hreinir. Hún kenndi þeim að henda engu heldur finna önnur not fyrir það, þótt það væri ekki nema að gefa hundinum að éta. Hún kenndi langflestum að prjóna, burtséð frá kyni eða aldri. Sumir lærðu að sauma sér víkingakyrtla og fóru með henni á víkingahátíð, aðrir lærðu hluti sem kannski koma ekki að miklu gagni úti í hinum stóra heimi, eins og sauðburðarhjálp og að gera rabbabarasultu. Þau elskuðu fiskisúpuna og brúnuðu kartöflurnar hennar.

 

Hún er í dag syrgð í öllum heimsálfum, enda á annað hundrað manns sem hafa lagt leið sína til þeirra hjóna og var Magga þeim yndislegur vinur og fyrirmynd í svo mörgu og svo ótrúlega næm á líðan fólks og ávallt tilbúin til að aðstoða.

 

Víkingar og víkingatímabilið voru henni líka kært áhugamál. En árið 2000 fór Magga á sína fyrstu víkingahátíð. Þar kynnist hún víkingunum og fann útrás fyrir sköpun í handverki, og gat farið sínar eigin leiðir í því. Þá kviknaði fyrir alvöru áhuginn á því að vinna í leður. Hún aflaði sér mikillar þekkingar á klæðnaði og klæðagerð þess tíma. Hún saumaði allan víkingaklæðnað á sig og Gullu, ásamt því að hjálpa sjálfboðaliðunum að gera sína eigin víkingakyrtla,

 

Fjórða desember árið 2013 gerðust undur og stórmerki. Nýtt hlutverk og nýjir titlar voru að verða til fyrir þau Möggu og Begga, en þennan dag kom fyrsta barnabarnið þeirra í heiminn.

 

Magga var frábær amma og þótti barnabörnunum, þeim Leo og Móu, fátt skemmtilegra en að rölta með henni út í fjárhús til að tala við vinina þar, hnoða þá og kjassa. Þar var Leó í essinu sínu að fá útrás fyrir orkuna sína við að gefa vinum sínum að borða. Hún var næm á persónuleika þeirra og átti auðvelt með að láta litlu orkuboltunum líða vel, sama hvort það var úti eða inni.

 

Magga elskaði fólkið sitt og hafði áttað sig á því að það var það sem skipti mestu máli. En bæði eiginmaður hennar og sonur höfðu lent í alvarlegum bílslysum og vissi vel hversu brothætt lífið var og að við værum ekki eilíf.

 

Hún tók því eigin veikindum með miklu æðruleysi, kvartaði aldrei og var sterk fram að síðustu stundu, ávallt með hugann heima á Gróustöðum. Ákveðnin og viljinn vakti aðdáun allra og ekki síst húmorinn sem hún hélt sem lengst í.

 

Henni þótti virkilega erfitt að geta ekki kvatt móður sína með okkur fyrir örfáum vikum en hún vissi þá og nánasta fjölskylda í hvað stefndi og að hún færi brátt í sama ferðalag. Að brátt myndi hún ganga í fjall, fjallið sitt heima.

 

Í Gestaþætti Hávamála var ein uppáhalds vísa Möggu og ætla ég að enda minningarorðin um þessa yndislegu og góðu konu á þeim:


Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

 


Þuríður Sumarliðadóttir minningarorð.

Þuríður Sumarliðadóttir
Þuríður Sumarliðadóttir

Þuríður Sumarliðadóttir var fædd.11.nóvember.1935 og lést þann 12.október. 2017. Hún var jarðsungin frá Garpsdalskirkju 23. október.

 

Foreldrar Þuríðar voru þau hjónin Sumarliði Guðmundsson og Signý Björnsdóttir á Gróustöðum, og átti hún einn bróður, Ásgeir Sumarliðason, sem er látinn.

 

Maki Þuríðar var Jón Oddur Friðriksson og eignuðust þau þrjú börn, þau Friðrik Daníel, maki Hugrún Einarsdóttir, Signýju Magnfríði, maki Bergsveinn Grétar Reynisson og Bjarka Stefán, maki Bára Borg Smáradóttir.

 

Barnabörnin eru orðin 7; Þuríður Signý Friðriksdóttir, Jón Ingiberg Bergsveinsson, Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir,  Sumarliði Gilsfjörð Bjarkason, Smári Gilsfjörð Bjarkason, Svanur Gilsfjörð Bjarkason og Gróa Borg Gilsfjörð Bjarkadóttir og langömmubörnin 5; Friðrik Heiðar Vignisson, Jón Haukur Vignisson, Elínborg Birna Vignisdóttir, Leo Ingiberg Jónsson og Móeiður Erna Jónsdóttir.

 

Þuríður var fædd og uppalin á Gróustöðum og bjó þar allt sitt líf og þar lágu hennar rætur. Móðurhlutverkið og svo seinna ömmuhlutverkið var það allra dýrmætasta í lífi Þuríðar. Börn voru henni afar kær og atvikaðist svo að tvö börn hennar og makar hafa ávallt búið með þeim hjónum hér og svo frumburðurinn sem er alltaf með annan fótinn heima.

 

Foreldrar hennar voru lánsöm eins og hún, að geta verið heima til síðustu stundar. Hún  hugsaði ætíð vel um þau og sérstaklega um móður sína eftir að faðir hennar dó.

 

Þar sem Þuríður var fædd og uppalin í sveitinni þurfti hún líkt og önnur börn á þessum tíma að aðstoða við sveitarstörfin og skepnurnar, lífið einkenndist af mikilli vinnu og var hún alla tíð einstaklega dugleg kona.

 

Hún greindist árið 1955 með lömunarveikina, einungis tvítug að aldri og náði sér aldrei almennilega en gaf þó ekkert eftir og vann mun meira en hún gat í rauninni og var oft undir miklu álagi á árum áður.

 

 

Ljósið sem gaf vonina í þessum veikindum var ungur maður, Jón Oddur, sem kom inn í líf hennar á þessum tíma sem eiginmannsefni. Þrátt fyrir að hún þekkti hann vel frá Garpsdal var það var ekki fyrr en hann bókstaflega festist á hlaðinu á Gróustöðum í skúrasmíði sem ástin kviknaði í alvöru og giftust þau tveimur árum seinna, þann 29. júní árið 1957, í sömu athöfn var frumburður þeirra, Friðrik, skírður.

 

 

Hún var einstök amma, amma sem átti alltaf til tíma, amma sem kenndi barnabörnunum að meta íslenska náttúru og öll þau undur sem henni fylgja og þá sérstaklega fuglana. Það var sko lúxus að hafa ömmu í næsta húsi og eiga dýrmætt athvarf í faðmi hennar. Þuríður var auka-mamma og amma fyrir nágrannabörnin og öllum leið vel nálægt henni. Góðir nágrannar voru gulls ígildi í þessari sveit og fékk hún oft nágrannabörnin í fangið með nær engum fyrirvara en þau voru ávallt velkomin og alltaf tilbúin að koma, enda oftar en ekki heimsins bestu lummur í boði eins og barnabörnin hennar Þuríðar orða það.

 

 

Þá fylgdist Þuríður ávallt vel með öllu sínu fólki fram á síðasta dag og athugaði reglulega um alla. Umhyggju sína sýndi hún alltaf án nöldurs heldur bar kurteisislega fram áhyggjur af því hvort allir fengju að borða og hvort þau væri ekki örugglega búin að þrífa aðeins.  Kisa gamla var einn af bestu vinunum þar til hún fór og fékk sinn skammt af umhyggju og blíðu Þuríðar.

 

 

Á Íslandi eigum við til hvunndagshetjur, fólk sem leggur sig stöðugt fram við að hugsa um aðra, láta hlutina ganga með kærleika og umhyggju en þiggja varla hið minnsta hrós. Þuríður var þannig hvunndagshetja. Hún var alltaf að hugsa um aðra og taka tillit til annarra.

 

 

Allir höfðu mikla matarást á henni og ein birtingarmynd ástar hennar á fjölskyldu og vinum var að elda og baka handa öllum. Allir voru velkomnir og til hennar var svo sannarlega gott að koma og öllum var tekið opnum örmum. Hún var einstaklega gestrisin og varð ómöguleg ef einhver vildi ekki kaffi og orðatiltækið „7 sortir en ekkert til með kaffinu“ hljómaði reglulega í eldhúsinu hennar.

 

 

Og reyndar var það ekki það eina sem hljómaði reglulega í þessu eldhúsi því íslensk dægurlög áttu sinn sess í lífi Þuríðar og uppáhalds tónlistarmennirnir voru Haukur Morthens, Ellý Vilhjálms og Helena Eyjólfs. Tónlistin gaf henni ætíð mikið og hún spilaði sjálf og því varð það mikill missir þegar hún hætti að heyra jafn vel og njóta tónlistarinnar.

 

 Þuríður var húsmóðir fram í fingurgóma og mjög nýtin, saumaði mikið og var flink í höndunum. Hún hafði líka einstakt lag á að láta hluti endast, í hennar búi voru í hversdagsbrúki ýmis áhöld sem Sumarliði faðir hennar smíðaði. Í áranna rás hélt hún til haga alls kyns hlutum sem sumum fundust nú ekkert ýkja merkilegir og frekar hversdagslegir, en eru í dag algjörlega ófáanlegir og orðnir hluti af sögu og minningum sem henni þótti vænt um að geta deilt með öðrum.

 

 Hún var framkvæmdasöm og vildi láta hlutina ganga. Fannst gaman að breyta til og hafa fallegt í kringum sig og elskaði blóm og liti. Og auðvitað varð allt að vera á sínum stað og ekki kom til greina að hlutirnir væru í svörtum eða dökkum litum því þá þoldi hún ekki.

 

Þegar Þuríður og Jón Oddur tóku að reskjast hættu þau búskap og börn þeirra tóku við. Þá gafst meiri tími til að sinna áhugamálum. Þuríði hafði alltaf langað til að ferðast en því miður hafði lítill tími gefist til þess þar sem alltaf var verið að gera við. Hún fór ekki að heiman ef hún vissi að einhver gæti þarfnast hennar heima við né ef bollarnir stóðu enn óhreinir í vaskinum.Hún fór þó í dásamlega ferð sem gaf henni mikið, í Borgarfjörðinn með Ingibjörgu vinkonu sinni að kaupa blóm og svo norður í Djúpuvík að skoða gamlar minjar. Einnig ákváðu þau hjónin að búa sér til ferðabíl og fóru saman tvær ferðir á Snæfellsnes, þar sem hún naut sín vel og dáðist að ólíku landslagi og náttúru og mannlífinu almennt.

 

 Hún lifði í núinu og kunni að njóta þess minnsta sem hins stærsta og fannst lífið ganga helst til hratt í nútímanum og hafði áhyggjur af því, því öllu og öllum vildi hún vel. Hún vildi að fólk staldraði við og nyti þess sem lífið hafði uppá að bjóða og þá sérstaklega náttúrunnar, fallegrar tónlistar, litanna og samverunnar við hvert annað.

 


Æviatriði nýlátinna, sem birst hafa í fréttahluta þessa vefjar

 

 

Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31