Tenglar

20. maí 2022

Jæja, jæja ...

Magnús Ólafs Hansson
Magnús Ólafs Hansson

                       Magnús Ólafs Hansson

 

Hvað segist, gott fólk?

         Eigum við að halda áfram að ræða um ketti? Tja, hvers vegna ekki? Alla vega er ekki vanþörf á, svo mikið er víst.

         Fyrri grein mín fór víða og vakti umtal, enda brennur þetta á mörgum landanum. Sumir hafa eflaust fyrst við, eins og gengur, sannleikanum verður jú hver sárreiður, en meirihlutinn tók henni fagnandi. Það skynjaði ég á viðbrögðum, jafnt símhringingum sem öðru.

         Talskona Fuglaverndar var annars á Rás 1 á dögunum og ræddi við umsjónarmenn ónefnds þáttar um samband fugla og katta. Og hundar komu reyndar aðeins við sögu. Þetta var stórfurðulegt viðtal, sem ég ætla ekki að fara út í nánar, að öðru leyti en því að mig langar að beina sjónum að því sem var sagt um hvor tegundin væri hættulegri, hundarnir eða kettirnir. Að sögn talskonunnar voru það hundarnir, af því m.a. að þeir eru komnir af úlfum og eru hópdýr og því til alls líklegir. Hinir ekki. Svo eru þeir fyrrnefndu stærri líka og sterkari.

         Hér skulum við aðeins doka við, því í þessu sambandi á málið ekki endilega að snúast um afl, sentimetra og þyngd.

         Á Vísindavefnum segir m.a. í svari við spurningunni „Geta kettir verið hættulegir?“:

 

         Vissulega getur stafað hætta af köttum, bæði bein og óbein. Villtir kettir eiga það til að ráðast á fólk ef þeim er ógnað, til dæmis ef börn króa þá af. Slíkt er þó sjálfsagt fátítt hér á landi. Einnig eru fjölmargir með ofnæmi fyrir köttum, jafnvel bráðaofnæmi sem getur í einhverjum tilvikum reynst lífshættulegt.

         Einnig er hætta á því að sníkjudýr úr köttum berist í menn. Sníkjudýrið bogfrymill (Toxoplasma gondii) er algengur innsníkill í köttum. Bogfrymill getur valdið fósturskaða og jafnvel fósturdauða ef hann berst í vanfærar konur. Sníkjudýrið berst úr kettinum með saur og það er ekki ráðlegt að vanfærar konur hreinsi saur úr kattarkassanum ...

         Rannsóknir hafa sýnt að miðtaugakerfið í músum og rottum, sem eru verulega sýktar af umræddu sníkjudýri, tekur einhverjum breytingum. Breytingarnar koma fram í atferli dýranna, til dæmis verða þau ekki eins tortryggin gagnvart framandi mat og þau eru óhræddari við opin svæði. Þetta eykur líkurnar á því að þau lendi í kjaftinum á rándýri sem í borgarumhverfi nútímans eru yfirleitt kettir. Þannig komast sníkjudýrin í tengsl við önnur sníkjudýr sömu tegundar og geta þannig æxlast. Það eykur erfðablöndun og minnkar hættu á innræktun sníkjudýranna.

         Læknar hafa lengi rannsakað áhrif bogfrymils á menn og vísbendingar eru um að breytingar verði á heilastarfsemi manna sem sýkjast. Til dæmis virðast sýktir einstaklingar finna fyrir óöryggi, viðbragðsflýtir þeirra verður minni og jafnvel ber á því að fólk verður íhaldssamara og tregara til að gera eða framkvæma nýja hluti ...

 

         Hér ber að geta þess, að umrætt svar var gefið 24. september 2008, og í því sem ekki var birt hér er dregið nokkuð úr alvarleika málsins hvað Ísland varðar. En það hefur margt breyst síðan þá. Eitt er það, að erlendar rannsóknir eru sífellt að leiða í ljós enn alvarlegri áhrif þessa einfrumungs á umhverfið en þarna var getið. Á alls kyns dýr. Ástæðan fyrir því að kettir moka yfir það sem frá þeim kemur er t.d. ekki sú, að þeir séu einstakir snyrtipinnar, eins og hingað til hefur verið talið, heldur er þetta leið sníkjudýrsins til að lengja líftíma eggjanna, því hitinn geymist þá lengur saurnum og dregur úr þornun hans. Smart. Dýr af kattaætt eru einu hýslarnir þar sem bogfrymill getur klárað æxlunarhringinn.

         Í sumum löndum er konum ráðlögð fóstureyðing ef bogfrymill finnst í blóðinu, segir í grein í Pressunni 2. febrúar 1989, og að auki að þeir kettir sem lifi eingöngu á niðursoðnum kattamat eigi að vera lausir við skaðvaldinn. Það eitt ætti að vera ástæða til að halda þeim inni, alltaf, enda er engin leið fyrir eigendur þeirra að vita hvað þeir eru að gera úti við, séu þeir í lausagöngu, jafnvel drepandi nagdýr og smáfugla. Það segir sig sjálft.

         Árið 1996 var leitað að sníkjudýrum í 411 sandsýnum úr 32 sandkössum hér á landi. Hunda- og kattaskítur fannst í 21 kassa, eða 66% þeirra. Þrjár tegundir sníkjudýra, hunda- og kattaspóluormar auk bogfrymils fundust í sandkössum á leiksvæðum barna í Reykjavík og Kópavogi.

         Í DV 5. ágúst 2011 segir, að rannsóknir bendi til að þessi sníkill orsaki heilakrabba.

         Síðan hefur bæst á listann geðklofi og fleira.

         Ef mýs eða rottur sýkjast, fara þær að laðast að kattahlandslykt og verða jafnframt kærulausari, eða áhættusæknari, sem gerir rándýrinu auðveldara með að ná þeim. Eins er með fugla. Þetta eru millihýslar. Þannig lokast hringurinn.

         Bogfrymill hefur líka fundist í búpeningi hér á landi og er talinn hafa komist þangað upphaflega úr skít villikatta, sem hafa komið sér fyrir í og við hlöður. Hann getur borist í menn úr kjöti sem ekki hefur verið eldað nóg. Og líka úr grænmeti, ávöxtum og vatni sem mengað er af eggjum hans.

         Geðslegt?

         Árið 2014 bentu mælingar til þess, að um 30% katta hérlendis hefðu myndað mótefni gegn bogfrymli og að um 10% fólks hafi sýkst af bogfrymilssótt og myndað þannig mótefni.

         Og hið nýjasta er svo það, að vísindamenn telja að mögulega þurfi að fara taka upp reglulegar mælingar gegn bogfrymli hjá starfsstéttum eins og flugmönnum, flugumferðarstjórum og atvinnubílstjórum. Og hvers vegna skyldi það nú vera?

         Hmmm.

         Á heimasíðu Matvælastofnunar eru taldar upp „mikilvægustu leiðir til að koma í veg fyrir smit“. Þær eru eftirtaldar:

  • Tryggja að allt kjöt nái a.m.k. 65 gráðu hita við eldun.
  • Þvo hendur og áhöld sem komið hafa í snertingu við hrátt kjöt og gæta þess að það komist ekki í snertingu við önnur matvæli.
  • Þvo allt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.
  • Nota hanska við garðvinnu og við að hreinsa kattasand.

         Athygli vekur að áhrifamesta leiðin er ekki nefnd einu einasta orði, sem er auðvitað sú að banna algjörlega lausagöngu katta.

         Ég hvet blaða- og fréttamenn til að kafa nú djúpt í þessa, að því er virðist forboðnu eða a.m.k. hér á landi földu laug, eða öllu heldur fúla pytt og sýna lesendum og/eða áhorfendum að því búnu hvað upp úr honum kemur. Því miður held ég að það verði enn svartara en hér hefur verið lýst.

         Lifið heil.

 

Höfundur er búsettur á Akranesi

 

Magnús Ólafs Hansson
Magnús Ólafs Hansson

Nú er farinn í hönd sá tími þegar lausagöngukettir byrja að tína upp unga smáfuglanna, nýkomna úr hreiðri, eða drepa foreldrin, sem í mörgum tilvikum eru nýlega komin um langan veg yfir hafið frá vetrarstöðvunum til að auka kyn sitt.

 

Fram til þessa, meðan lítið var um bráð, hafa kettirnir látið nægja að skíta í blómabeð, kartöflugarða og í sandkassa fólks (þar sem þá er að finna), en nú sem sagt er vertíð framundan hjá þeim, með blessun og leyfi flestra bæjaryfirvalda og sveitarstjórna í landinu. Húsavík, eða öllu heldur þéttbýli Norðurþings, er þar undantekning og svo Akureyri frá næstu áramótum. Þeir bæir eiga heiður skilið fyrir að grípa til aðgerða gegn þessum vágesti.

 

Ég bý á Akranesi og hef verið að velta fyrir mér 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Eru þetta orðin tóm, eða skyldi ég hafa rétt á því, að vilja ekki fá kött nágrannans inn um dyr eða glugga íbúðarhússins míns og þaðan allt inn á rúmgafl eða í stofu, eða lóðina kringum húsið mitt, þar sem hann gerir þarfir sínar að vild, án þess að nokkur hreinsi upp eftir hann?

 

Þetta er mun alvarlegri hlutur en fólk gerir sér grein fyrir.

 

Burtséð frá því að kettir skuli vera einu gæludýrin sem fá að ganga laus á Íslandi, fara hvert sem þau langar og hvenær sólarhrings sem er, sem út af fyrir sig er alveg stórfurðulegt, og hlýtur að vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, er athyglisvert að lesa það sem segir í 56. grein XV. kafla Reglugerðar um hollustuhætti (941/2002) á vef Umhverfisráðuneytisins. Það er svofellt: „Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.“ Og í  58. gr. segir: „Óheimilt er að halda ketti í fjöleignarhúsum ef kattahaldið sannanlega veldur eða viðheldur sjúkdómum hjá íbúum.“

 

Bíðum nú aðeins við. Af hverju er þetta bara óheimilt í fjöleignarhúsum? Hver er munurinn á heimili mínu og þeim? Hvað ef fólk er með ofnæmi fyrir köttum? Hvers á það fólk að gjalda? Og hvað ef það væri með bráðaofnæmi? Hver bæri ábyrgðina ef illa færi? Ég, af því að dyr og gluggar stóðu opin hjá mér og fjölskyldu minni í blíðviðrinu? Nágranninn, af því að hann hleypti dýrinu út? Bæjarstjórn, af því hún gaf leyfi fyrir lausagöngunni? Íslenska ríkið, af því að þetta er látið viðgangast, þegjandi og hljóðalaust?

 

Önnur spurning enn mikilvægari er þessi: Að hverju er þetta yfir höfuð bannað? Jú, það reyndar kemur fram í umræddu skrifi, þetta er út af hinum megna óþrifnaði sem köttum getur fylgt og smithættu, þar sem sníkjudýrið bogfrymill (Toxoplasma gondii) er fremstur – og stórhættulegur fólki. Hann er enda að valda miklum usla í dýrum um allan heim og þjóðir að vakna upp við þá martröð.

 

Í 19. grein IV. kafla sömu reglugerðar er þetta: „Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3.“

Og hvað ætli standi nú í því? Jú: „Húsrými og lóðir sem ekki má hleypa hundum, köttum og öðrum gæludýrum inn á. Um matvælafyrirtæki fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir, skólar, lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús og aðgerðarstofur, vistarverur handtekinna manna, heilsuræktarstöðvar, íþróttastöðvar og íþróttahús, gæsluvellir, snyrtistofur, nuddstofur og sjúkraþjálfun, sólbaðsstofur, húðflúrstofur, samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús, gististaðir, veitingastaðir og sumarbúðir fyrir börn.“

 

Þetta er alveg stórmerkileg lesning. Kettir mega sem sagt hvergi vera þar sem fólk er við leik og störf, en það er allt í lagi að þeir séu valsandi í húsagörðum og inni á einkaheimilum þess, og það meira að segja óboðnir. Þar mega þeir gera hvað sem er, hvenær sem er, í boði yfirvalda.

 

Finnst einhverjum þetta virkilega í lagi?

Kettir ættu auðvitað, eins og önnur gæludýr, að vera inni allan ársins hring, eða þá í girðingum úti við. Nenni eigendur þeirra ekki að sinna þeim, ættu þeir ekki að hafa leyfi til að eiga þá. Þetta er ekki flókið.

 

Nú þegar kosningar nálgast væri forvitnilegt að vita hvað framboðin segja um þetta. Enn hef ég þó ekki séð blaða- eða fréttamenn nefna slíkt við frambjóðendur, hvað sem veldur. Enn er þó nokkur tími til stefnu og vonandi taka þeir nú við sér. Því stór hluti landsmanna er að pæla í þessu og mun lesa það sem skrifað verður. Og taka afstöðu í framhaldinu.

 

            Lifið heil.

 

Magnús Ólafs Hansson er húsgagnasmiður, starfar sem hönnuður og ráðgjafi og er búsettur á Akranesi.

Hrefna Jónsdóttir
Hrefna Jónsdóttir

Ég hef ákveðið að lýsa hér með yfir áhuga á setu í sveitastjórn Reykhólahrepps á næsta kjörtímabili. 

 

Ég tel að þetta sveitarfélag bjóði upp á gífurlega möguleika í komandi framtíð og mér þætti mjög spennandi að taka þátt í þeirri vegferð.

Lengi hef ég fylgst með, tekið þátt í umræðum og skoðað málin en nú tel ég tímabært að leggja mitt af mörkum. 

 

Verkefnin framundan eru mörg og spennandi. Það sem ég held að þurfi að vera áhersluatriði m.a. er:

- Fjölgun leiguíbúða með fjölbreyttum aðferðum

- Leikskólalóðin

- Viðhald á fasteignum hreppsins m.a. grunnskólahúsnæði

- Að auka tækifæri einstaklinga til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd

- Vinna að metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum 

- Nýta mannauðinn í samfélaginu eins vel og mögulegt er, það mikilvægasta er þó að sveitastjórn vinni vel saman með hagsmuni sveitarfélagsins í forgrunni.

 

Ég er alltaf til í umræður um málefni sveitarfélagsins svo það má endilega senda á mig línu ef vill.

 

Ég vona einnig að fleiri ákveði að rétta upp hönd og bjóða fram sína krafta!

 

Hrefna Jónsdóttir

 

 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir

Kæru sveitungar

Nú er það orðið ljóst að engir framboðslistar eru í gangi í Reykhólahreppi og ég mun gefa kost á mér aftur til að sitja í sveitarstjórn.

 

Kjörtímabilið sem er að líða hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir mig og ég hef unnið að verkefnum samfélagsins að heilum hug. Auðvitað hafa ekki allar ákvarðanir verið auðveldar en ég hef tekið þær ákvarðanir út frá innri sannfæringu út frá því hvað ég tel best fyrir sveitarfélagið. Auðvitað eru ekki allir sammála um hvað er best hverju sinni en ég hef líka borið virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum og skoðað allar hliðar. Lærdómurinn sem ég tek með mér út úr kjörtímabilinu sem er að líða verður ekki kenndur á neinum öðrum vettvangi en að fá að starfa í þessu starfi. Síðastliðið ár hef ég fengið þann heiður að sinna formennsku stjórnar Fjórðungssambandsins og Vestfjarðastofu og hef ég virkilega lagt mig fram af heilhug að starfa í þágu fjórðungsins í heild og hefur það verið mikill heiður! 

 

Það eru ansi mörg verkefni sem eru að hefjast sem ég tel vera stór tækifæri fyrir Reykhólahrepp ef vel tekst til að vinna þau áfram. Þar má nefna vindmyllugarð, græna iðngarða, þörungamiðstöð Íslands og áframhaldandi uppbyggingu innviða.

 

Á nýju kjörtímabili myndi ég vilja fara í deiliskipulag á þorpinu í samvinnu við íbúa. Að skapa framtíðarsýn fyrir þorpið, hvar við viljum sjá þjónustu hlutann (eða miðbæ) hvernig við viljum sjá hafnarsvæðið, lóðir undir húsnæði og iðnaðarlóðir. Mikilvægt er að halda áfram í að vinna að því að ný atvinnustarfsemi geti sest hér að og fengið aðgang að orku og lóðum. Ég myndi líka vilja ýta undir og styðja við atvinnuþróun í dreifbýlinu.

 

Ég myndi vilja halda áfram að vinna að því að Reykhólahreppur leggi áherslu á að öll þjónusta við börn verði ódýr eða ókeypis. 

 

Við stöndum frammi fyrir mögulegum sameiningum sveitarfélögum og þá er það mitt eina markmið að nýtt sveitarfélag standi sterkara en Reykhólahreppur gerir núna, þjónustuaukning við íbúa og uppbyggingarmöguleikar, þá þarf fjárhagslegur hvati til sameiningar að vera góður. En þetta er málefni sem þarf að skoða mjög vel með íbúum. Reykhólahreppur er sveitarfélag sem ég er stolt af og að mínu mati góður staður fyrir fjölskyldufólk að búa á. 

 

Annars er erfitt að skipuleggja heilt kjörtímabil með loforðum þar sem starfið snýr að stórum hluta að því að grípa þá bolta sem sendir eru á mann og nýta þá til að búa til tækifæri. 


Ég er búin að eiga mjög gott samstarf við Ingimar, Karl og Emblu og þakka þeim kærlega fyrir samstarfið. Ekki er nú samstarfið við Árný og Ingu Birnu síðra og ég vona svo innilega að ég fái að njóta þess heiðurs að vinna með þeim áfram, ásamt því að fá að vinna með nýju fólki fá ný sjónarmið inn og vinna með duglegu áhugasömu fólki. 

 

Ég vil þakka kærlega fyrir traustið sem mér var sýnt á kjörtímabilinu og ef þið viljið ræða málin eitthvað frekar þá er velkomið að hafa samband. 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir

 

Árný Huld Haraldsdóttir
Árný Huld Haraldsdóttir

Ég, Árný Huld Haraldsdóttir, vil gefa kost á mér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn Reykhólahrepps.

Líðandi kjörtímabil hefur verið uppfullt af bæði spennandi og krefjandi verkefnum, sem ég hef lært mikið af og öðlast reynslu sem mun nýtast mér í hverju sem er.

Komi til þess að ég verði endurkjörin mun ég halda áfram að vinna af heilindum, fylgja eigin sannfæringu með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi og takast á við þau verkefni sem að höndum ber.

 

Meðal verkefna sem ég vil fylgja eftir eru:
- að taka nýjan leikskólavöll í gagnið
- framtíðarsýn og endurbætur á Grettislaug
- vinna að fjölgun íbúða á Reykhólum svo hægt sé að auðga mannlíf
- halda áfram að sinna viðhaldi á eignum Reykhólahrepps
- greiða fyrir bættri nýtingu á orku sem fæst úr heita vatninu
- styðja við dreifbýlið og atvinnuþróun í sveitarfélaginu
- starfa við verkefni með nágrannasveitarfélögum á jafnréttisgrundvelli
Þetta er náttúrulega ekki tæmandi list og öll verkefni sem Reykhólahreppur tekur sér fyrir hendur þarf að vinna af heilindum og virðingu.

Emblu Dögg, Ingimar, Karli og Ágústu Ýr vil ég þakka gott samstarf í sveitarstjórn. Öllum þeim sem ég hef setið með í nefndum og unnið með þetta kjörtímabil óska ég líka alls hins besta. Vonandi getur samstarf okkar Jóhönnu haldið áfram næsta kjörtímabil og Ingibjörg Birna samþykki að sitja áfram sem sveitarstjóri sveitarfélagsins.


Mín von er að fá að halda áfram að vera talsmaður íbúa Reykhólahrepps og njóti hugrekkis til að gera betur í dag en í gær.

Árný Huld Haraldsdóttir

Bakka

 

Kæru sveitungar

 

Landið í Skógum er illa farið eftir mikið álag af ýmsu tagi gegnum aldirnar. Markmið okkar er að bæta þetta land og höfum á þeirri vegferð notið aðstoðar og leiðsagnar bæði Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Við höfum einnig lagt mat á það sem áunnist hefur gegnum árin, lært af reynslunni og aflað okkur þekkingar með lestri efnis sem landgræðslan hefur gefið út. Þar er af ýmsu að taka og langar mig sérstaklega að nefna ritið “Að lesa og lækna landið” eftir þau Ólaf Arnalds frá Hjöllum í Þorskafirði og Ásu L. Aradóttur.

 

Ólafur Arnalds, annar höfunda ritsins kynnir það með eftirfarandi orðum:

 

Ýmsar leiðir eru til  bæta raskað land; viðfangsefnin eru spennandi og gefandi í senn. Þetta rit er fyrir þá sem vilja læra  skynja ástand lands og lækna ...


Fyrir þau ykkar sem hafa áhuga á að skoða þetta rit, þar sem stuttir hnitmiðaðir textar útskýra það sem við blasir á þeim fjölda skýringamynda sem textanum fylgja, þá opnar slóðin hér að neðan ritið. Þar má fletta gegnum það frá upphafi til enda.

 

https://drive.google.com/file/d/1Z4AgA9uDWNSZv1L5CDPyw62rpct4WIQA/view

 

Kær kveðja, Böðvar

 

 

 

 

Í bernsku las ég  ævintýri þar sem sagt var frá því að prinsessa kyssti frosk og hann breyttist í prins. Dimmalimm kyssti svan og það fór á sömu leið. Kossar þeirra beggja gáfu af sér afar óvæntan en gleðiríkan afrakstur.

 

En hvað er að leysa land úr álögum? Um langt skeið hefur undirritaður unnið ásamt litlum hópi, að uppgræðslu og skógrækt í landi Skóga í Þorskafirði. Undirlendið er lítið og hlíðin rís nokkuð bratt upp frá sjávarmálinu og einkennist af misbreiðum hjöllum sem skiptast á við skriður. Hjallarnir eru misvel  grónir sumstaðar þokkalega en annarsstaðar eru örfoka melar, öll mold á bak og burt með vindi eða vatni. Það verður því varla sagt að jörðin sé frjósöm. Gegnum aldirnar hefur Skógajörðin orðið fyrir mikilli gróðureyðingu samfara jarðvegseyðingunni sem er þekkt víða á Íslandi.

 

Það kom að því að hópurinn ákvað að reyna að breyta gróðurástandi melanna svo unnt væri að gróðursetja í þá trjáplöntur síðar meir. Við getum sagt þetta hafi verið okkar koss sem við vonuðum að myndi leysa Skógalandið smátt og smátt úr þeim álagafjötrum sem erfiðir tímar fyrri alda höfðu á það lagt. Sáð var grasfræi af ýmsum tegundum og vöxturinn styrktur með áburðargjöf. Melarnir svöruðu áburðargjöf hver með sínum hætti. Svörun sumra var með ólíkindum, líkt og þeir leystust úr álögum og upp úr örfoka yfirborðinu birtist skrúðgarður marglitra melablóma. Þessi viðbrögð glöddu augu okkar sumarlangt. Þessi upplifun er kveikjan að fyrirsögn pistilsins og samlíkingunni  við prinsessuna og Dimmalimm.

 

Þessi reynsla vakti spurningar. Hvaðan komu öll þessi melablómafræ? Hversu lengi höfðu þau legið í jörðu? Hvers vegna voru viðbrögð melanna svona ólík þó þeir lægju steinsnar hver frá öðrum? Hvers vegna svöruðu sumir melanna nákvæmlega engu? Þessum spurningum er enn ósvarað.

 

Náttúran er merkileg kennslustofa og í henni má vekja forvitni, áhuga og skapandi kraft. Þar má læra hvað þarf til að vekja upp horfinn gróður og stuðla að frjósamri mold, undirstöðu lífs á þessum hnetti.

 

 

Það er viðeigandi að ljúka þessum pistli með tilvísun í orð náttúrufræðingsins og góðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar þar sem hann vísar til blómanna, smávinanna, foldar skartsins.

 

Smávinir fagrir, foldar-skart!

finn ég yður öll í haganum enn;

veitt hefir Fróni mikið og margt

miskunnar faðir; en blindir menn

meta það aldrei eins og ber,

og unna því lítt, sem fagurt er,

telja sér lítinn yndis –arð

að annast blómgaðan jurtagarð.

 

1) Jónas Hallgrímsson, Hulduljóð: Eggert, 4. erindi.

 

 

 

Gráreynir, tré ársins 2020
Gráreynir, tré ársins 2020

Kæru sveitungar
Mig langar að kynna mig til leiks hér á heimasíðunni ykkar sem farfugl,

sem kemur á vorin til Skóga en hverfur á haustin austur á bóginn til

annarra heimkynna.


Þegar sólin fer að hækka á lofti fer eitthvað innra með mér að

ókyrrast, ekki eftir því að komast til sólarlanda heldur í

Þorskafjörðinn að Skógum.
Ástæða þessarar togandi ástríðu hefur kannski gróðursett sig smátt

og smátt í eðlinu á þeim árum, sem ég hef eytt  í Skógum.

Kannski á það við mig, sem Steingrímur Thorsteinsson segir í ljóðinu um farfuglana:

“Í hjörtunum smár er hugur/sem hálfa leið þá ber”
Tilvitnunina fann ég í kaflanum um farfuglana í bókinni Úr dýraríkinu eftir
Bjarna E Guðleifsson

Það sem mig langar að gera er að senda pistla og myndir um hitt og þetta,
sem safnast hefur í sarpinn á liðnum árum með það í huga að vekja athygli
ykkar á því sem sjá má í Skógum bæði smátt og stórt, gamalt og nýtt, og þar
ber fyrir augu og eyru.
Í framhaldi af því vil ég nefna að það er okkur öllum sem erum að leggja okkur fram í
Skógum ávallt fagnaðarefni, þegar okkar kæru sveitungar, ungir og gamlir,
börn og fullorðnir, koma í heimsókn.

Að lokum langar mig að víkja að myndinni. Hún er af gráreyni sem er eitt af
fyrstu trjánum sem Jochum plantaði. Við vitum að tréð var staðsett í
norð-austur horni fyrstu girðingarinnar sem hann reisti. Það kom í ljós
þegar það sem eftir var af girðingunni var fjarlægt um eða upp úr 1980.

Ykkur kann að undra að þessi mynd fylgi, mynd af trénu nöktu. Fyrir því er
ærin ástæða. Á myndinni blasir við okkur sannleikurinn um þetta tré.
Það er staðsett eitt og óvarið fyrir norðan hrakviðrum af heiðum ofan.
Greinarnar eru nánast eins og hárgreiðslumeistari hafi greitt þær allar til
suðurs undan veðri og vindum. Það sést  líka á myndinni að jafnvel stofninn
er vægt sveigður í sömu átt. Fyrir staðfestu sína og úthald og það að halda
lífi í rúm 70 ár þá valdi Skógræktarfélag Íslands gráreyninn í Skógum "Tré
ársins" 2020.

 

 

29. maí 2020

Um virkjun vindorku

Ríkarður Örn Ragnarsson
Ríkarður Örn Ragnarsson

Undanfarna daga hefur verið mikið fjallað um vindorku og síðast í sjónvarpsfréttum á miðvikudaginn 28. maí sagði formaður Fuglaverndar að hann varaði við því að hafa vindmyllur í Breiðafirði. Nú er verkefni okkar ekki í Breiðafirðinum sjálfum en þar sem við erum á grannsvæði langar mig að koma eftirfarandi á framfæri.

 

Við erum sammála honum um að vernda þurfi viðkvæm svæði eins og farleiðir fugla, en algert bann yfir stærra svæði án stuðnings vísindalegra gagna væri ekki lögmætt.

 

Við höfum verið að þróa vindorkugarð í Garpsdal síðan 2018 og höfum gert ítarlega rannsókn á fuglalífi á Garpsdalsfjalli og nærsvæðum þess. Við réðum teymi innlendra fuglafræðinga til að meta flug og varp með því að fylgja alþjóðlegri aðferðafræði samkvæmt kröfum rannsókna í löndunum þar sem vindorka er orðinn vel þróaður iðnaður.

 

Írskur fuglafræðingur, sérfræðingur í fuglarannsóknum fyrir þróun vindorkuverkefna, var fenginn til að hafa yfirumsjón með að aðferðirnar væru í samræmi við leiðbeiningar Scottish Natural Heritage. Að auki voru allir arnarungar innan 10 km radíus merktir með GPS sendum og fylgst er með ferðum þeirra, sem styður niðurstöður okkar að ernir nýta ekki svæðið okkar uppi á Garpsdalsfjalli enda kjósa ernir að halda sig við strandsvæði þar sem þeir sækja í fisk og sjófugl.  Ratsjá könnun er einnig í gangi upp í fjalli til að  til að staðfesta frekar að Garpsdalsfjall er ekki í farleið.

 

Vindorkugarður á eyjunni Smöla er gefið sem dæmi um áhrif vindorkugarða á erni. Smöla var reist fyrir 18 árum, þegar lítið sem ekkert regluverk var til staðar. Ef réttar fuglarannsóknir hefðu verið gerðar áður en framkvæmdir hófust hefði það strax útilokað Smöla.

 

Eftir að hann var tekinn í notkun hafa miklar rannsóknir hafa verið gerðar í Smöla við samspil arna og vindmyllna. Þær sýna að ef hreiður er innan við 1 km frá vindmyllu eru lífslíkur arnarunga mjög skertar en þegar komið er fjær en 5 km hefur hún engin marktæk áhrif á lífslíkur fuglanna.

 

Versti galli Smöla er að vindmyllurnar eru staðsettar milli varpstöðva arnanna og fæðuöflunar út við sjó. Smöla er lítil lágrreist eyja og kjörlendi fyrir arnarvarp enda eru þar margir ernir en vindorku garðurinn tekur upp nánast tíund af eyjunni. Myllur á Smöla standa nærri og samsíða strandlínunni og standa þar að auki við sjávarmál þannig að snúningur spaðanna er einmitt í flugleið arnanna. Þetta er það sem veldur þessum mikla arnadauða í Smöla.

 

Staðsetningin okkar upp á Garpsdalsfjalli var valin með allar framangreindar takmarkanir í huga. Staðsetning er ca 6-7 km frá strandlínu uppi á fjallgarði í yfir 500 metra sem er mjög óhentugt búsvæði fyrir erni. Nálægasta arnarhreiður er í 8 km fjarlægð, vel utan við viðmiðunarmörk. Og ennfremur hefur sérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands í málefnum hafarna Kristinn Haukur  staðfest að merktu ernirnir hafi ekki ferðast nærri svæðinu okkar á Garpsdalsfjalli.

 

Viðkvæm svæði verður að sjálfsögðu að vernda en það verður að gera á vísindalegum grunni þar sem sönnunargögn styðja ákvörðunina. Við tökum rannsóknir á umhverfisáhrifum mjög alvarlega og leggjum þar að auki verkefnið fyrir mat rammáætlunar. Við hvetjum við alla til að kynna sér verkefnið og vonumst til að sjá sem flesta þegar niðurstöður umhverfismats verða kynntar von bráðar.

 

Í fréttinni var einnig talað um að upphlaup væri hjá vindorkuaðilum sem væru að gera tilkall til fjölmargra staða víðsvegar um landið. Þetta er ekki markmið EM Orku. Við höfum valið Garpsdal vegna þess að það er góður staður og við stefnum að því að þróa verkefnið vel í nánu samstarfi við samfélagið í Reykhólahreppi.

 

Fyrir hönd EM Orku,

Ríkarður Ragnarsson

Verkefnastjóri

  

Böðvar Jónsson
Böðvar Jónsson

Böðvar Jónsson skrifar 6. apríl 2020.

 

Þessi pistill er skrifaður til að vekja athygli á ákalli Aðalritara Sameinuðu þjóðanna um heimsvítt vopnahlé. Ein af þeim leiðum sem hann beitir til að afla þessu ákalli stuðnings er undirskriftasöfnun á netinu. Þetta er einstakt, aldrei áður hefur aðalritari Sameinuðu þjóðanna leitað til íbúa heimsins með þessum hætti og gefið þeim tækifæri til að styðja nokkurn málstað hvað þá svo mikilvægan sem þennan. Ég hef leyfi mér að líta á slíkt vopnahlé sem grunn að uppbyggingar mótvægi við niðurbrotið sem veiruáhlaupið veldur. Þetta er í ljósi þess að stöðugt berast fréttir af að verið sé að kalla hermenn til starfa til að takast á við veiruvarnir eða afleiðingar veirusjúkdómsins. Mér finnst ráðamenn ættu að fylkja sér fagnandi bak við þetta ákall því ekki senda þeir þá hermenn á vígvöllinn sem eru að takast á við veiruvandann, eða flugmóðuskip sem eru óvirk vegna sýkingarinnar um borð

 

Þeir sem vilja styðja ákallið með undirskrift geta nálgast undirskriftasíðuna hér.

En hver er staðan varðandi framgang hins heimsvíða vopnahlés aðalritarans? Um það má lesa með því að opna slóðina. Núna eru t.d. 70 þjóðir búnar að svara kallinu.

 

Ég sé fyrir mér Aðalritarann í fylkingarbrjósti milljóna manna og kvenna sem styðja ákall hans, rétt eins og þeir sem fylktu liði að baki Gandhi á sinni tíð og Martin Luther King þegar hann ávarpaði sína stuðningsmenn „I have a dream“. Í dag er ekki minna undir við sjáum ekki fyrir endann á faraldrinum. Í dag erum við í stríði gegn veirunni en að því loknu þarf að endurreisa. Það eru og verða engar krónur afgangs í stríðsleiki.

 

Það myndi gleðja mig að sjá íslensk stjórnvöld styðja ákallið um vopnahlé bæði ein og sér og leggja til við NATO sem heild að gera slíkt hið sama.

 

Höfundur er lyfjafræðingur og hefur séð um skógrækt í Skógum um árabil.

 

  

Fyrri síða
1
234567303132Næsta síða
Síða 1 af 32

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30