Tenglar

14. ágúst 2013 | vefstjori@reykholar.is

Act Alone - gjöfin lifir græðgina

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Kristinn H. Gunnarsson skrifar

 

Árið 2004 var árið sem íslenska efnahagsundrið náði sér fyrir alvöru á strik. Í viðskiptabönkunum höfðu búið um sig, sem eigendur og stjórnendur, afbragð annarra manna að þekkingu og skilningi á flóknu gangverki markaðshagkerfisins. Þeim hafði tekist að gera græðgina að musteri dyggðanna og leiðarljósi nútíma Íslendingsins; þar sem var gróðavon var líf og framtíð, en annars staðar gapti við gröfin köld.

 

Á bjargföstum grunni þessa nýja testamentis synjaði Landsbankinn, á þessum uppgangstíma, erindum frá útkjálkafólki á Vestfjörðum. Ekki kom til greina að fjármagna uppsetningu á kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal af því að engin framtíð væri í Arnarfirði og engin verðmæti í fasteignum þar. Hins vegar bauðst Landsbankinn til þess að lána fyrir verksmiðjunni ef hún yrði reist í Reykjavík og kalkþörungasetið yrði eftir sem áður grafið upp af hafsbotni í Arnarfirðinum og siglt með það suður. Það var talið hagkvæmt.

 

Íbúðakaupendur á Þingeyri fengu ekki lán til íbúðakaupa í Landsbankanum, með sömu rökum og gefin voru á Bíldudal. Það lá fyrir, að mati sérfræðinganna í Landsbankanum, að staðurinn ætti sér enga framtíð. Þingeyri væri búin að vera og þýðingarlaust að taka veð í verðlausum fasteignum þorpsins. Annars var Landsbankinn mjög fús til lánveitinga á vaxtarsvæðum landsins og ekkert sérstaklega kreisinn yfir veðstöðunni hverju sinni, eins og við vitum núna.

 

Þetta sama ár, 2004, réðust hjón, búsett á Ísafirði, í það þrekvirki að setja af stað leiklistarhátíð, Act Alone. Tilgangurinn var að að bæta samfélagið og gera það með framlagi listamanna ánægjulegra til búsetu og dvalar. Þetta hefur gengið vonum framar og um síðustu helgi fór fram í Súgandafirði tíunda hátíðin og komu samtals um 2300 manns á listviðburðina. Hafa aldrei verið fleiri gestir. Með vaxandi umfangi hátíðarinnar hefur bæst í hópinn sem stendur að hátíðinni.

 

Grundvöllur listamannanna, sem búa líklega við frekar takmarkaða fjárhagslega möguleika til þess að lifa af starfi sínu, var hins vegar öndverður við heimsmynd fjármálamannanna. Allt frá upphafi hefur verið ókeypis inn á hátíðina og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Listamennirnir vilja gefa af sér til hvers og eins sem vill njóta listarinnar. Framlag þeirra einkennist af undirliggjandi hvatningu til þess að víkja frá efnishyggjunni að inntaki og gildi þess lífs sem hver og einn getur búið sér í samfélagi með öðrum; frá Mammon að manninum. Listahátíðin er að öllu leyti andstæða græðginnar.

 

Ólíkari getur siðferðilegi grundvöllurinn ekki verið. Í hugarheimi fjármálasnillinganna var fjárhagslegur gróði eina verðuga markmiðið, en vestfirsku hjónin sóttu sinn gróða í ánægjuna af því að gefa af sér og bæta samfélagið þar sem þau búa. Þeirra framtak og annarra sem koma að undirbúningu hátíðarinnar stendur enn og dafnar með hverju ári. Enn er byggð á Bíldudal og Þingeyri, en Landsbankinn er löngu genginn fyrir ætternisstapann. Gjöfin gefur en græðgin eyðir. Gjöfin lifir græðgina.

 

Það er kannski kaldhæðni örlaganna að ísfirsku frumkvöðlahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil Kristjánsdóttir eru frá Bíldudal og Þingeyri.

 

- Kristinn H. Gunnarsson.

 

Act Alone

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30