Tenglar

13. mars 2022 | Sveinn Ragnarsson

Að leysa land úr álögum

Í bernsku las ég  ævintýri þar sem sagt var frá því að prinsessa kyssti frosk og hann breyttist í prins. Dimmalimm kyssti svan og það fór á sömu leið. Kossar þeirra beggja gáfu af sér afar óvæntan en gleðiríkan afrakstur.

 

En hvað er að leysa land úr álögum? Um langt skeið hefur undirritaður unnið ásamt litlum hópi, að uppgræðslu og skógrækt í landi Skóga í Þorskafirði. Undirlendið er lítið og hlíðin rís nokkuð bratt upp frá sjávarmálinu og einkennist af misbreiðum hjöllum sem skiptast á við skriður. Hjallarnir eru misvel  grónir sumstaðar þokkalega en annarsstaðar eru örfoka melar, öll mold á bak og burt með vindi eða vatni. Það verður því varla sagt að jörðin sé frjósöm. Gegnum aldirnar hefur Skógajörðin orðið fyrir mikilli gróðureyðingu samfara jarðvegseyðingunni sem er þekkt víða á Íslandi.

 

Það kom að því að hópurinn ákvað að reyna að breyta gróðurástandi melanna svo unnt væri að gróðursetja í þá trjáplöntur síðar meir. Við getum sagt þetta hafi verið okkar koss sem við vonuðum að myndi leysa Skógalandið smátt og smátt úr þeim álagafjötrum sem erfiðir tímar fyrri alda höfðu á það lagt. Sáð var grasfræi af ýmsum tegundum og vöxturinn styrktur með áburðargjöf. Melarnir svöruðu áburðargjöf hver með sínum hætti. Svörun sumra var með ólíkindum, líkt og þeir leystust úr álögum og upp úr örfoka yfirborðinu birtist skrúðgarður marglitra melablóma. Þessi viðbrögð glöddu augu okkar sumarlangt. Þessi upplifun er kveikjan að fyrirsögn pistilsins og samlíkingunni  við prinsessuna og Dimmalimm.

 

Þessi reynsla vakti spurningar. Hvaðan komu öll þessi melablómafræ? Hversu lengi höfðu þau legið í jörðu? Hvers vegna voru viðbrögð melanna svona ólík þó þeir lægju steinsnar hver frá öðrum? Hvers vegna svöruðu sumir melanna nákvæmlega engu? Þessum spurningum er enn ósvarað.

 

Náttúran er merkileg kennslustofa og í henni má vekja forvitni, áhuga og skapandi kraft. Þar má læra hvað þarf til að vekja upp horfinn gróður og stuðla að frjósamri mold, undirstöðu lífs á þessum hnetti.

 

 

Það er viðeigandi að ljúka þessum pistli með tilvísun í orð náttúrufræðingsins og góðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar þar sem hann vísar til blómanna, smávinanna, foldar skartsins.

 

Smávinir fagrir, foldar-skart!

finn ég yður öll í haganum enn;

veitt hefir Fróni mikið og margt

miskunnar faðir; en blindir menn

meta það aldrei eins og ber,

og unna því lítt, sem fagurt er,

telja sér lítinn yndis –arð

að annast blómgaðan jurtagarð.

 

1) Jónas Hallgrímsson, Hulduljóð: Eggert, 4. erindi.

 

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30