Álit og spurningar varðandi vegaframkvæmdir
Erindi til umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar
varðandi vegaframkvæmdir við innanverðan Breiðafjörð
Reykhólum við Breiðafjörð, 29. september 2011.
Einelti gagnvart börnum og unglingum, og vissulega fullorðnum líka, er ólíðandi óhæfa. Gildir ekki hið sama þegar byggðum sem berjast fyrir tilveru sinni eru meinaðar samgöngubætur? Fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu ásamt samtökum umhverfissinna og ráðuneyti umhverfismála leggur þessar byggðir í einelti í nafni náttúruverndar.
Er fólkið hér fyrir vestan ekki hluti af náttúrunni? Á það ekki sama rétt á samgöngum og aðrir landsmenn?
Hafa líffræðingar enn ekki áttað sig á því, að engu máli skiptir fyrir viðkomu arnarstofnsins þótt vegur sé lagður nálægt hreiðurstæðum eða jafnvel yfir þau? Jú, þeir virðast vera farnir að átta sig á því, að minnsta kosti dr. Þorleifur Eiríksson, forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða.
Á fréttavefnum visir.is í gær, þann 28. september, er rakið það sem fram kom í frétt á Stöð 2 þá um kvöldið. Þar segir að haförn hafi í fyrrasumar komið upp unga á miðju framkvæmdasvæði við austanverðan Vatnsfjörð austan Barðastrandar á sama tíma og sprengingar stóðu sem hæst nálægt hreiðrinu. Í fréttinni segir:
- Forstöðumaður Náttúrufræðistofu Vestfjarða segir erni ekki hræðast bíla jafnmikið og gangandi fólk. Sumarbústaðir séu mun verri á arnarsvæðum heldur en vegir. [...] Einn reyndasti leiðsögumaðurinn í Barðastrandarsýslum, Úlfar Thoroddsen á Patreksfirði, segir að þetta hafi litið illa út og mikið uppnám hafi orðið snemma sumars í fyrra og menn talið að umhverfisspjöll væru í uppsiglingu. Framkvæmdir höfðu, að því er talið var fyrir mistök, verið leyfðar á þeim tíma árs sem álitinn var sá viðkvæmasti fyrir arnarvarpið og var rætt um að stöðva vinnuna, þar sem ungi hafði uppgötvast í hreiðrinu.
- „Það hafði gerst að örninn, sennilega bara í banni, leyfði sér að verpa oní miðju framkvæmdasvæðinu, þar sem sprengingarnar og djöfulgangurinn var mestur,“ segir Úlfar. Forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða, Þorleifur Eiríksson, staðfestir að unginn hafi komist á legg úr umræddu hreiðri og framkvæmdirnar hafi engar afleiðingar haft fyrir varpið. Vitað sé að ernir láti tæki ekki trufla sig. Og örninn var enn á svæðinu í síðustu viku, þegar Stöð 2 var þar að mynda, og sat þá á steini í fjörunni nálægt þjóðveginum.
- Úlfar segir að svipað hafi gerst þegar vegur var fyrst lagður þarna fyrir um fjörutíu árum. Umhverfissinnar og gæslumenn arnarins hafi þá risið upp og sagt að þetta gengi ekki. Vegurinn hafi samt verið lagður og flestir haldið að örninn yfirgæfi hreiðursvæðið. „Aðlögunarhæfni arnarins var nú mun meiri en það. Hann bara fór upp í næsta stall.“ Og hefur verið þar síðan, segir Úlfar. Sjálfur telur hann að aðlögunarhæfni arnarins sé margfalt meiri en almennt sé viðurkennt.
Örninn á sér 3-4 hreiðurstæði og helgar sér óðal og veiðisvæði sem hann ræður yfir. Norðan Breiðafjarðar verpir sjaldan nema eitt par í hverjum firði.
Á fundi í Bjarkalundi í Reykhólasveit nýlega benti einn ræðumaður á, að erni var útrýmt alls staðar á landinu nema við Breiðafjörð. Íbúar hér þekkja hann og hafa alla tíð lifað með össu.
Þá koma fáeinar spurningar sem ég óska eftir að fá svör við.
1.
Hvers vegna má ekki taka mark á rannsóknarskýrslu Agnars Ingólfssonar um áhrif þverunar Gilsfjarðar á lífríkið þar sem hann rannsakaði það bæði fyrir og eftir? Hann telur örn, rauðbrysting, æðarfugl og fleiri tegundir í jafngóðum málum og áður. Má þá ekki eins þvera Þorskafjörð þar sem lífríkið er fátæklegra? Það verður að muna, að æðarfugl og fleiri fuglategundir kafa eftir æti.
2.
Hvaða lög friða berglög í sjávarbökkum neðan Þórisstaða við Þorskafjörð? Kristján Kristjánsson hjá Vegagerðinni segir lög koma í veg fyrir efnistöku þar til þverunar Þorskafjarðar.
3.
Í hvaða lögum nýtur vesturströnd Þorskafjarðar verndar umfram aðra staði sem heyra undir lög um verndun Breiðafjarðar og eru á náttúruminjaskrá? Ég bendi á friðland í Vatnsfirði þar sem kominn er vegur yfir Hörgsnes og bendi einnig á væntanlegan veg í Mjóafirði og Kjálkafirði.
4.
Er verjandi að eyða milljörðum króna umfram það sem verkið þarf að kosta til að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón á lífríkinu af völdum vegaframkvæmda? Vegagerðin þarf meira frelsi til að velja ódýrari og hagkvæmari kosti en hún virðist hafa nú.
– Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal.