Tenglar

5. október 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ályktun eldri borgara um fjárlagafrumvarpið

 

Lífeyrismál

 

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er ákvæði um að skerðingarhlutfall tekjutryggingar almannatrygginga lækki úr 45% í 38,5% á næsta ári og samhliða því lækki skerðingarhlutfall heimilisuppbótar að sama skapi. Landssamband eldri borgara fagnar því að með þessu er staðið við það loforð sem fram kom í athugasemdum með lögum um almannatryggingar og samþykkt voru á sl. sumri. Með þeim lögum og frumvarpi til fjárlaga 2014 verður búið að draga til baka fjórar af þeim skerðingum, sem eftirlaunaþegar fengu á sig árið 2009. Það er stór áfangi að ná því og mun koma þeim til góða sem lægstar lífeyristekjur hafa.

 

Samkvæmt frumvarpinu felur það í sér aukin framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar sem nemur 5 milljörðum króna og til viðbótar vaxa útgjöldin um 3,4 milljarða vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta á lífeyri. Þetta er gert á sama tíma og skorið er niður verulega til fjölmargra málaflokka. Það sýnir að ríkisstjórnin hefur fullan hug á að standa við loforð um að bæta kjör lífeyrisþega.

 

Jafnframt á að hækka frítekjumark ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna í samræmi við samkomulag sem gert var við lífeyrissjóðina fyrir árin 2013-2015. Er þetta annar áfangi þess og kostar ríkissjóð 650 milljónir króna. En árið 2015 á frítekjumarkið að vera orðið jafnt og frítekjumark örorkulífeyrisþega eða 27.000 kr.

 

Legugjald á sjúklinga

 

Landssamband eldri borgara leggst alfarið gegn því að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu skuli eiga að innheimta daggjald af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús. Þó upphæðin sé ekki há núna, þá er með því verið að brjóta það samkomulag sem hefur verið frá árinu 1936 þegar almannatryggingar voru lögfestar, að sjúklingar eigi allir jafnan aðgang að sjúkrastofnunum óháð efnahag. Það væri mikil afturför í velferðarmálum að hverfa aftur til ársins 1936 hvað þessi mál varðar.

 

Landssamband eldri borgara skorar á ríkisstjórn og Alþingi að finna aðra leið til að fjármagna sjúkrahúsrekstur en að taka gjald af þeim sjúklingum sem ekki eiga um annað að velja en leggjast inn á sjúkrahús vegna sjúkdóma eða slysa.

 

F.h. Landssambands eldri borgara,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30