Athugasemdir við furðufréttir frá Reykhólum
Eftir Ingvar Samúelsson
„Á Reykhólum vantar okkur hjúkrunarheimili. Það er óviðunandi að veikt aldrað fólk þurfi að verja síðustu árunum fjarri heimabyggð,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á staðnum.
Þessi furðulegu tíðindi getur að lesa í Morgunblaðinu 14. september, þar sem greint er frá hringborðsumræðum sem blaðið efndi til um stöðu og horfur á Vestfjörðum. Meðal þátttakenda var téður Einar Sveinn Ólafsson á Reykhólum.
Þó að Einar hafi aðeins átt heima skamma hríð hér vestra má telja furðulegt að honum skuli ekki vera kunnugt um tilvist Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum. Fyrr á þessu ári voru 25 ár liðin frá því að fyrsta heimilisfólkið fluttist þar inn og var afmælisins minnst með veglegum hætti. Ýmis félög og samtök stóðu að því mikla framtaki sem bygging Barmahlíðar var á sínum tíma en núna er heimilið að fullu í eigu Reykhólahrepps.
Í Barmahlíð eru herbergi og litlar íbúðir fyrir fimmtán manns, þar af 13 hjúkrunarrými og 2 dvalarrými eins og kallað er, en að auki er talsvert um tímabundnar hvíldarinnlagnir. Heimilið ber vissulega nafn með rentu: Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð, og tilvera þess veldur því, að „veikt aldrað fólk“ (eins og Einar orðar það) þarf ekki að verja síðustu árunum fjarri heimabyggð. Þvert á móti er pláss fyrir fleiri, ef eitthvað er.
Í Barmahlíð er setustofa fyrir heimilisfólk, aðstaða til tómstundastarfa, gott bókasafn og mikið að vöxtum og tæki til líkamsræktar, svo eitthvað sé nefnt. Þar eru einnig íbúðir og aðstaða fyrir starfsfólk eins og gefur að skilja. Allt frá upphafi hefur hjúkrunarforstjóri veitt Barmahlíð forstöðu og hefur aldrei vantað neitt á faglegu hliðina í þeim efnum frekar en öðrum. Að jafnaði er starfsfólkið um 12-15 manns en þar af eru margir í hlutastarfi þannig að stöðugildin eru færri. Engu að síður er Barmahlíð einn af þremur stærstu vinnustöðunum á Reykhólum.
Hvernig allt þetta hefur farið framhjá manni búsettum á Reykhólum misserum saman er óskiljanlegt.
Fram kemur í umræðunum að Einar Sveinn hefur áhyggjur af því fyrir hönd íbúa Reykhólahrepps að sjúkrabílum í Búðardal fækki úr tveimur í einn. Af því tilefni má benda á, að Reykhólar og Reykhólahreppur hafa líka aðgang að sjúkrabíl á Hólmavík, auk þess sem 17 kílómetrum styttra er milli Reykhóla og Hólmavíkur (58 km) en milli Reykhóla og Búðardals (75 km). Miklu styttra er þó frá þessum stöðum í innsveitir Reykhólahrepps eða sem nemur um 25-30 km.
Að lokum má nefna eitt enn sem Einar Sveinn fjallar um í hringborðsumræðunum í Morgunblaðinu. Í kafla sem ber fyrirsögnina Komast upp með ölvunarakstur vegna fjarveru lögreglunnar segir:
Enginn lögreglumaður er að staðaldri í Reykhólahreppi. „Þetta hefur meðal annars haft í för með sér að ölvunarakstur er þar algengur,“ segir Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar. Það skapi mikla hættu.
Reykhólahreppur er væntanlega ekki eina sveitarfélagið á landsbyggðinni þar sem enginn lögreglumaður er að staðaldri. Hins vegar er sennilegt að núna sé hann eina sveitarfélag landsins sem hefur fengið uppslátt í Morgunblaðinu þess efnis að ölvunarakstur sé þar algengur.
Einari Sveini (og öðrum sem ekki þekkja til í Reykhólahreppi) má benda á það í þessu sambandi, að þegar lögreglan á Hólmavík er kölluð út getur hún verið komin um Arnkötludal til byggða í Reykhólahreppi á korteri og út á Reykhóla á minna en hálftíma. Hvað skyldu nú vera margir staðir á landsbyggðinni þar sem lengra er í löggæslu?
______________
Höfundur er matráður á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð og í Reykhólaskóla.
- Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í morgun, 26. september, og síðan einnig hér á vefnum að ósk höfundar.
Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, fimmtudagur 26 september kl: 19:31
Góð ofanígjöf hjá Ingvari. Áfram Ingvar!