Tenglar

24. maí 2012 |

Atvinnulíf og sjávarútvegur á Vestfjörðum

Neil Shiran Þórisson.
Neil Shiran Þórisson.

Neil Shiran Þórisson,

framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða:

 

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) hefur undanfarin ár lagt vinnu í að greina stöðu atvinnulífs á Vestfjörðum til þess að varpa ljósi á samkeppnishæfni svæðisins. Farið var í þessa vinnu meðal annars með hliðsjón af ályktunum Fjórðungsþings Vestfirðinga. Félagið á að vera leiðandi í mótun atvinnustefnu fjórðungsins og almennt að taka þátt í faglegri umræðu um uppbyggingu atvinnulífs svæðisins. Niðurstöðurnar úr greiningarvinnu félagsins staðfesta margt af því sem hefur almennt verið í umræðunni í fjölda ára.

 

Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugrein svæðisins. Greinin skapar mestu tekjurnar, greiðir mestu launin og skapar mestu margfeldisáhrifin. Mörg iðnaðarfyrirtæki grundvalla rekstur sinn á að þjónusta sjávarútvegsfyrirtækin. Fyrir launin, sem greidd eru sjómönnum, fiskvinnslufólki, skrifstofufólki og stjórnendum, eru m.a. keypt matvæli og aðrar nauðsynjavörur og þau eru þar með forsenda fyrir verslun og þjónustu á svæðinu. Í þessu samhengi má ekki gleyma útsvarinu og fasteignagjöldum sem launþegar svæðisins greiða til sveitarfélaga svo hægt sé að viðhalda grunnþjónustu og lífsgæðum sem Vestfirðingar búa við. Undirstaða atvinnulífs á svæðinu og samfélagsins er sjávarútvegur og því mikilvægt að rekstrarumhverfi greinarinnar sé eins og best verður á kosið.

 

Nú liggja fyrir á Alþingi frumvörp sem geta haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi greinarinnar og því ekki úr vegi að skoða nánar stöðuna og möguleg áhrif af þeim breytingum sem lagðar eru til.

 

Núverandi kerfi

 

Frá upphafi núverandi kvótakerfis hafa verið deilur um kerfið. Í upphafi voru útgerðarmenn mótfallnir kerfinu. Byggðaröskun vegna framsalsins var oft nefnd í umsögnum, greinargerðum og umfjöllunum um kerfið þegar því var komið varanlega á. Verðmyndun á aflaheimildum hefur oft verið umtalsefni og erfitt að sjá rök í forsendum og útreikningum. Vist- og fiskifræðingarnir voru ákaflega umdeildir þegar skerðingar áttu sér stað. Kerfið hefur í stuttu máli verið umdeilt en það hefði líklega gilt um hvaða kvótakerfi sem hefði verið sett á. Það að finna markaðsdrifið nýtingarréttarkerfi á auðlindinni með byggða- og atvinnuþróunarmarkmiðum með sjálfbærni að leiðarljósi er og verður ávallt erfitt verkefni. Það er því mikilvægt að einhverju leyti að slíta þá umræðu í sundur.

 

Verðmyndun og lánveitingar til kvótakaupa hafa haft mikil áhrif í sjávarútvegi. Það má vel velta vöngum yfir því hvernig verðmyndun á kvóta hefði verið ef að aðgengi að fjármagni hefði verið af skornum skammti til þess að stunda viðskipti með kvóta. Jafnframt má spyrja sig að því hvernig heilt fjármálakerfi gat lesið það út úr núgildandi lögum um fiskveiðistjórnun að lánveitingarnar og lánasamningar sem byggðu á tryggingum tengt kvóta væru eðlilegir viðskipahættir.

 

Kerfið á sínar jákvæðu hliðar sem mega ekki gleymast í umræðunni. Í samanburði við Norðmenn þá eru Íslendingar með betri afkomu í sjávarútvegi. Og grundvallast sú afkoma af um helmingi minna heildarmagni en Norðmenn hafa í sínum sjávarútvegi. Í úttektum og greiningum hefur komið fram að ástæður þess að Íslendingar standi sig vel sé meðal annars vegna kvótakerfisins.

 

Staða og þróun Vestfjarða

 

Það er of mikil einföldun að kenna núverandi kvótakerfi alfarið um vanda Vestfjarða hvað mannfjöldaþróun varðar. Við val á búsetu skipta félagslegir og þjónustulegir þættir miklu máli og þarf að skoða vel þessa áhrifaþætti í samhengi við atvinnu- og byggðastefnu fjórðungsins. Ekki má svo gleyma því að tækniframfarir hafa haft mikil áhrif á hversu mikinn mannafla þarf við útgerð og vinnslu. Tækniframfarir almennt hafa fækkað störfum. Betri samgöngur hafa auðveldað flutning á hráefni til vinnslu annars staðar, sem skapað hafa störf annars staðar. Tækniframfarir og bættar samgöngur eru mikilvægir og jákvæðir þættir varðandi almenna framþróun svæðisins og því auðvelt að finna sökudólg í kvótakerfinu og kenna því um hnignun Vestfjarða.

 

Velferð svæða

 

Velferð Vestfjarða mun byggjast á öflugu og samkeppnishæfu atvinnulífi. Hagfræðin skilgreinir eftirfarandi grunnþætti fyrir samkeppnishæfni svæða:

  • Velferð svæða byggist að stórum hluta á framleiðni einkarekinnar atvinnustarfsemi.
  • Nýsköpun er mikilvægur þáttur í velferð svæða.
  • Rannsóknir, þróun, geta til áhættufjárfestinga og fjöldi nýrra sprotafyrirtækja eru mælikvarðar á velferð.

Ofangreint er mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að hugsa um stöðu og framtíð Vestfjarða.

 

Vestfirðir og sjávarútvegurinn

 

Eftirfarandi eru helstu niðurstöður úr greiningarvinnu Atvest:

 

Á Vestfjörðum er bolfiskvinnsla undirstaða sjávarútvegs, aðallega þorskur, ýsa og steinbítur.

 

Mikill óunninn afli er nú þegar fluttur frá svæðinu og hafa framleiðendur ekki talið hagkvæmt að keppa á markaði um þann afla sem veiddur er á Vestfjarðamiðum.

 

Vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki voru rekin með tæplega eins milljarðs króna tapi árið 2009 á sama tíma og íslenskur sjávarútvegur í heild skilaði um 27 milljarða króna hagnaði.

 

Rekstrarafgangur vestfirsks sjávarútvegs fyrir fjármagnsliði, skatta og fyrningar (EBITDA) var um 4,1 milljarðar króna árið 2009, þar af 1,75 milljarðar króna í fiskveiðum og um 2,35 milljarðar króna í vinnslu.

 

Skuldir eru hlutfallslega meiri í greininni á Vestfjörðum en á landinu öllu. Undir eðlilegum kringumstæðum og almennum viðmiðum þá myndi greinin teljast ófær um að standast skuldbindingar til lengri tíma. Skuldirnar hafa að mestum hluta orðið til vegna fjárfestinga í kvóta á árunum 2005-2006. Í þessu samhengi þarf einnig að hafa í huga að fyrir efnahagshrunið 2008 var sterk staða krónunnar þungbær fyrir rekstur fyrirtækjanna, þar sem greinin byggir afkomu sína á útflutningi. Á þessum tímum var líka mjög gott aðgengi að fjármagni sem leiddi til mikilla fjárfestinga í aflaheimildum og verðmyndun á kvóta sem var torskilin. Við hrunið stökkbreyttust skuldirnar með tilheyrandi áhrifum á efnahag fyrirtækjanna og hefur það töluverð áhrif á stöðu fyrirtækjanna eins og þær birtast í greiningum í dag.

 

Án þess að taka mið af þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi, þá hefði þurft um 60-70% niðurfellingar lána í greininni svo að hún myndi teljast innan almennra marka um skuldir og skuldaþol.

 

Vestfirskt hagkerfi byggir að stórum hluta á sjávarútvegi enda skapar greinin um 53% af öllum tekjum sem atvinnugreinar svæðisins skapa. Velferð Vestfjarða er því samofin afkomu greinarinnar og framtíðarmöguleikum hennar.

 

Áhrif skattlagningar – veiðigjald og sérstakt veiðigjald

 

Gert er ráð fyrir að leggja veiðigjöld upp á alls 1,4 milljarða króna á vestfirskan sjávarútveg, samkvæmt útreikningum út frá forsendum frumvarps ríkisstjórnarinnar. Það er um 1,1 milljörðum króna meira en núverandi veiðigjöld, eða sjöföldun veiðigjalda í fjórðungnum. Fjölmargir umsagnaraðilar um málið hafa bent á að þetta sé of mikil skattlagning. Fyrir vestfirskan sjávarútveg er verið að leggja skatt á fyrirtæki sem skila tapi. Það þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að það gerir stöðuna enn verri fyrir mörg fyrirtæki. Það ætti að útfæra skattlagninguna í takt við hvernig tekjuskattur fyrirtækja reiknast, þ.e.a.s. með tilliti til rekstrarniðurstöðu viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækis.

 

Forsendur veiðigjaldsins taka mið af frammistöðu sjávarútvegs á landinu öllu, en ljóst er að frammistaða sjávarútvegs á Vestfjörðum er lakari en á landinu öllu, það þarf að taka mið af þessu við endanlegar útfærslur á frumvarpinu. Slíkt væri hægt með því að vera með útfærslur sem byggja á sama grunni og tekjuskattur fyrirtækja.

 

Töluverð sátt ríkir í þjóðfélaginu um að sjávarútvegurinn greiði gjald fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Slík skattheimta má þó ekki koma í veg fyrir eðlilega þróun atvinnugreinarinnar og getu til að standa undir góðum lífskjörum þjóðarinnar.

 

Afleiðingar skattanna

 

Sjávarútvegurinn getur brugðist við hærra veiðigjaldi meðal annars með því að draga úr öðrum rekstrarkostnaði eða auka tekjur sínar t.d. með því að hækka verð. Ef auknum álögðum gjöldum er ekki velt út í afurðaverð á markaði þá þarf að draga saman í útgjöldum. Hér er átt við útgjöld á borð við aðkeypta þjónustu, laun, aðföng, olíu o.fl. Lægri laun og samdráttur í aðkeyptri þjónustu bitnar strax á starfsmönnum og þjónustuaðilum, skilar sér strax í lægri útsvarstekjum og hefur í alla staði neikvæð áhrif á nærsamfélagið. Þegar ástandið hefur verið erfitt í lengri tíma á Vestfjörðum þá getur skattlagningin því gert illt verra.

 

Of mikil skattlagning dregur úr framleiðni sem bitnar á þjóðarbúinu og sérstaklega svæðum sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi. Í þessu er mikilvægt að hafa í huga að til þess að drífa áfram hagvöxt og velferð verður að verða framleiðniaukning. Svæði eins og Vestfirðir þurfa sárlega á framleiðniaukningu og hagvexti að halda til þess að snúa við neikvæðri þróun.

Íslenskur sjávarútvegur hefur ákveðna yfirburði á markaði í dag í harðri samkeppni við t.d. Norðmenn. Framundan eru spennandi tímar með miklum möguleikum til að auka enn framleiðni og þar með samkeppnisforskot Íslendinga. En þá þarf að fjárfesta í mannauði, tækni og mörkuðum og til þess þarf greinin að hafa burði. Vestfirðingar eiga allt sitt undir því að vel takist til í bolfiskveiðum og vinnslu og sjávarútvegurinn á svæðinu nái vopnum sínum á ný og fyrri styrk.

 

Sú skattlagning sem áætluð er að leggja á greinina, dregur beinlínis úr samkeppnishæfni svæðis eins og Vestfjarða þar sem verið er að taka fjármuni úr sjávarútveginum sem gætu nýst til að fjárfesta í nýsköpun, rannsóknum og frekari þróun. Það þarf að skoða lausnir og leiðir til að örva þessa fjárfestingu samhliða því að skattlagningarkerfið taki mið af rekstralegri stöðu fyrirtækjanna.

 

Kvótinn og pottar

 

Vestfirskur sjávarútvegur hefur fjárfest mikið undanfarið í aflaheimildum með tilheyrandi skuldsetningu. Þær skuldir eru enn til staðar og grundvöllur fjárfestinganna var að auka stærðarhagkvæmni fyrirtækjanna og bæta þannig framlegð til langs tíma. Von um sterkari veiðistofna í framtíðinni hafði þarna mikil áhrif, enda sumar útgerðirnar þegar búnar að taka á sig mikla skerðingu, sérstaklega í þorski. Í áðurnefndu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að núverandi rétthafar nýtingar á auðlindinni fái að njóta að fullu aukningar aflamarks, heldur verður farið með hluta viðbótarafla í potta. Þetta rýrir verðmæti nýtingarréttarins og þar með er grundvöllur fjárfestingarinnar veikari en þegar farið var í hana. Þessi staða ein og sér kallar á fjárhagslega endurskipulagningu og þegar við bætist sérstakt veiðigjald þá eru hvatar til áframhaldandi rekstrar í greininni afar takmarkaðir.

 

Það er þversögn í því að stjórnmálamenn ætli að nota pottana til að standa við bakið á veikburða sjávarbyggðum á sama tíma og verið er að rýra verðmæti fjárfestinga í greininni og með því sjávarbyggðirnar. Pottarnir verða því til viðbótar alltaf skammtímaráðstafanir en góður rekstrargrundvöllur greinarinnar verður hins vegar framtíðarlausnin.

 

Ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja

 

Það fylgir því mikil ábyrgð, sérstaklega gagnvart sjávarbyggðum, að fara með nýtingarrétt á sjávarauðlind þjóðarinnar. Eins og fram hefur komið þá er sjávarútvegur stærsti hluti hagkerfis Vestfjarða og líklega fá atvinnusvæði á landinu sem hafa svo einhæft atvinnulíf.

 

Afkoma og umgengni sjávarútvegsfyrirtækja um auðlindina er því grundvallar hagsmunamál íbúanna. Það er mikilvægt að greinin sé arðsöm og skili rentu, en ekki síður að sú renta skili sér til þjóðarinnar, og þá sérstaklega íbúa sjávarbyggða sem nýta verðmætin.

 

Fyrirtæki sem hafa farið óvarlega og ekki kunnað fótum sínum forráð verða ekki drifkraftur framfara og standa ekki undir efnahag íbúa eða sveitarfélaga. Ofur skuldsett fyrirtæki verða þannig vaxtaþrælar sem ekki verður byggt á þar sem allur fiskveiðiarðurinn rennur til lánadrottna.

 

Það er því gríðarlegt hagsmunamál íbúa á Vestfjörðum að greint verði hvers vegna staða sjávarútvegs er lakari en annarsstaðar á landinu. Viðsnúningur í afkomu fyrirtækjanna er forsenda byggðar, en ofurskattlagning ríkisins með óhóflegum auðlindaskatti veikir efnahagslegu hvatana til að stunda sjávarútveg og hefur því óhjákvæmilega áhrif á vestfirskt atvinnulíf.

 

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar

 

Á meðan að áætlað er að þessir nýju skattar og afrakstur potta eiga að renna í ríkissjóð liggja ekki sjáanlega fyrir neinar haldbærar tillögur eða stefna um hvernig viðkvæmar sjávarbyggðir sem standa verr, eins og Vestfirðir, geti snúið við neikvæðri þróun undanfarinna áratuga.

 

Í gegnum árin og meðal annars í góðærinu fyrir hrunið 2008 var hlutfallslega lítið um sértækar aðgerðir til þess að sporna við neikvæðri þróun veikra samfélaga og fjármunum að mestu leyti varið í uppbyggingu á grunngerð. Í þessu samhengi er þó hægt að benda á jákvæðar byggðaaðgerðir sem eflt hafa rannsóknir og þróun á svæðinu, en í samanburði við vanda svæðisins þá hefðu þær þurft að vera margfalt stærri og viðameiri.

 

Vestfirðir munu ekki blómstra nema með öflugu einkareknu atvinnulífi. Sjávarútvegurinn er og verður hornsteinn atvinnulífsins á svæðinu. Þrátt fyrir jákvæða uppbyggingu í ferðaþjónustu er sú grein enn að vaxa og umfang hennar þarf að margfaldast töluvert til þess að hafa veruleg áhrif á svæðisbundna hagkerfið. Því til viðbótar er ekki líklegt að einhvers konar stóriðja standi undir afkomu í fjórðungnum heldur munu menn horfa meira í átt að tækifærum í anda sjálfbærni. Í ljósi stefnu- og andvaraleysis í stærri málefnum veikari byggðalaga og jaðarsvæða, þá er aukin skattlagning, þar sem fjármunir eru fluttir úr fjórðungnum til úthlutunar frá ríkisvaldinu ekki trúverðug leið til að bæta stöðu Vestfjarða. Vestfirðingar verða að standa saman gegn slíku ranglæti.

 

Sterkar vísbendingar eru um að vestfirskur sjávarútvegur muni ekki standa undir fyrirhuguðu veiðigjaldi. Það er því réttmæt krafa íbúa að stjórnvöld láti reikna út samfélagslegan kostnað við líklegt hrun atvinnulífs í fjórðungnum og hvernig verði brugðist við vandamálum tengd því í framtíðinni.

 

- Neil Shiran Þórisson.

framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30