Tenglar

4. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Aukin áhrif í Evrópusamstarfi

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson þingmaður NV-kjördæmis skrifar:

 

Það felst engin einangrunarhyggja í því að vilja ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Alls ekki. En sú skoðun að aðild að Evrópusambandinu sé forsenda alþjóðlegs samstarfs lýsir á hinn bóginn ótrúlegri einsýni. Við Íslendingar tökum þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi. Bæði vegna þess að það er okkur í hag en einnig vegna þess að við teljum að slíkt alþjóðlegt samstarf sé almennt til góðs fyrir heimsbyggðina.

 

Evrópa er langstærsta viðskiptasvæði okkar. Evrópsk viðhorf lita að margvíslegu leyti grunngildi okkar samfélags. Við erum Evrópubúar og höfum aldrei þurft að færa sérstaklega heim sanninn fyrir því. Gagnstætt til að mynda ýmsum ríkjum í austanverðri álfunni, sem hafa verið á ýmsum tímum þvinguð til þess að taka sér stöðu með hinum voldugu Sovétríkjum og Rússlandi.

 

Sú sögulega, hernaðarlega og pólitíska staðreynd átti til að mynda mikinn þátt í áhuga þessara ríkja margra á að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þessu kynntist ég meðal annars á sínum tíma, þegar við þáverandi fulltrúar utanríkismálanefndar Alþingis sóttum Pólland heim í aðdraganda aðildar landsins að Evrópusambandinu.

 

Við eigum val

 

Þessar aðstæður allar þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum stöðu okkar í Evrópu. Við búum að þeirri blessun að eiga val, gagnstætt ýmsum þjóðum. Við hljótum því að taka afstöðu til málsins í ljósi hagsmuna okkar, hugmynda okkar um fullveldi og þeirrar stöðu sem við viljum skipa okkur í samfélagi þjóðanna.

 

Við erum frjáls að því að velja okkur leið, án utanaðkomandi þvingana. Og við getum haft áhrif og styrkt stöðu okkar, í góðu samstarfi við Evrópusambandið án aðildar, á grundvelli EES-samningsins.

 

Tillaga um að fara aðrar leiðir

 

Þetta er kjarni þingsályktunartillögu sem ég var fyrsti flutningsmaður að á Alþingi ásamt 13 öðrum þingmönnum, sem nú sitja í þremur þingflokkum. Tillagan var svohljóðandi:

 

Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

 

Nú hefur þessi tillaga verið afgreidd samhljóða með svohljóðandi hætti:

 

Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

 

Valkostur við ESB-vegferðina

 

Þetta eru talsverð tíðindi. Hér er Alþingi að segja með skýrum hætti, að við getum haft meiri áhrif í samstarfi við ESB. Þessi tillaga sem hér hefur verið afgreidd felur í sér raunverulegan valkost við þá vegferð sem á að enda inni í Evrópusambandinu.

 

Tillagan sem um ræðir byggir algjörlega á niðurstöðu nefndar allra þáverandi þingflokka, sem Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra leiddi og skilaði niðurstöðu vorið 2007 og ég átti meðal annars sæti í. Nefndin lagði fram ítarlegar tillögur um „að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi“.

 

Klár stefnumótun Alþingis um styrkingu EES-samstarfsins

 

Síðan hefur ýmislegt gerst. Áhersla beggja núverandi ríkisstjórnarflokka hefur á hinn bóginn gert það að verkum, að lítil rækt hefur verið lögð við þessa aðferð sem nefnd Björns Bjarnasonar setti fram. Þess í stað hefur allt stefnt í eina átt; í átt til aðildar að ESB.

 

Núna þegar það mál er allt komið í hreint óefni er mjög brýnt að við hyggjum að öðrum leiðum, sem þjóni hagsmunum okkar sem þjóðar, stuðli að áframhaldandi góðum samskiptum og blómlegum viðskiptum við ríki ESB, en tryggi um leið meiri áhrif okkar á stefnumótun og ákvarðanir innan bandalagsins. Sú leið er fær og hún er gerleg, eins og sést á tillögunum frá 2007, sem Alþingi hefur nú samþykkt.

 

Í þessari samþykkt Alþingis felst mjög skýr stefnumótun og valkostur við ESB-aðildina. Áköfustu talsmenn ESB, svo sem utanríkisráðherrann, hafa fundið EES samstarfinu flest til foráttu. Nú hefur Alþingi talað einum rómi með skýrum hætti um að við eigum að nýta okkur kosti EES-samningsins til frekari áhrifa og styrkja það samstarf. Þetta eru því talsverð tíðindi á sama tíma og ríkisstjórnin vill greinilega stefna í allt aðra átt, út úr EES-samstarfinu og inn í ESB.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30