Baráttan fyrir vegi samkvæmt B-leið er ströng og tekur langan tíma
Það var góð grein sem Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal birti á vefjunum reykholar.is og bb.is fyrir skömmu og ber yfirskriftina: Um vegamál í Gufudalssveit fyrr og nú. Rekur hann í stuttu máli samgöngumál Gufudalssveitar frá 1950 fram til þessa. Þeim fer ört fækkandi sem vita hvað íbúar þeirrar sveitar og annarra bjuggu við í samgöngum fyrr á tímum. Sem betur fer hafa samgöngur batnað nokkuð í Gufudalssveit á 60 árum. Samt vantar verulega á að þær teljist sambærilegar við það, sem flestir landsmenn búa nú við í þeim efnum og telja til sjálfsagðra lífsþæginda. Það slæma og ótrúlega varðandi samgöngur í Gufudalssveit felst í því, að enn sér alls ekki til lands varðandi áformaðar, brýnar endurbætur í þeim efnum. Dregnar voru upp þrjár veglínur til skoðunar en tvær voru lagðar til hliðar.
Önnur: A-leið fólst í þverun fyrir landi frá Skálanesi í Reykjanes en var talin of dýr lausn. Hin: D-leið fylgdi núverandi vegarlínu í megindráttum en var hafnað, enda endurlagning yfir Ódrjúgs- og Hjallaháls með þeim ókostum sem fylgja hæð og halla.
Eftir stóð B-leið: Vegur um láglendi með öllum þeim kostum sem fylgja slíkri legu. Íbúar og sveitarstjórnir sameinuðust um að mæla með þeirri lausn og styðja. Þrátt fyrir það hefur ekkert gerst í framkvæmdum. Hvers vegna? Vegna óbilgjarnrar afstöðu landeigenda á Hallsteinsnesi. Þeir vilja ekki veg um eignarlandið, þeir benda á veg um land annarra. Land þeirra virðist svo einstakt að ekki má nýta hluta þess í þágu almennings. Hvílík forréttindi. Aðrir landeigendur eiga að láta land undir veg, en ekki þeir. Aðrir landeigendur eiga að þola röskun lands og umhverfis, en ekki þeir. Leiðrétta ber stöðu sem þessa strax með viðeigandi lögum.
Endurbygging vegar samkvæmt D-leið um Gufufjörð, Ódrjúgsháls, Djúpafjörð og Hjallaháls mun hafa margfalt meiri röskun umhverfis í för með sér en vegur lagður með gát um Teigsskóg samkvæmt B-leið. Hver er munurinn á landinu eða hugsanlegu raski? Enginn munur! Munurinn liggur í huglægu mati. Aurhlíðar, gras- og berjateigar, melar og mýraflákar virðast í minna áliti en land þakið birkikjarri. Eina leiðin til að komast í gegnum hindrun landeigenda á Hallsteinsnesi og koma á réttlæti og jöfnuði fyrir samfélagið er að setja strax afdráttarlaus lög, sem veita algjöran forgang og ýta öllum hindrandi lögum til hliðar. Nú hefur verið í gangi söfnun undirskrifta íbúa í Barðastrandarsýslum og í Ísafjarðarbæ með áskorun til alþingismanna Norðvesturkjördæmis um stuðning við löggjöf sem tryggir vegargerð samkvæmt B-leið.
Áskorunin hefði mátt vera til allra þingmanna á Alþingi með áherslu á það, að nýr vegur samkvæmt B-leið er ekki aðeins hagsmunamál Barðstrendinga, Ísfirðinga og annarra Vestfirðinga. Nýr vegur samkvæmt B-leið er hagsmunamál fyrir alla vegfarendur sem leið eiga um svæðið. Hagsmunirnir felast í góðum og öruggum vegi til framtíðar. Hagsmunirnir felast í vegi um láglendið með þeim kostum fyrir vegfarendur sem slík staðsetning býður umfram veg yfir tvær heiðar ásamt farartálmum og hættum, sem fylgja hæð og halla. Fjallvegir eru þegar of margir á Vestfjörðum.
Baráttan fyrir vegi samkvæmt B-leiðinni og stuðningur snýst um góðan kost gegn slæmum, um öryggi gegn óvissu, um að sneiða hjá hættum sem fylgja fjallvegum. Eiga andsnúin sjónarmið þröngra sérhagsmuna að ráða ferðinni? Vonandi segja allir Vestfirðingar: Nei!
- Úlfar B. Thoroddsen.