Birna Lárusdóttir í 1.-2. sæti
Halldór Halldórsson skrifar:
Það er glæsilegur hópur sem býður fram krafta sína fyrir okkur íbúa Norðvesturkjördæmis. Í þeim hópi er samstarfsmaður minn og félagi, Birna Lárusdóttir, en undanfarin 11 ár höfum við unnið saman að bæjarmálum í Ísafjarðarbæ. Fyrir þann tíma þekkti ég hana ekki en hafði eins og aðrir oft heyrt hana tala sem fréttamaður í útvarpinu: „Þetta er Birna Lárusdóttir sem talar frá Osló.“
Samstarfið við Birnu hefur verið einstaklega gott enda er hún fylgin sér og traust. Þegar ákvörðun hefur verið tekin í málum, þá fylgir hún þeim eftir og veitir þeim stuðning sinn. Þannig er hún og þannig vinnur hún. Alltaf samkvæm sjálfri sér - alltaf traust.
Ég tel að Birna eigi erindi á Alþingi. Þetta segi ég vegna þess að ég þekki hana og hef unnið með henni við að stýra sveitarfélagi sem hefur gengið í gegnum margvíslega erfiðleika og oft verið á brattann að sækja. Sú reynsla er verðmæt þegar kemur að því að takast á við þá erfiðleika sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir núna.
Ég hvet sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi til að setja Birnu Lárusdóttur í 1.-2. sæti í prófkjörinu 21. mars.
- Halldór Halldórsson,
bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.