Dýrafjarðargöng fyrir kosningar
Ásmundur Einar Daðason alþm. skrifar
Í því ágæta blaði Vestfirðir, sem ritstýrt er af Kristni H. Gunnarssyni fyrrverandi alþingismanni, birtist nýverið frétt undir yfirskriftinni „Óvissa um Dýrafjarðargöng“. Í umræddri frétt er látið liggja að því að óvissa sé uppi um það hvort framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist á næsta ári líkt og áætlanir gera ráð fyrir. Ástæðan sé sú, að búið sé að boða kosningar næsta haust og það setji verkið í uppnám. Ólína Þorvarðardóttir var fljót að grípa boltann frá Kristni H. Gunnarssyni á lofti og hélt því fram á vefsíðu sinni, að sannleikurinn væri sá að aldrei hafi staðið til að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á næsta ári.
Það hefur margoft komið fram, að ekki verði boðað til kosninga fyrr en mikilvæg mál klárast. Dýrafjarðargöng eru klárlega eitt þessara mikilvægu verkefna, enda hafa stjórnvöld unnið að því að verkið verði boðið út næsta haust og framkvæmdir fari á fullt á næsta ári.
Kosningar eiga ekki að hafa áhrif!
Vegna þeirra atburða sem gerst hafa á undanförnum vikum í íslenskum stjórnmálum, þá hefur verið rætt um að flýta kosningum. Stjórnarandstaðan hefur lagt ríka áherslu á að kjósa strax og vill helst engin mál klára fyrir fyrir kosningar. Undirritaður hefur verið talsmaður þess að ríkisstjórnin klári mikilvæg verkefni sem liggja fyrir áður en boðað verður til kosninga. Það er mikilvægt að flýting kosninga hafi ekki áhrif á framkvæmdahraða við Dýrafjarðargöng, enda hafa íbúar á svæðinu beðið allt of lengi eftir þessari nauðsynlegu framkvæmd.
Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 er nú í vinnslu í samgöngunefnd Alþingis. Þar er gert ráð fyrir því að verkið verði boðið út í haust og framkvæmdir hefjist á næsta ári. Ráðherra samgöngumála hefur sagt að til standi að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust og hefja framkvæmdir á næsta ári. Samgönguáætlun er eitt þeirra mála sem ríkisstjórnin hefur sett á málaskrá sína, enda er mikilvægt að hún verði afgreidd. Til að tryggja að tímaáætlun standist, þá eigum við bjóða verkið út strax að því loknu. Við vinnslu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 verður síðan gert ráð fyrir fjármagni í Dýrafjarðargöng í samræmi við samgönguáætlun.
Klárum mikilvæg mál
Það þarf að klára að afgreiða samgönguáætlun, bjóða út verkið og þar með tryggja að fjárlagafrumvarp næsta árs innihaldi fjármagn til verksins. Það hefur komið fram almenn andstaða við þau sjónarmið, að mikilvægt sé að klára ákveðin mál fyrir kosningar. Samgönguáætlun með Dýrafjarðargöng innanborðs er mál af þeirri stærðargráðu, að menn eiga að sammælast um að skapa ekki óþarfa óvissu um málið og afgreiða það áður en kosið verður. Það stendur ekki annað til af hálfu stjórnvalda en að fyrirliggjandi tímaáætlun haldi og að framkvæmdir verði komnar á fullt á næsta ári!
Ásmundur Einar Daðason,
þingmaður Norðvesturkjördæmis og formaður þingflokks Framsóknarflokksins.