Tenglar

11. apríl 2009 |

Eigna- og hagsmunatengsl í stjórnmálum

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir skrifar:

 

Nýlega voru settar reglur um fjármál alþingismanna, líkt og tíðkast víða erlendis. Enginn vafi er á því að reglur af þessu tagi eru til mikilla bóta og til þess fallnar að efla traust og gegnsæi stjórnarathafna. Það er þinginu og þeim sem stýrðu vinnunni til sóma að þetta skyldi til lykta leitt í ágætri sátt.

 

Samkvæmt reglunum ber alþingismönnum að gefa upp tilteknar eignir og gjafir. Þeim ber ekki að upplýsa um eignatengsl maka eða skuldir, en hugsanlega verður slíkum ákvæðum bætt við síðar. Satt að segja vona ég að svo verði.

 

Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.

 

Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg.

 

Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og „taka allt upp á borðið" án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.

 

Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?

 

Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?

 

Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.

 

Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.

 

Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.

 

- Ólína Þorvarðardóttir, skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30