Tenglar

19. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Eigum við að endurreisa virkið á Reykhólum?

Guðjón Dalkvist Gunnarsson.
Guðjón Dalkvist Gunnarsson.

Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum skrifar

 

Svolítil orðaskipti á Facebook fyrir nokkru urðu til þess að ég kasta þessu fram núna, þegar ljóst er orðið að ég er ekki einn um áhugann á málinu. Þar sem engar heimildir eru þekktar um gerð, stærð eða staðsetningu virkisins á Reykhólum þurfa sagnfræðingar og fornleifafræðingar að skoða þau mál. Mín hugmynd er þessi (svo er annarra að koma með breytingatillögur):

 

Fram undan Reykhólakirkju er Kaldraninn. Hann þarf að hækka og gera að bílastæðum fyrir kirkjugesti og aðra. Fremst (vestast) á uppfyllingunni verður virkið - við ættum reyndar að skrifa það með stórum staf og tala um Virkið - á fegursta útsýnisstað Reykhóla. Ég legg til að það verði hringlaga, 6 metrar í þvermál, hlaðið úr torfi og grjóti. Gólfið yrði hálfum öðrum metra hærra en flötin í kring. Þar ofan á yrði hálfs annars metra há brjóstvörn úr grjóti, þannig að heildarhæðin yrði þrír metrar. Inn í Virkið væru þröngar dyr með göngubrú, sem undin væri upp til að loka.

 

_______________

 

Fimmtánda öldin var umbrotasamur tími á Reykhólum við Breiðafjörð. Á þessu auðugasta höfuðbóli landsins ólst upp og bjó síðan Guðmundur Arason (f. 1395) sem síðar var nefndur Guðmundur ríki, enda auðugastur manna hérlendis, og varð sýslumaður. Hann gekk að eiga Helgu Þorleifsdóttur, systur Björns ríka hirðstjóra á Skarði á Skarðsströnd. Eignuðust þau tvö börn, Ara, sem dó á unglingsaldri, og Solveigu. Helga kona Guðmundar dó eftir átta ára sambúð frá börnunum ungum. Seinna eignaðist Guðmundur óskilgetinn son, Andrés.

 

Við fráfall Helgu slitnuðu mágsemdir við Skarðverja og 1446 kærðu þeir Guðmund fyrir tveggja áratuga gamalt brot, húsbrot og rán á Breiðabólsstað í Vatnsdal, og Einar Þorleifsson, fyrrverandi mágur Guðmundar, sem orðinn var hirðstjóri konungs, dæmdi hann útlægan. Guðmundur sigldi litlu seinna áleiðis til Englands en engar spurnir eru af honum síðan.

 

Skarðverjar sölsuðu undir sig allar eignir Guðmundar og gerðu Solveigu dóttur hans arflausa því að hún var getin eftir brotið gamla. Eins og vænta mátti var hún ekki sátt og leitaði sér aðstoðar og stundum með nokkrum árangri. Alltaf héldu Skarðverjar Reykhólum; þó að þeir töpuðu málum höfðu þeir betur í næstu lotu.

 

Solveig gekk að eiga Bjarna, sem var ofstopamaður og nefndur „góði maður“ og var Þórarinsson, og héldu þau Saurbæ á Rauðasandi. Eitt sinn barst þeim njósn af árás Skarðverja og mætti Bjarni þeim við Skor og hafði betur. „Hjuggu þeir þá, slógu og skutu með byssu og bogum.“ Seinna náðu Skarðverjar Bjarna og drápu hann, en Solveig var komin í samstarf með Andrési hálfbróður sínum og lofaði honum arfshlut. Andrés bjó á Felli í Kollafirði á Ströndum, kom með lið og tók Reykhóla þegar hann frétti að fámennt væri á staðnum.

 

Tvennum sögum fer af atburðum þeim sem Björn Th. Björnsson skrifar um í sögunni Virkisvetri og gerist á Reykhólum.

 

Í Öldinni fimmtándu er Andrés Guðmundsson sagður koma 1480 og byggja mikið virki og þegar Skarðverjar komu þann 8. janúar 1483 segir: „Það ball á mönnum grjót og dreif ofan pílur og skot er þeir réðust á virkið. Eftir margra sólarhringa þrásetu unnu þeir Þorleifur og Einar orrustuna um Reykhóla.“ Getið er um tvær lóðbyssur sem menn Andrésar skutu með úr virkinu og vilja sumir meina að séu fyrstu byssur sem greint sé frá á Íslandi þó að getið sé um byssu Bjarna við Skor nokkru fyrr eins og áður greinir.

 

Aðrir segja að Þorleifur sonur Einars Þorleifssonar hafi látið gera virki þetta þegar hann réð Reykhólum. Andrés og lið hans hafi síðan unnið virkið og náð undir sig Reykhólum haustið 1482 og haldið því fram til 8. janúar þegar Þorleifur Einarsson og hans menn endurheimtu bæði virkið og Reykhóla.

 

Ekki mun getið um virki á Reykhólum síðan, svo vitað sé, en Guðmundur ríki á þar enn afkomendur, a.m.k. þann sem þetta ritar og eflaust miklu fleiri. Ég er afkomandi Andrésar Guðmundssonar í 13. lið enda hef ég ekki verið nefndur hinn ríki, a.m.k. ekki enn sem komið er.

 

- Guðjón D. Gunnarsson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30