Tenglar

17. mars 2009 |

Einar Kristinn Guðfinnsson í leiðtogasætið

Eiríkur Finnur Greipsson.
Eiríkur Finnur Greipsson.

Eiríkur Finnur Greipsson skrifar:

 

Að velja sér fulltrúa til að sitja hið háa Alþingi er ekki bara ábyrgðarmikið, það er ekki síður nauðsynlegt. Frá unga aldri hef ég fylgst með pólitík og allt frá táningsárum hef ég ítrekað komist að þeirri niðurstöðu, að stefna Sjálfstæðisflokksins væri mér mjög að skapi, og svo skrítið sem það nú er, þá hefur krossinn við listabókstafinn D orðið mín einlæga niðurstaða þá kjördaga sem ég hef fengið að nýta mér kosningarétt minn. Ánægjulega en ótrúlega margt fólk, allt mjög hæft, sækist nú eftir því að bjóða sig fram til setu á Alþingi fyrir NV-kjördæmi, eða alls 17 einstaklingar.

 

Ástæða þess að ég hef aðhyllst sjálfstæðisstefnuna er í sjálfu sér einföld, en það er eitt að hafa stefnu og síðan annað að framfylgja henni. Gæfa Sjálfstæðisflokksins hefur verið að til forystustarfa þar hafa valist sérlega hæfir og baráttuviljugir einstaklingar. Svo er enn.

 

Nú er enn á ný komið að þeirri ábyrgðarstund að velja fólk til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Í því mikla mannvali sem flokksmenn í NV-kjördæmi hafa úr að velja er vinur minn frá unglingsárum, Einar Kristinn Guðfinnsson. Með slíkan mann í forystu og baráttu fyrir hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar er ég ekki í vafa um að við munum ná þeim árangri, að verða áfram sú samheldna og framsækna þjóð sem skipað hefur Íslandi meðal fremstu þjóða heims á nánast öllum sviðum, að undanskildum hernaðarumsvifum.

 

Einar Kristinn hefur með störfum sínum sannað að hann er ákaflega vel til forystu fallinn. Sem ráðherra hefur hann líka sýnt, svo ekki verður í móti mælt, að hann er óhræddur við að taka ákvarðanir sem eru landi og þjóð til eflingar og framfara. Hugsjónir sjálfstæðismanna, hagsmunir kjördæmisins, atvinnulífs og einstaklinga - og landsins alls - eru þeir hornsteinar og vörður sem hann byggir afstöðu og ákvarðanir sínar á. Samhliða þeirri endurnýjun sem nú blasir við á lista okkar sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi þurfum við Íslendingar á kraft- og reynslumiklu fólki að halda til forystu. Því tel ég nauðsynlegt að við veljum jafn mætan og vandaðan einstakling og Einar Kristin Guðfinnsson í það ábyrgðarmikla hlutverk.

 
Niðurstaða mín er því að ég ætla að velja Einar Kristin í 1. sæti framboðslistans í NV-kjördæmi laugardaginn 21. mars næstkomandi.

 

Eiríkur Finnur Greipsson,

Flateyri.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30