Einar Kristinn í efsta sætið
Kristín Hálfdánsdóttir skrifar:
Mikil endurnýjun á sér stað í íslenskum stjórnmálum fyrir væntanlegar kosningar og klár skilaboð þátttakenda í prófkjörum undanfarið sýna kröfu um slíkt. Ekki er að efa að margir efnilegir stjórnmálamenn og framtíðarleiðtogar komi fram, sem muni móta framtíð Íslands næstu áratugina. Aðeins einn af sitjandi þingmönnum sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, Einar Kristinn Guðfinnsson, hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu og sækist hann eftir að leiða listann í komandi kosningum á þessu vori.
Einar Kristinn hefur setið á þingi síðan 1991. Hann gegndi stöðu sjávarútvegsráðherra frá 2005 og landbúnaðarráðherra frá síðustu kosningum, þar sem hann hefur meðal annars tekist á við það flókna og þarfa verkefni að sameina ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs. Enginn vafi er á að kjördæmið hefur notið góðs af störfum Einars sem ráðherra og í gegnum störf sín hefur hann byggt upp mikilvæg sambönd innan Sjálfstæðisflokksins og ekki síður utan hans, sem munu nýtast íbúum kjördæmisins í framtíðinni. Nýir vendir sópa best, segir máltækið, en íbúar þessa kjördæmis sem framar öðrum byggja á þessum tveimur atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, þurfa á verðmætri reynslu Einars Kristins að halda í þeirri uppbyggingu sem framundan er.
Einar Kristinn hefur sýnt að hann þorir að taka af skarið og hefur tekið umdeildar ákvarðanir, enda trúað því að þær hafi verið góðar fyrir hans kjördæmi og Íslendinga í heild. Það er að vísu auðveldara að sigla milli skers og báru frekar en láta brjóta á, en menn vita hins vegar aldrei hvar þeir hafa slíka menn, sem þóknast geðþótta sínum frekar en skýrum og gegnsæum stefnumálum.
Enginn þarf að velkjast í vafa fyrir hvað Einar Kristinn stendur í stjórnmálum, sem er mikilvægt í þeirri óvissu sem blasir við landsmönnum á komandi kjörtímabili. Íslendingar hafa ekki frá lýðveldisstofnun staðið frammi fyrir jafn mikilli óvissu þar sem varasamar ákvarðanir verður að taka til að byggja upp þjóðfélagið að nýju. Íslendingar horfa fram á nauðsyn þess að ríkið standi fyrir mesta fjármagnstilflutningi sögunnar til að bjarga fyrirtækjum og einstaklingum, þar sem nauðsyn gengur gegn almennu réttlæti til að halda þjóðfélaginu saman og tryggja viðreisn atvinnulífs og einstaklinga.
Til þessara verka þurfum við duglega, reynslumikla og heiðarlega forystumenn í stjórnmálum, sem þora og geta tekist á við þau gríðarlegu vandamál sem við okkur blasa. Menn sem við vitum hvar við höfum og fyrir hvað þeir standa.
Ágæti lesandi. Ég vil biðja þig að styðja við Einar Kristin á laugardaginn kemur og treysta honum til að leiða lista sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Það er mikilvægt fyrir okkur að velja mann sem við þekkjum og vitum að við getum treyst til þeirra verka sem framundan eru fyrir kjördæmið og þjóðina alla. Kjósum Einar Kristin í fyrsta sætið í prófkjörinu á laugardaginn.
- Kristín Hálfdánsdóttir,
Ísafirði.