Tenglar

18. mars 2009 |

Einar Kristinn leiði listann

Gísli Gunnarsson.
Gísli Gunnarsson.

Gísli Gunnarsson skrifar:

 

Það var góður fundur haldinn í félagsheimilinu Ljósheimum í Skagafirði miðvikudagskvöldið 11. mars. Mættir voru 15 af 17 frambjóðendum til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi til þess að kynna sig og áherslur sínar fyrir kjósendum. Nýtt fyrirkomulag fundarins var með þeim hætti, að hver og einn fundargestur gat talað við alla frambjóðendur og sköpuðust af því fjörugar umræður við hvert borð í salnum. Í stuttu máli sagt fannst mér allir frambjóðendur standa sig vel, koma vel fyrir og svara þeim spurningum ágætlega sem fyrir þá var lagt. Við getum því verið ánægð og bjartsýn og þakklát þessu fólki sem tilbúið er að starfa fyrir land og þjóð á erfiðum tímum og ekki verður auðvelt að gera upp á milli manna, karla og kvenna, laugardaginn 21. mars nk.

 

Aðeins einn frambjóðendanna er núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson. Hann býður sig fram í fyrsta sæti listans og ég tel farsælt fyrir kjördæmið að hann fái góða kosningu í forystusætið. Sem forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar í tvö kjörtímabil hafði ég mjög góða reynslu af samstarfi við Einar Kristin á ýmsum sviðum og treysti honum til allra góðra verka. Hann þekkir vel til alls kjördæmisins og hefur sýnt það bæði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hann stendur vel undir ábyrgð.

 

Erfiðir tímar fara nú í hönd í samfélagi okkar, en einnig tímar ýmiss konar tækifæra. Endurskoða þarf siðferðilegt mat og móta þarf nýtt og réttlátt samfélag. Við þá vinnu þarf fólk með reynslu ásamt nýjum starfskröftum. Sagt hefur verið að gott sé fyrir einstaklinga að eiga bæði rætur og vængi. Það þarf listi Sjálfstæðisflokksins einnig að hafa og veitum Einari Kristni skýrt umboð til að leiða glæsilegan lista í Norðvesturkjördæmi.

 

Gísli Gunnarsson,

sóknarprestur í Glaumbæ.

 

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30