Tenglar

21. apríl 2009 |

Einu sinni var sproti

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir skrifar:

 

Mikið er rætt og ritað þessa dagana um möguleika í uppbyggingu atvinnulífsins, fjölgun starfa og áherslu á nýsköpun og sprota. Vissulega er nauðsynlegt að að leggja rækt við hvers kyns nýjar hugmyndir í atvinnurekstri sem til lengri tíma gætu náð að festa rætur og verða að stöndugum fyrirtækjum.

 

Hampað á hátíðarstundum

 

En við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi í dag er brýnasta verkefni stjórnvalda að tryggja tilvist þeirra fjölmörgu fyrirtækja í byggðum landsins sem hafa verið í góðum rekstri en eiga nú erfitt uppdráttar vegna ytri aðstæðna. Mörg þessara fyrirtækja eru rótgróin í hefðbundnum atvinnugreinum og því skiptir höfuðmáli á þessum erfiðu tímum að gera ekki grundvallarbreytingar á rekstrarumhverfi þeirra líkt og boðað hefur verið af vinstri flokkunum.

 

Ef ekki tekst að standa vörð um þau fyrirtæki sem lagt hafa grunn að verðmætasköpun á landsbyggðinni gætu atvinnuleysistölur hækkað til mikilla muna á skömmum tíma. Mörg þessara fyrirtækja voru á sínum tíma sprotar í atvinnuflórunni en hafa nú skapað sér sess sem undirstöðufyrirtæki víða um land og eru á hátíðarstundum gjarnan tekin sem dæmi um velgengni byggðarlaga. Nú árar hinsvegar illa hjá mörgum þeirra. Flutningskostnaður er víða að sliga reksturinn, skuldir eru að verða óviðráðanlegar og skattaumhverfi gefur lítil grið. Í ofanálag bætist óvissan sem vinstri flokkarnir hafa nú skapað um framtíð grunnatvinnuvega Íslendinga - óvissa sem mun hindra hverskyns uppbyggingu og nýsköpun.

 

Hvað er til ráða?

 

Augljóslega þarf að lækka stýrivexti, koma jafnvægi á gengi krónunnar og tryggja eðlileg bankaviðskipti. En til að létta undir með fyrirtækjum á landsbyggðinni er einnig löngu tímabært að taka upp markvissa flutningsjöfnun sem gerir þeim fyrirtækjum kleift, sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu, að eiga í heilbrigðri samkeppni. Einnig er eðlilegt að kanna með hvaða hætti skattaívilnanir gætu létt undir með þessum fyrirtækjum og er þá rétt að líta til þeirra ívilnana sem þegar hefur verið gripið til í byggingargeiranum og kvikmyndaiðnaðinum. Að lokum er vert að líta til hugmynda hagfræðinganna Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoëga sem hafa talað fyrir skuldbreytingu lána yfir í hlutafé í eigu ríkisins. Hugsun þeirra félaga er sú að þegar betur fer að ára geti fyrirtæki leyst til sín ríkishlutinn, í einu lagi eða áföngum, og þannig unnið sig út úr erfiðleikunum með minni skuldabyrði en ella. Þetta eru raunhæfar hugmyndir sem einnig má yfirfæra á húsnæðisskuldir heimilanna.

 

Hver sem niðurstaða kosninganna verður næstkomandi laugardag á það að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að verja þau fyrirtæki falli sem hafa verið máttarstólpar byggðarlaganna um langt árabil. Ofangreindar hugmyndir nýtast vonandi til þess.

 

- Birna Lárusdóttir, skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30