Tenglar

17. maí 2010 |

Ekki meiri „Truflun“ takk!

Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Ég sat á dögunum Útflutningsþing, ákaflega ánægjulegan og fróðlegan fund þar sem reifuð voru margs konar tækifæri í útflutningi okkar Íslendinga. Þar kom margt áhugavert fram og ljóst að aðstæður núna eru að knýja marga áfram að leita nýrra tækifæra og vinna jafnframt að verkefnum sem hafa áður skotið rótum, við aðstæður sem voru erfiðar útflutningsstarfseminni.
 
Í þessu felast tækifæri, sem eigum að hlúa að. Hið lága gengi, með þeim göllum sem því fylgja sannarlega fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki, lyftir undir útflutningsstarfsemi, sem getur gagnast okkur í framtíðinni.

 

En reynt fólk á þessu sviði sló samt varnagla, sem við þurfum að hafa í huga. Þeirra skilaboð voru einhvern veginn svona: Útflutningsvinna er tímafrek, vörðuð margs konar vonbrigðum og þó skjótt megi vænta árangurs á einstökum sviðum verðum við að búa okkur undir að ekki kveði mikið að þessari viðleitni í heild fyrr en að allmörgum árum liðnum. Dæmin frá sögu stórfyrirtækja á borð við Össur og Marel segja okkur þetta.

 

Hver er lærdómurinn?

Lærdómurinn sem við eigum að draga af þessu er ekki sá að leggja árar í bát. Við verðum að puða áfram. En ímyndum okkur ekki að almenni árangurinn verði einhver annar en sá sem sagan kennir okkur. Við verðum því að gæta þess að gleyma ekki hagsmunum þess útflutnings sem hefur þegar skotið rótum, þar sem við höfum mikla reynslu og þekkingu. Við þurfum því í senn að verja þann grunn sem við stöndum á og byggja upp ný tækifæri á öllum sviðum. Þau tækifæri geta ekki síður legið í atvinnugreinum sem hér eru rótgróin og í afleiddum tækifærum. Þar er líka af ýmsu að taka, eins og við kunnum svo mörg dæmi um.

 

Eftir hrun fjármálakerfisins sem við öll þekkjum er ljóst að við þurfum mjög að reiða okkur á aðra starfsemi. Þjóðin er skuldug, og það sem nýtt er, ríkissjóðurinn okkar er aftur orðinn skuldugur. Þær skuldir verðum við að greiða með afrakstri útflutningsins okkar. Þess vegna er athyglisvert að sjá í spám Seðlabankans að gengi krónunnar verði hlutfallslega lágt í fyrirsjáanlegri framtíð. Þær aðstæður geta verið kjöraðstæður fyrir eflingu útflutnings okkar, ef vel er haldið á málum.

 

Og það er einmitt þetta ef, sem svo miklu máli skiptir. Við verðum að vinna þannig við ákvörðunartökuna á næstunni að það skaði ekki okkur mikilvægu atvinnugreinar.

 

Auddi og Sveppi

Sú vinna sem ríkisstjórnin hleypti af stokkunum varðandi endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar hefur á margan hátt verið góð. Ef ekki væri fyrir sífelld inngrip ríkisstjórnarinnar er ég þess fullviss að við værum á góðri leið í því máli. Það er auðvitað mjög furðulegt að ráðherrar skuli hafa ætlað sér það hlutverk helst í þessu vandasama verki að vera eins og einhverjir pólitískir Auddi og Sveppi, en þeir ágætu drengir stóðu fyrir dagskrárefni í skemmtiþáttum sínum, sem var kallað Truflun. Þar réðust þeir að fólki við störf sín til þess að koma því að óvörum. Truflun þeirra húmoristanna Audda og Sveppa var gerð til þess að skemmta fólki og oft gat maður hlegið að tiltækjum þeirra. Truflun ríkisstjórnarinnar er hins vegar öllu alvarlegri og síst til þess fallin að auka gleði manna.

 

Forsendurnar liggja nú fyrir

Nú liggja fyrir gríðarlega vel unnin og fagleg gögn, frá Háskólanum á Akureyri, úr Háskóla Íslands og endurskoðunarskrifstofunni Deloitte, sem segir okkur að stórháskalegt yrði að umbylta sjávarútvegkerfinu með inniköllun aflaheimilda. Varaformaður endurskoðunarnefndarinnar gerði grein fyrir þessu hér í síðasta tölublaði Fiskifrétta.

 

Æ fleiri eru líka að gera sér þetta ljóst. Vinna okkar í endurskoðunarnefnd um fiskveiðistjórnun mun því óhjákvæmilega taka mið af þeim niðurstöðum. Við hljótum að ganga út frá því sem gefnu að í þessum málum alveg sérstaklega, vilji menn vanda sig og vinna faglega. Það getur ekki verið ætlun nokkurs manns að standa að niðurstöðu sem er í hróplegri mótsögn við faglega vinnu okkar helstu sérfræðinga.

 

Ekki fleiri sendingar frá stjórnvöldum

Við vitum öll að um fiskveiðistjórnarmálin hefur verið ágreiningur. Það er illt. Við þekkjum líka aðfinnsluefnin. Sum þeirra eru praktískir þættir sem við getum unnið úr og að því er stefnt. Aðrir þættir lúta að meiri grundvallarspurningum. Þar hlýtur að vega þyngst að við höfum skipulagið þannig að það tryggi sem mestan heildarafrakstur úr takmarkaðri auðlind.

 

Við sem um þessi mál vélum skuldum framtíðinni það að við vinnum vel og skipulega að úrlausn þessa mikilvæga máls. Með vinnu sérfræðinganna er búið að kortleggja sviðið betur en nokkru sinni fyrr. Við þekkjum núna hvað hægt er að gera og hvað skynsamlegt er að gera. Við þurfum núna næði til þess að vinna úr þessari stöðu.

 

Vonandi fáum við ekki fleiri Audda-og-Sveppa sendingar úr ríkisstjórninni sem trufli það starf.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður, fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30