Ekki staðið við gefin loforð um breytingar á ellilífeyri
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrartungu II í Reykhólasveit, formaður Landssambands eldri borgara:
Nú er orðið útséð um það að sú tillaga sem Starfshópur um endurskoðun almannatrygginga náði einróma samstöðu um verði að lögum á þessu þingi. Frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning byggðist m.a. á tillögu starfshópsins um breytingu á ellilífeyri (eftirlaunum). Starfshópurinn hafði lagt a.m.k. 1.000 vinnustundir eða meira í umræður og útreikninga varðandi ellilífeyri almannatrygginga, sameiningu bótaflokka og lækkun skerðingarhlutfalla, sem yrði til að einfalda kerfið og jafnframt bæta kjör eldri borgara.
Væri spurt um leiðréttingar á kjörum eldri borgara á fundum með ráðamönnum var svarið ævinlega að það væri verið að endurskoða lög um almannatryggingar og ný lög yrðu samþykkt fyrir lok kjörtímabilsins. Tillögu starfshópsins var skilað til velferðarráðherra í október, en hún sat föst í fjóra mánuði í fjármálaráðuneytinu.
Og af hverju var það? Jú, það átti á fjórum árum að lækka hlutfall skerðingarmarka vegna framfærslutryggingar úr 100% í 45% og þá væri framfærslutryggingin orðin sameinuð ellilífeyri. Þetta hefði haft í för með sér verulegar kjarabætur til allra sem væru með lífeyrissjóðstekjur, en framfærslutryggingin gerir að verkum að 73.000 krónur í lífeyrissjóðstekjur skipta í raun engu máli, menn eru jafnsettir og þótt þeir hefðu aldrei greitt í lífeyrissjóð. Þetta hefði að sjálfsögðu kostað fjármuni úr ríkissjóði til að byrja með, en með tímanum verða lífeyrissjóðstekjur fólks meiri og þá lækkar framlag Tryggingastofnunar.
Loks var mælt fyrir frumvarpinu 7. mars sl. og fylgdi þá afar neikvæð umsögn fjármálaráðuneytisins. Ljóst var þá þegar að erfitt yrði að koma frumvarpinu áfram auk þess sem tíminn til þingslita myndi ekki nægja til að koma málinu í gegn. Sem kom auðvitað í ljós, enda með eindæmum hvernig gekk að vinna þingstörf síðustu vikurnar. Oft hefur það verið slæmt, en sjaldan verra!
Hvenær fá eldri borgarar leiðréttingar á kjörum sínum?
Sem formaður Landssambands eldri borgara verð ég að segja að mér finnst lítið fara fyrir leiðréttingum á kjörum eldri borgara í tíð þessarar ríkisstjórnar. Nokkrar kjarabætur náðust þó fram vorið 2011 í tengslum við kjarasamninga, þökk sé ASÍ, en síðan var ákveðið að standa ekki við þá kjarasamninga að fullu. Hins vegar hafa skerðingar á kjörum okkar í almannatryggingakerfinu verið milli 16 og 17 milljarðar króna frá árinu 2009 til 2013.
Til viðbótar má svo telja þær skerðingar sem gerðar voru af hálfu flestra lífeyrissjóða frá árinu 2009 sem fólust í lækkun lífeyrisgreiðslna til lífeyrisþega um 10-20% frá því sem áður var.
Mest svíður okkur þó að grunnlífeyrir almannatrygginga skyldi vera tengdur við lífeyrissjóðstekjur með þeim afleiðingum að stór hópur lífeyrisþega missti allan sinn grunnlífeyri. Fram að því hafði verið litið svo á að við grunnlífeyri yrði aldrei hróflað og eru til margar samþykktir fyrri ríkisstjórna sem styðja það. Í Landssambandi eldri borgara höfum við lagt ríka áherslu á það að sú ákvörðun verði dregin til baka.
Eins og málin standa núna, með öllum skerðingarákvæðum á bótum almannatrygginga, eru alltof margir eldri borgarar fastir í fátæktargildru. Nú getum við aðeins vonað að næsta ríkisstjórn, hverjir sem hana skipa, dragi a.m.k. til baka eitthvað af þeim skerðingum sem við höfum mátt sæta frá árinu 2009. Æskilegast væri að leggja hið nýja frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning fram á vorþingi og klára málið. Jafnframt því að vinna að endurheimt grunnlífeyris í áföngum.
Vissulega minnkuðu tekjur flestra landsmanna eftir hrunið, en það er þó viðurkennt af mörgum reiknimeisturum að einna mest var skerðingin hjá eldri borgurum. Því krefjumst við þess að við förum að sjá batnandi kjör í takt við þær yfirlýsingar að nú sé landið að rísa.
- Grein þessi birtist jafnframt í Morgunblaðinu í dag, 10. apríl.