Tenglar

25. apríl 2016 |

Engin óvissa um Dýrafjarðargöng

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar

 

Það var undarlegt að verða vitni að umræðu alla helgina þar sem látið var í veðri vaka að ekki yrði staðið við það fyrirheit að bjóða út framkvæmdir við Dýrafjarðargöng nú í haust. Talað var um að óvissa væri um hvort útboðið færi fram og þar fram eftir götunum. Þetta er allt hið fjarstæðukenndasta. Það er engin óvissa um Dýrafjarðargöng. Þau verða boðin út í haust, framkvæmdir hefjast næsta ár og þeim lokið árið 2020. Flóknara er það mál nú ekki.

 

Framkvæmdir á Dynjandisheiði næsta ár

 

Þetta geta menn fræðst um í tillögu að nýrri samgönguáætlun, sem mælt var fyrir þriðjudaginn 19. apríl á Alþingi. Og þegar þessar línur eru settar á blað að morgni mánudagsins 25. apríl var einmitt að hefjast fundur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þar sem eitt mál var á dagskrá, samgönguáætlunin.

 

Augljóst er að þingleg meðferð samgönguáætlunar þarf ekki að vera löng að þessu sinni. Mjög hefur verið kallað eftir afgreiðslu hennar, jafnt af stjórn og stjórnarandstöðu. Áætlunin var lögð fram á fyrra þingi, afgreidd úr nefnd, en málið kom ekki til lokameðferðar. Efnisleg vinna að áætluninni hefur því þegar farið fram og engin ástæða til annars en að þessu sinni geti málið gengið hratt og vel fyrir sig.

 

Því má svo bæta við, að í hinni nýju samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á endurgerð Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði strax á næsta ári og ljóst að sú vinna verður unnin samhliða gerð Dýrafjarðarganga.

 

Fjármögnun tryggð – útboð í haust

 

Í tilefni af helgarumræðunni um Dýrafjarðargöng sendi innanríkisráðuneytið frá sér yfirlýsingu, þar sem segir:

 

Í tillögu að samgönguáætlun 2015-2018, sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi síðastliðinn þriðjudag og er nú til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd, er áætlað að ráðstafa fjármagni til Dýrafjarðarganga á þessu ári, árið 2017 og árið 2018. Ríkisfjármálaáætlun gerir sömuleiðis ráð fyrir framlagi til verkefnisins á næstu árum.

 

Nú þegar er unnið að undirbúningi alþjóðlegs forvals sem yrði á næstu vikum, útboð verksins fari fram síðla þessa árs og að gengið verði til samninga á fyrstu mánuðum 2017. Framkvæmdir hefjast svo eftir mitt ár 2017. Allur undirbúningur fjárlaga og fjármálaáætlunar ríkisins hefur tekið mið af þessari framvindu mála og er vinnan samkvæmt áætlun. Áformin eru því óbreytt og unnið að því að hafist verði handa við Dýrafjarðargöng að loknum Norðfjarðargöngum.

 

Ys og þys út af engu

 

Skýrara getur þetta ekki verið. Öll áform eru óbreytt. Dýrafjarðargöngin verða boðin út í haust, vinna við þau hefst næsta ár og fullbúin verða þau árið 2020. Gert er ráð fyrir fjármögnun vegna verksins í nýrri ríkisfjármálaáætlun sem lögð verður fram á næstu dögum. Umræða helgarinnar er því eins og allir geta nú séð, ys og þys út af engu.

 

– Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Norðvesturkjördæmis.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31