Eru Frjálslyndir á móti arðbærum og vistvænum veiðum?
Þórður Már Jónsson skrifar:
Sigurjón Þórðarson, talsmaður Frjálslyndra í sjávarútvegsmálum heldur áfram að gleðja mig með skemmtilegum skrifum sínum í greininni „Samfylkingin er á móti togveiðum". Vandræðagangur Frjálslyndra kemur vel fram í skrifum hans, enda er hans helsta áhugamál að snúa út úr málflutningi þeirra sem teljast ættu skoðanabræður hans í sjávarútvegsmálum. Augljóst er að Sigurjón telur það auka möguleika hans á þægilegu starfi á Alþingi að reyna að sverta málstað minn og Samfylkingarinnar varðandi þennan málaflokk. Ef Sigurjón hefði hugsjónina að vopni og vilja til að breytingar verði gerðar á kvótakerfinu ætti hann auðvitað að beina spjótum sínum og málflutningi að þeim sem verja kvótakerfið með ráðum og dáð.
Sigurjón segir í grein sinni að kerfið hafi „mengað hugsanagang vel meinandi fólks" þar á meðal minn og heldur hann því fram að ég hafi sagt að minnkaðar togveiðar valdi sjálfkrafa aukningu á handfæraveiðum! Þessi útúrsnúningur er bráðfyndinn og vel í anda Sigurjóns sem hefur sem fyrr gaman af að reita af sér brandara. Í grein minni sem Sigurjón snýr svo fimlega út úr fjallaði ég um að gera þurfi þjóðhagslega hagkvæmari veiðum hærra undir höfði, veiðum sem skilja meira eftir handa sjómönnunum sjálfum sem og þjóðarbúinu. Sigurjón vill meina að þetta þýði að Samfylkingin sé á móti togveiðum og að Samfylkingarmenn gleðjist yfir gríðarlegum samdrætti í togveiðum! Þetta er auðvitað varla svara vert, en ég bendi auðvitað á önnur greinaskrif mín til nánari útskýringar. Af skrifum Sigurjóns má jafnframt sjá að hann virðist ekki hafa heyrt minnst á það að nýting hráefnisins á frystiskipunum sé ekki jafn góð og hjá landvinnslum. Mengunarsjónarmið eða spjöll á lífríki sjávar virðast heldur ekki vera ofarlega í huga Sigurjóns eins og jafnframt má sjá má í grein hans.
Ég hef bent á að ég vil t.d. opna meira kerfið í úthafsrækju sem einungis sé hægt að ná með auknum togveiðum. Það yrði gert með því að LÍÚ sægreifum yrði gert að skila til baka óveiddum kvóta sem þeir sitja á líkt og ormar á gulli og öðrum aðilum sem hafa áhuga á að nýta sér þessa auðlind gefið tækifæri til að sækja þessi verðmæti, þjóðinni til heilla. Þeim aðilum yrði leigður af ríkinu sá kvóti sem þeir þurfa og geta veitt samkvæmt nýsamþykktum hugmyndum Samfylkingarinnar. Þessi aðgerð yrði gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulífið í NV-kjördæmi sem kalla má Mekka rækjuiðnaðar á Íslandi og þó víðar væri leitað. Enda eru starfræktar verksmiðjur í Grundarfirði, Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstanga og á fleiri stöðum. Þá er mér að auki fullljóst að nánast ógerningur er að ná ákveðnum tegundum öðruvísi en með togveiðum, t.d. karfa.
Sigurjón minnist jafnframt á það að handfæraveiðar hafi minnkað gríðarlega og séu einungis fjórðungur af því sem þær voru fyrir einum og hálfum áratug. Það þarf jú engan snilling til þess að sjá að það hljóti að leiða til minnkandi handfæraveiða ef menn þurfa að leigja til sín kvóta fyrir 200 krónur kílóið af útgerðarrisunum til þess eins að mega fara á sjó. Og fá svo hugsanlega 220 krónur á kílóið fyrir fiskinn upp úr sjó! Það jaðrar vissulega við bilun að fara út í slíkan rekstur, en menn neyðast sumir til þess að gera það engu að síður. Þannig að ég furða mig ekki mikið á því að slíkar veiðar hafi farið minnkandi.
Sigurjón furðar sig á því að ég tali um að sjávarauðlindin sé takmörkuð. Enginn vafi er hins vegar á því að þegar veiði er takmörkuð með þeim hætti sem nú er gert að auðlindin (verðmæti hennar) hlýtur að takmarkast við það hámark sem ákveðið er. Ef þorskveiðikvóti á fiskveiðiári er 160.000 tonn þá takmarkast auðlindin og afrakstur hennar á því ári við þann tonnafjölda og það verðmæti sem út úr því er hægt að fá. Sigurjón virðist hins vegar einhverra hluta vegna ekki hafa heyrt af þessum takmörkunum, eða hugsanlega skilur hann ekki þýðingu þeirra. Hvort við svo ákveðum að veiða miklu meira í framtíðinni er hins vegar allt annað mál og óskylt.
Sigurjón virðist sjá því allt til foráttu að Samfylkingin vilji gera handfæraveiðum hærra undir höfði. Sigurjón hefur sjálfur talað fyrir því að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar, en það eru einungis fáeinir dagar síðan Sigurjón skrifaði m.a. á bloggsíðu sinni að Samfylkingin hafi „ekki einu sinni séð ástæðu til að opna fyrir frjálsar handfæraveiðar", en í kjölfar mjög afdráttarlausrar stefnu Samfylkingarinnar þar sem m.a. var samþykkt að slíkar veiðar verði gefnar frjálsar virðist Sigurjón sjá þeim allt til foráttu! Þar að auki skrifaði Sigurjón grein þann 17. mars undir yfirskriftinni „frjálsar handfæraveiðar" þar sem hann dásamaði áhrif slíkra veiða, réttilega að mínu mati. Þar segir hann að það sé „engin spurning að þetta litla mál yrði gríðarleg lyftistöng fyrir byggðirnar og yki bjartsýni í samfélaginu".
Verð ég að viðurkenna að útúrsnúningar Sigurjóns ollu mér á köflum nokkrum heilabrotum, enda ekki gott að sjá hvaðan allar hans hugmyndir voru upprunnar. Ef það eina sem Sigurjón Þórðarson hefur fram að færa fyrir hönd síns flokks er að snúa út úr málflutningi annarra flokka (málflutningi sem hann ætti raunar að fagna) þá þykir mér ekki undarlegt að Frjálslyndi flokkurinn sé í vanda. Ég veit í raun ekki heldur hvaða skilaboð sjómenn eiga að lesa út úr málflutningi Sigurjóns. Til þess er hann allt of ruglingslegur. Hins vegar ætti enginn að velkjast í vafa um hvað lesa má út úr málflutningi Samfylkingarinnar í kjölfar landsfundarins. Heppilegra væri auðvitað fyrir Frjálslynda flokkinn ef talsmenn hans væru færir um að einbeita sér að eigin boðskap. Ég mun halda áfram að boða byltingu í sjávarútvegsmálum og vísa í því sambandi til stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum sem samþykkt var með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á landsþinginu um síðustu helgi. Og um leið og Sigurjón Þórðarson áttar sig á því að mér er alvara og að þetta er okkar síðasta tækifæri til þess að koma á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu býð ég hann velkominn til að starfa með mér að þessum málum, með hagsmuni þjóðarinnar allrar í huga.
- Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur. Skipar fjórða sæti á lista Samfylkingar í NV-kjördæmi.