Eru Reykhólar næstir á dagskránni hjá N1?
Bergsveinn Reynisson skrifar
Það hefur legið fyrir í 25 ár, eða alveg frá því að tankarnir í Króksfjarðarnesi voru settir niður, að þeir fengju ekki að vera til eilífðar. Reyndar var þeirra tími liðinn á síðasta ári og því er enn sérstakara að þeir þurfi að fara akkúrat núna í dag. Að vísu athugaði N1 ekkert hjá viðkomandi yfirvöldum hvort þeir mættu vera í notkun fram á haustið, það var ekki einu sinni vilji til að skoða það.
Samkvæmt upplýsingum frá N1 þurfa að seljast 400 þúsund lítrar á ári á svona stöð til að það taki því að endurnýja hana með olíugildrum og öllu sem fylgir. Því miður eru fæstar stöðvar í okkar landshluta sem ná því, Króksfjarðarnes var að selja um 100 þúsund lítra á ári, þar af um 45 þúsund lítra í júní, júlí og ágúst.
Tankarnir hjá N1 á Reykhólum eru, það ég best veit, á svipuðum aldri og tankarnir í Króksfjarðarnesi, og því fer væntanlega að styttast í að eitthvað þurfi að gera fyrir þá. Þess vegna vil ég hvetja þá sem málið varðar að sjá til þess, að sem allra fyrst verði farið í þær framkvæmdir sem þarf á Reykhólum til að þar geti verið eldsneytissala til frambúðar, svo að einn daginn verði ekki búið að loka þar líka. Þetta eru framkvæmdir sem gætu verið upp á 15 milljónir eða meira, og ekkert víst, núna eftir að N1 var skráð í Kauphöllinni, að hluthafarnir séu spenntir fyrir því að henda peningunum sínum í eitthvert krummaskuð út á landi og tapa þeim.
Líka vil ég hvetja hlutaðeigandi til að sjá svo um að þetta verði gert almennilega. Til dæmis að hægt verði að kaupa litaða olíu, því það hefur heyrst, ef það er ekki byrjað nú þegar, að það eigi að fara að rukka aukalega fyrir að dæla á tanka hjá bændum og verktökum.
Nú er bara að leggjast á eitt og sjá til þess að þannig verði staðið að eldsneytissölu á Reykhólum að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að vera í viðskiptum við N1.
- Bergsveinn Reynisson,
Gróustöðum við Gilsfjörð.
______________________________
Tengt efni:
14.03.2014 Dælunum í Nesi lokað nánast fyrirvaralaust
15.03.2014 Skorað á N1 að fresta lokuninni