Fátt er svo með öllu illt …
Ólína Þorvarðardóttir skrifar:
Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o.fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.
Á hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.
Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna.
Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.
Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli. Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn hafa varla skaðað heldur.
En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt. Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs.
- Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður.