Tenglar

1. febrúar 2012 |

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps 1 árs!

Hildur Jakobína Gísladóttir.
Hildur Jakobína Gísladóttir.

Hildur Jakobína Gísladóttir,

félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps:

 

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps er 1 árs í dag. Hún er eins og flest eins árs gömul börn bæði farin að standa upp og ganga með en þarf tíma til að þroskast og dafna.

 

Félagsmálastjóri var ráðinn í 70% starf frá 1. febrúar 2011 og hefur byggt upp félagsþjónustuna síðasta árið. Þeir málaflokkar sem félagsþjónustan sinnir eru barnavernd, félagsleg ráðgjöf, félagsleg heimaþjónusta, fjárhagsaðstoð, málefni aldraðra og málefni fatlaðra.

 

Unnið er út frá lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarlögum nr. 80/2002, lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um ættleiðingar ásamt fleiri lögum innan stjórnsýslunnar. Búið er að útbúa reglur, umsóknir og verkferla í nánast öllum málaflokkum og ramminn því kominn í fastar skorður.

 

Tilkynningar til barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og Héraðsnefndar Strandasýslu skv. barnaverndarlögum voru 31 talsins árið 2011. Ein umsókn um fósturfjölskyldu barst á árinu og tvær umsóknir um stuðningsfjölskyldur voru afgreiddar.

 

Sjö einstaklingar sóttu um fjárhagsaðstoð og fengu 4 aðilar hana greidda út tímabundið. Þrír féllu ekki að reglum um fjárhagsaðstoð. Þrír aðrir styrkir voru greiddir út byggðir á reglum um fjárhagsaðstoð.

 

Félagslegri ráðgjöf hefur verið sinnt á árinu. Þetta eru viðtöl vegna áhyggna fólks af sjálfu sér eða öðrum fjölskyldumeðlimum vegna mismunandi vandamála. Þar má nefna upplýsingar eins og um lífeyrisréttindi vegna umönnunarbóta, örorku og endurhæfingar eða vegna aldurstengdra starfsloka. Eins vegna erfiðleika tengdum uppeldi barna, fíknar. Nokkur stuðningsviðtöl hafa farið fram vegna vanlíðunar barna í skóla, vegna ofbeldis, fíknivandamála, samskiptavandamála, hjónabandserfiðleika og uppeldisráðgjafar.

 

Gerðar voru reglur um félagslega heimaþjónustu og í vinnslu er verklag varðandi vinnu starfsfólks og boð og bönn inni á heimilum þeirra sem nýta þjónustuna. Tekin var upp gjaldskrá en þeir sem eru aðeins með ellilífeyri og tekjutryggingu falla ekki undir hana og fá þjónustuna áfram sér að kostnaðarlausu. Gjald er tekið fyrir félagslega heimaþjónustu í hartnær öllum sveitarfélögum landsins og ýtir undir notkun þjónustunnar fyrir þá sem telja sig þurfa á henni tímabundið að halda vegna t.d veikinda eða slysa.

 

Haustið 2011 var farið í að skipuleggja málefni aldraðra. Fundað var með eldri borgurum Strandabyggðar og Reykhólahrepps en ráðgert er að funda innan skamms með hinum tveimur sveitarfélögunum; Árneshreppi og Kaldrananeshreppi.

 

Niðurstöður munu verða kynntar sveitarfélögunum þegar þær liggja fyrir en byggt á vinnu við eldri borgara hjá Strandabyggð og Reykhólahreppi er fólk almennt ekki að gera miklar kröfur til þjónustu á svæðinu. Helst bar þó á keyrslu til og frá félagsstarfinu fyrir þá sem búa í sveit, leikfimi, bekki á gönguleiðum, fjölbreyttara félagsstarf (útskurður, rennismíði o.s.frv.).

 

Félagsmálastjóri sendi nýlega bréf til allra eldri borgara sveitarfélaganna fjögurra til að kynna þjónustuna og biðja um athugasemdir vegna stefnumótunar í málaflokknum. Innan skamms er áætlaður fundur með forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Hólmavík vegna hugsanlegrar samvinnu og samhæfingar heilbrigðisþjónustu og félagslegrar heimaþjónustu þeirra heimila sem þurfa á hvoru tveggja að halda. Stefna stjórnvalda er að eldri borgarar búi sem allra lengst heima og er í því tilliti búið að hækka markið fyrir vistunarmat á bæði dvalarheimili og heilbrigðisstofnunum. Í ljósi þess er því mikilvægt að efla þjónustuna heim til þessa samfélagshóps og gera hana sveigjanlegri að þörfum hvers og eins. Er það tekið með inn í gerð stefnumótunar innan málaflokksins.

 

Mesta vinna félagsmálastjóra hefur farið í málefni fatlaðra af þeim 6 málaflokkum sem félagsþjónustan ber ábyrgð á. Málaflokkurinn var tekinn yfir af sveitarfélögunum 1. janúar 2011 og er því komin eins árs reynsla á þá vinnu. Verkefnahópur um málefni fatlaðra hjá Byggðasamlagi Vestfjarða (BSvest), sem fjórir félagsmálastjórar Vestfjarða sitja í ásamt verkefnastjóra og framkvæmdastjóra Byggðasamlags Vestfjarða, funda reglulega bæði í gegnum síma og svo eru haldnir staðbundnir fundir. Farið var í Heydal í vor og unnið að stefnumótun í málaflokknum. Verkefnahópurinn ber ábyrgð á ráðstöfunum á því fjármagni sem kemur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga auk þeirrar prósentu sem kemur frá hverju sveitarfélagi fyrir sig.

 

Á félagsþjónustusvæði Stranda og Reykhóla eru 20 einstaklingar sem falla undir málefni fatlaðra skv. skilgreiningu svæðisskrifstofunnar. Um er að ræða 10 fullorðna og 10 börn. Gera þarf áætlun í máli hvers og eins einstaklings til nokkurra mánaða í senn þar sem þjónusta hvers og eins er útlistuð og dagsetning um endurmat kemur fram. Innan skamms munu félagsmálastjórar þurfa að skila skýrslu um starfsemina svipað eins og Barnaverndarstofa fær til að fylgjast með þróun mála í barnaverndarmálum en í þeim málaflokki skila félagsmálastjórar sískráningu inn mánaðarlega og svo stórri ársskýrslu árlega með tölulegum upplýsingum um vinnslu og aðgerðir út frá barnaverndarlögum, barnalögum og lögum um ættleiðingar.

 

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps náði að vera innan þeirra marka sem svæðisskrifstofan lagði upp með í fjárhagsáætlun ársins 2011 varðandi þjónustuþáttinn.

 

Árið 2011 fundaði verkefnahópur um málefni fatlaðra hjá Bsvest 14 sinnum. Meðal þeirra verkefna sem þar hafa verið unnin er vinnsla við reglur um skammtímavistun, gátlisti skammtímavistunarinnar og reglur um stuðningsfjölskyldur. Í bígerð er að búa til reglur um ferliþjónustu fatlaðs fólks. Verkefnahópurinn fjallar líka um og tekur ákvarðanir varðandi allar þær umsóknir sem berast um sértæka þjónustu við fatlaða einstaklinga á Vestfjörðum. Ágreiningsmál og samskiptamál koma einnig inn á borð verkefnahópsins sem kemur með tillögur að lausnum.

 

Fleiri verkefni bíða félagsþjónustunnar á þessu ári og má þar nefna aukna viðveru í Kaldrananeshreppi og Árneshreppi, gerð heimasíðu fyrir þjónustuna, jafnréttisáætlun sem er langt á veg komin og siðareglur sem eru í smíðum.

 

Strandir og Reykhólahreppur eru síðustu sveitarfélög landsins til að fá félagsþjónustu og er það mér sannur heiður að fá það tækifæri að taka þátt í uppbyggingu hennar.

 

– Hildur Jakobína Gísladóttir,

félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30