Ferðamálasamtök Vestfjarða 26 ára
Í dag eru 26 ár frá því að Ferðamálasamtök Vestfjarða voru stofnuð. Það var þann 21. júní árið 1984 sem boðað var til stofnfundar samtakanna af undirbúningsnefnd sem starfað hafði saman frá því fyrr um vorið. Stofnfundurinn var haldinn á Hótel Ísafirði og á fundinn voru mættir um 30 manns víðsvegar af Vestfjörðum. Reynir Adolfsson setti þennan fyrsta fund samtakanna og bauð alla velkomna og fól síðan Úlfari Ágústssyni fundarstjórn.
Á fundinn var einnig mættur Birgir Þorgilsson, þáverandi markaðsstjóri Ferðamálaráðs sem flutti erindi um stöðu ferðamála á Íslandi. Í máli hans kom meðal annars fram að ferðaþjónusta skipaði stóraukinn sess í atvinnumálum Íslendinga auk þess sem hann kom inn á þá alkunnu staðreynd að góðar samgöngur væri forsenda fyrir ferðaþjónustu og hvatti Íslendinga til að ferðast um landið. Einnig nefndi hann í erindi sínu þennan dag árið 1984 að stöðug aukning hefði verið á komu erlendra ferðamanna til landsins undanfarin ár og að á árinu áður hefðu verið seldar um 700.000 gistinætur og velta ferðaþjónustunnar hefði verið um 2,9 milljarðar króna.
Á stofnfundi samtakanna voru lögð fram drög að lögum félagsins sem voru samþykkt eftir nokkrar umræður. Fyrsti formaður samtakanna var kjörinn Reynir Adolfsson og aðrir í fyrstu stjórn samtakanna voru þau Úlfar Ágústsson, Jóhannes Ellertsson, Auðunn Karlsson, Arnheiður Gunnarsdóttir og Hörður Guðmundsson.
Í umræðum á stofnfundinum var tæpt á mörgum málum sem sum hver eru ennþá í umræðunni. Rætt var nokkuð um friðlandið Hornstrandir og möguleika þess í vestfirskum ferðamálum og æskileg væri að skapa betri aðstöðu til að þeir ferðamenn gerðu meiri stans á Ísafirði og nágrenni. Látrabjarg var til umræðu og lögð áhersla á að vestfirsk náttúra og atvinnuhættir fjórðungsins væri helsta aðdráttaraflið. Umræður um skipulagðar ferðir innan fjórðungsins voru nokkrar og rætt um sérstök ferðatilboð. Kynningarmál voru rædd á stofnfundinum, sem í dag eru kölluð markaðsmál og hafa auðvitað verið eitt helsta umræðuefni ferðamálasamtakanna síðan. Komið var inn á starfsemi upplýsingamiðstöðva eða „sérstaka staði í hverju byggðarlagi sem miðlaði upplýsingum“. Nokkrar umræður urðu einnig um ferðamál vítt og breitt og sérstaklega lagt til að fyrsta stjórn samtakanna beitti sér strax fyrir umbótum í hreinlætisaðstöðu í fjórðungnum og skrifaði sveitarstjórnum bréf um það mál.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Á síðasta ár skráir Hagstofan 2,9 milljónir gistinátta. Velta ferðaþjónustunnar á Íslandi var komin í 135 milljarða króna á árinu 2009 og er svo komið að greinin er orðin ein af helstu stoðum íslenskts efnahagslífs. Á Vestfjörðum hefur sprottið upp fjöldi afþreyingafyrirtækja og á svæðinu öllu er að finna mörg fyrirmyndar menningarverkefni sem draga að fjölda ferðamanna í fjórðunginn. Eins og fram kemur í þessari stuttu yfirferð um stofnfund Ferðamálasamtaka Vestfjarða á afmælisdegi þeirra þá bíða mörg ærin eilífðarverkefni ennþá úrlausnar sem frumkvöðlar samtakanna hófu strax baráttu fyrir.
Ég vil óska Ferðamálasamtökum Vestfjarða til hamingju með daginn og senda öllum fyrirrennurum mínum í öllum stjórnum þessara merku samtaka í gegnum árin heillaóskir og ferðaþjónustuaðilum á Vestfjörðum baráttukveðjur.
Framundan eru spennandi tímar og verkefni ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum og stoðkerfisins alls eru ærin og ekki síður ábyrgðarmikil. Það er allt undir okkur öllum komið sem störfum í greininn hvernig til tekst. Ég lít björtum augum til framtíðarinnar, þar sem fagmennska verði höfð að leiðarljósi í öllum þáttum greinarinnar. Það skuldum við því góða fólki, frumkvöðlunum sem mættu á stofnfundinn og lögðu sitt á lóðarnar á Hótel Ísafirði þann 21. júní fyrir 26 árum síðan.
Enn og aftur til hamingju með daginn.
- Sigurður Atlason,
formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða.
Grein þessi birtist á vefnum strandir.is.