Tenglar

5. mars 2009 |

Fleira þarf í dansinn en fagra skóna

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil - svo alvarleg - að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem áttu sér stað í hitasótt frjálshyggjunnar. Já, ég kalla það hitasótt, því það var eins og þeim sem báru ábyrgð á íslensku fjármálakerfi og stjórnmálaumræðu væri ekki sjálfrátt. Í heila tvo áratugi smitaði frjálshyggjusóttin allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það svo upp fyrir okkur að að ekki einasta hafði fjárhagur þjóðarinnar beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

 

Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund. 

           

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi. Lítum nánar á nokkur þau helstu:

 

Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka.

 

Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi. Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu.

 

Uppbygging háskólastarfs og símenntunar um land allt er mikilvægur þáttur í því að bæta samkeppnisstöðu byggðanna. Sama má segja um góðar samgöngur og nútímafjarskipti sem eru nauðsynlegir grunnþættir í hverri samfélagseiningu - nokkuð sem ekkert hérað getur verið án.

 

Stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll verða að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa stjórnmálaflokka eða annarra hagsmunaafla.

 

Sjálf finn ég sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi. Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi. Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.

 

Það er því ekki lítið verk sem bíður þeirra sem koma að endurreisn samfélagsins um þessar mundir. Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir heiðarleika, ábyrgð og hugrekki  í íslenskum stjórnmálum. Aldrei  fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þau verðmæti sem við þó eigum Íslendingar - andleg og veraldleg. Og aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þá sjálfsvirðingu sem gerir okkur kleift að vera þjóð meðal þjóða, í bandalagi og samstarfi við vinaþjóðir þangað sem við getum sótt bæði tilstyrk og fyrirmynd.

 

Það er núna sem reynir á hvort íslenskir jafnaðarmenn rísa undir nafni.

Ólína Þorvarðardóttir
Höfundur gefur kost á sér í 1.-2. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31