Tenglar

4. nóvember 2012 |

Framboðshugleiðing

Hlédís Sveinsdóttir.
Hlédís Sveinsdóttir.

Hlédís Sveinsdóttir skrifar:

 

Þegar ég ákvað að gefa kost á mér gerði ég það vegna þess að mig langar til að eiga þátt í að breyta landslaginu í íslenskum stjórnmálum. Mér þykir ekki nógu spennandi, frekar en svo mörgum öðrum, að starfa í stjórnmálum í núverandi umhverfi. Fyrir því eru fjölþættar ástæður en eitt af því sem ég held að verði að breytast er hvernig við veljum fólk til starfa á vettvangi stjórnmálanna.

 

Ég hef áður sagt að ég lít á framboð til þátttöku í stjórnmálum eins og hverja aðra starfsumsókn. Ég gef kost á mér, skila inn umsókn, greini frá áherslum mínum og sýn minni á starfið. Í framhaldinu gefst ráðninganefndinni (flokksfélögum) kostur á að hitta mig á fundum, heyra í mér í síma eða í gegnum netið. Það er eðlilegt og sanngjarnt ferli. Þar sitja allir við sama borð, eru vegnir og metnir á sömu forsendum af sömu ráðninganefndinni.

 

Í raunveruleikanum virðist þetta ferli hins vegar ekki vera alveg svona einfalt. Við ofangreint bætist eitthvað sem stundum er kallað „smölun“. Það vísar til þess þegar umsækjendur keppast við að skrá fólk í flokkinn í þeim tilgangi að fjölga eigin stuðningsmönnum í ráðninganefndinni.

 

Er það eðlilegt og sanngjarnt gagnvart þeim sem teljast til virkra þátttakenda í flokksstarfinu að þeirra atkvæði hafi sama vægi og þeirra sem skrá sig í flokkinn rétt yfir blá-kosningarnar í þeim tilgangi einum að hafa áhrif á niðurstöðu í ráðningaferlinu? Það er auðvitað gott að eiga marga vini og stóra fjölskyldu (ég tel mig eiga hvort tveggja), en það hefur hins vegar ekkert með stjórnmál að gera.

 

Ég held það hljóti líka að vera óþægilegt að byrja í stjórnmálum á þeim forsendum að vinir og vandamenn hafi skráð sig í flokkinn, jafnvel bara tímabundið, til að gera manni greiða. Það gengur beinlínis gegn þeirri hugmynd að ráðningaferlið sé opið og gagnsætt, að allir sitji við sama borð. Ef fólki finnst klíkuskapur og vinavæðing vera að hrjá stjórnmálin í dag - væri þá ekki ráð að byrja á að skoða hvaða aðferðum við höfum komið okkur upp við val á fólki? Það er ekki hægt að gera alltaf það sama og ætlast til að fá allt í einu aðra og betri útkomu.

 

Annað sem veldur mér áhyggjum er óhóflegt áreiti á kjósendur. Ef tíu manns eru í framboði og hver og einn sendir tvö smáskilaboð, hringir einu sinni, sendir einn tölvupóst og eitt bréf , þá eru þetta 50 áreiti sem hver og einn kjósandi verður fyrir á stuttu tímabili bara frá frambjóðendum. Ég ætla að gefa mér að þeir sem sannan áhuga hafa á stjórnmálum kynni sér sjálfir frambjóðendur og kjósi í framhaldi af því.

 

Ég veit að það eru margir sem telja að hvort tveggja, smölun og þátttaka í áreitinu, sé eina leiðin til að hljóta kosningu og telja því að með þeirri ákvörðun minni að taka þátt í hvorugu sé ég sjálfkrafa að draga umsókn mína til baka. Það verður þá að hafa það, ég vil frekar fara beina leið út úr stjórnmálum hafandi fylgt eigin sannfæringu í stað þess að eiga það á hættu að komast inn á forsendum sem mér líður ekki vel með.

 

Ég er einfaldlega sannfærð um að fjöldaskráningar fólks í flokkana eða smáskilaboð muni ekki auka áhuga fólks og tiltrú á stjórnmálin. Þvert á móti held ég að hvort tveggja sé hluti af þeirri neikvæðu ímynd sem stjórnmálin hafa hlotið á undanförnum árum og við þurfum að vinna að því að lagfæra.

 

Það skal tekið fram að þessum pistli er ekki beint gegn neinum frambjóðenda né heldur einum flokki umfram aðra. Ég velti bara fyrir mér framboðshefðinni og áhrifum hennar.

 

Kæru vinir, ættingjar, kunningjar, bekkjafélagar og gamlir vinnufélagar víðsvegar í Norðvesturkjördæmi: Það er því ekki af tómu metnaðarleysi að ég hef ekki atast í ykkur. Það er meðvituð ákvörðun mín að fara þessa leið.

 

Ef þið viljið kynna ykkur framboð mitt, þá hvet ég ykkur til að hafa samband við mig með þeim hætti sem þið kjósið. Í mig næst í síma 556-0001 eða 892-1780, ég svara tölvupóstum sem berast á netfangið hlediss@gmail.com og ég er á Facebook.

 

- Hlédís Sveinsdóttir.

 

______________________________________________________

 

Hlédís gefur kost á sér í 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Hún er fædd 1980 og uppalin í Staðarsveit á Snæfellsnesi en býr nú á Akranesi. Hún er með BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og hefur jafnframt stundað meistaranám í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík. Hún er stofnandi og eigandi fyrirtækisins Eigið fé ehf. sem m.a. á og rekur vefsíðuna kindur.is. 

 

Sjá nánar um höfund:

Framboðskynning

    

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30