Tenglar

4. mars 2009 |

Fyrsta skrefið í áttina að því að vinda ofan af óréttlátu kerfi

Þórður Már Jónsson
Þórður Már Jónsson

Í kjölfar greinar minnar um það hvernig LÍÚ menn sitja á ónýttum fiskveiðiheimildum finnst mér ein leið liggja í augum uppi. Samfylkingin ætti að beita sér núna fyrir því að fiskveiðikvóti, sem ekki er verið að nýta, verði tekinn af handhöfum fiskveiðiheimilda og gefin út nýr heildarkvóti í samræmi við fyrri kvóta. Og að þegar í stað verði fólki og útgerðum leyfilegt að sækja í þær tegundir. Útgefinn kvóti verði látinn standa sem heildarkvóti og ef honum verði náð, þá verði einfaldlega lokað að mestu fyrir veiðar á þeirri tegund, friðuð helstu veiðisvæði tegundarinnar og einungis leyft að veiða tegundina sem meðafla. Það er hægt að gefa út aukakvóta í tegundinni fyrir meðafla ef þurfa þykir og afli næsta fiskveiðiárs skerðist í samræmi við það, ef þurfa þykir.

En hvaða tegundir eru það sem koma til greina?

Grálúðukvótann má nefna sem dæmi, en á síðustu tveimur fiskveiðiárum hafa 4000 tonn verið ónýtt, ekki veidd og brunnið upp í höndum LÍÚ. Hver er hagræðing kerfisins þegar svona lagað getur gerst? Ef meðalverðið er í kringum 500 kr. upp úr sjó fyrir þennan fisk, þá erum við að tala um 2 milljarða í útflutningsverðmæti þegar búið er að vinna aflann, sem voru ekki nýttir og munar um minna fyrir þjóðina í dag. Væri ekki betra að fella niður kvótaúthlutanir til LÍÚ og gefa frekar út heildarkvóta í grálúðu og leyfa fólki að ná í þessa tegund sjálft og búa til verðmæti fyrir þjóðarbúið, jafnvel láta borga sanngjarna leigu fyrir það til ríkisins?

Annað dæmi er úthafsrækjan. Það er óskiljanlegt að þessi tegund er í sjálftökuhöndum LÍÚ manna, bundin í kvóta sem þeir telja sig eiga. Á síðust fjórum fisveiðiárum hefur verið gefinn út kvóti sem nemur tæplega 40.000 tonnum. En það er varla hægt að minnast á það ógrátandi en af þessum tugþúsunda tonna útgefna kvóta til LÍÚ manna, brann inni, óveiddur kvóti upp á tæplega 32.000 tonn eða rúmlega 80% af útgefnum veiðiheimildum í úthafsrækju! Hafi meðalverð þessa afla verið um 250 kr. sem brann inni sem ónotaður kvóti, þá er tapið rúmir 6 milljarðar króna þegar búið er að vinna rækjuna.

LÍÚ menn segja að rekstrarumhverfi sé erfitt t.d. í rekstri úthafsrækjuskipa og þess vegna brenni kvóti inni. Nú ef það er svona erfitt fyrir LÍÚ menn að nýta þessa auðlind, er þá nokkur skaði í því að þeir skili kvótanum? Þannig yrði öðrum leyft, hafi þeir skip og bolmagn til þess, að reyna sig við þessar tegundir og reyna að minnsta kosti að skapa verðmæti úr þeim og um leið atvinnu og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Þá myndu þessir aðilar fá að leigja kvótann fyrir sanngjarnt verð af ríkinu. Verð sem er sanngjarnt bæði fyrir útgerðina og þjóðina.

Hver er hagræðingin að leyfa LÍÚ mönnum að sitja á kvótanum og koma í veg fyrir að þjóðin geti notið auðlindina í hafinu til að byggja upp innviði samfélagsins að nýju. Ég bara spyr?!

Með því að ráðast í þessar lagabreytingar og byrja á þeim tegundum sem ekki er verið að nýta sem skyldi, þá getur Samfylkingin skipað sér á þann einstaka stall að vera það stjórnmálaafl sem tók fyrsta stóra skrefið í þá átt að færa fiskinn í sjónum til réttmætra eigenda hans, íslensku þjóðarinnar. Þetta skref yrði til þess að skapa traust milli kjósenda og Samfylkingarinnar. Með þessu myndi Samfylkingin sýna fram á og svo um munar að verkið er hálfnað þegar hafið er, og kvótinn sé á leiðinni til baka í hendur þjóðarinnar. Ekki má þó láta staðar numið þar. Það er mikið verk eftir óunnið og það verk vil ég sjá til að verði klárað.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur. Formaður Samfylkingarinnar á Bifröst. Gefur kost á sér í 3ja sæti á S-lista í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31