Hagræðing í mjólkuriðnaði
Miklar breytingar hafa átt sér stað í innlendum mjólkuriðnaði á síðustu árum. Nýverið bárust fréttir um að mjólkurlager á Ísafirði hefði verið aflagður og mjólkurvörum nú dreift úr Reykjavík tvisvar í viku. Einnig var staða mjólkurbússtjóra í Búðardal og á Ísafirði lögð niður og sameinuð stöðu mjólkurbústjóra á Egilsstöðum með aðsetur í Reykjavík. Að sögn forstjóra eru breytingarnar í þágu hagræðingar og til að styrkja rekstur minnstu mjólkursamlaganna. Upphaf allra þessara breytinga má rekja til sameiningar flestra mjólkursamlaga landsins í rekstrarfélagið Mjólkursamsöluna ehf.
Undirritaður er sennilega ekki einn um það að finnast ýmsar þær breytingar sem ráðist hefur verið í hjá MS einkennilegar á köflum. Áður en lengra er haldið vil ég geta þess, að undanfarin sex ár hef ég unnið sem afleysingamaður hjá starfstöð fyrirtækisins í Búðardal við mjólkursöfnun og dreifingu mjólkurvara í verslanir. Ég þekki því til á starfsvæði félagsins á norðvesturhluta landsins.
Að styrkja stöðina
Árið 2005 var unnið úr tæplega níu milljónum lítra í Búðardal, fjöldi vörumerkja framleiddur og þar höfðu 40-50 manns vinnu. Í dag er hins vegar desertostagerð í Búðardal uppistaða vinnslunnar, mun minni mjólk er unnin þar en áður var gert og meiri mjólk keyrð áfram út úr héraðinu í aðrar vinnslustöðvar MS. Starfsfólki hefur einnig fækkað talsvert. Allt á þetta að spara kostnað og styrkja stöðina, að sögn forstjóra.
Þegar kemur að dreifingarhlutanum er lokunin á Ísafirði sambærileg því sem gerst hefur á fleiri stöðum undanfarin ár. Ég er ekkert hissa á því að sumir verslunareigendur séu óánægðir og finnist breytt fyrirkomulag lakari þjónusta, en skil líka þau rök MS að betri nýting framleiddra vara skili einhverjum ávinningi. Á hinn bóginn hafa nokkrir verslunareigendur sagt mér, að til lengri tíma breytist neyslumynstrið í kjölfar breytinga á fyrirkomulagi dreifingar. Íbúar á hinum dreifðari svæðum hætta að treysta á að fá alltaf nýja og ferska vöru. Hvort það sést í sölutölum er ekki víst, enda höfuðborgarsvæðið ráðandi á heildarmarkaði - en þar hafa verslunareigendur líka aðgang að vörulager MS alla daga vikunnar.
Hættuleg þróun
Einn partur af skipulagsbreytingunum sem nú standa yfir eru breytingar á mjólkursöfnun hjá bændum á dreifbýlli svæðum skv. heimasíðu Auðhumlu, sem er móðurfélag MS. Mér skilst að breytingarnar séu oft á tíðum gerðar án samráðs við bændur og reynda bílstjóra félagsins. Það eru óásættanleg vinnubrögð. Það er eitt, að reikna út hagnað á breyttu fyrirkomulagi mjólkursöfnunar, og annað, hvort þær breytingar standist síðan ytri aðstæður, svo sem veðurfarslegar. Það er hættuleg þróun að gera dagleiðir það langar, að bílstjórar verði í sífelldu kappi við tímann til að láta þær standast. Hætta á mistökum verður meiri og starfsmannavelta á bílum eykst, því enginn endist til lengdar að vinna undir slíku álagi. „Stressið í bílstjóranum smitar svo út í bændurna“, sagði einn kúabóndinn, en getur ekki síður verið hættulegt öðrum vegfarendum.
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum fengið fund með æðstu stjórnendum MS, því starfsstöðin í Búðardal er mikilvæg fyrir samfélagið þar. Svörin eru alltaf á sömu leið, að ekki standi til að loka og einungis sé verið að styrkja stöðina, með því að tína burt sífellt fleiri ársverk. Í ljósi nýlegra breyting spyr ég hins vegar hvort ekki hefði verið eðlilegt að nýr yfirmaður yfir þremur minnstu vinnslustöðvunum hefði fasta búsetu á einum af þessum þremur stöðum, í stað þess að sitja á Bitruhálsi. Nýr mjólkurbússtjóri, sem taka þarf ákvarðanir um meiri hagræðingu og flutning starfanna, á auðveldara með að leiða hjá sér samfélagsleg áhrif slíkra ákvarðana en sá sem þekkir betur til og er tengdari heim í hérað. Það læðist því að mér sá grunur, að sá dagur geti runnið upp í hagræðingarferlinu, að minni vinnslustaðirnir á Ísafirði, í Búðardal og á Egilsstöðum verði ekki lengur „hagkvæmir“ og störfin þar flutt á stærri staðina. Þora lykilmenn MS að gefa út að svo verið ekki næstu 10 til 20 árin? Rétt er að minna á, að það átti líka að vera umtalsverð hagræðing árið 2006 að flytja átöppun mjólkur úr Reykjavík á Selfoss en reyndist svo of dýrt þegar betur var að gáð.
Skrítin hagkvæmnisrök
Það má ekki heldur gleyma því, að kúabændur um allt land hafa staðið í mikilli uppbyggingu á undanförnum árum, ekki síður á starfssvæði þessara minni starfstöðva en þeirra stærri. Árið 2003 fóru þrír kúabændur á norðanverðum Vestfjörðum í umfangsmiklar framkvæmdir til að tryggja áframhaldandi rekstur samlagsins á Ísafirði. Því skil ég ekki að það sé alltaf hagkvæmara að keyra mjólkina sem lengst til vinnslu, það kostar og mun kosta meira á næstu árum, eykur kannski hagvöxt á landsvísu eins og fiskflutningarnir á milli landshluta eiga víst að gera, en eykur ekki hagvöxt í heimabyggð.
Stjórnendur MS hafa á undanförnum árum verið að framfylgja því sem í daglegu tali má kalla „kapítalisma“ en ég held að það sé varhugaverð leið að umbreyta samvinnufélögum sem MS er of mikið á þann veg. Ef rétt er að lykilstjórnendur hafi sagt félagsmönnum að breytingar komi þeim ekki við því þeir séu bara „venjulegir kúabændur“ eru þeir hinir sömu á varhugaverðri braut í störfum sínum. Þeir sem gagnrýndu ofþenslu á Íslandi fyrir nokkrum árum voru umsvifalaust kallaðir öllum illum nöfnum. Margir kúabændur veigra sér því við að gagnrýna stjórnendur MS.
Starfsemi í þágu kúabænda
Ég beini því þeim tilmælum til æðstu stjórnenda MS að staldra aðeins við og íhuga fyrir hverja þeir starfa. Þeir starfa fyrir tæplega 700 kúabændur landsins og fjölskyldur þeirra. Þessir kúabændur hafa allir tekið þátt í að byggja upp nautgriparækt og mjólkurframleiðslu á Íslandi, hvort sem þeir búa í Húnaþingi eða á Héraði, á Barðaströnd eða í Borgarfirði. Hver fjölskylda er partur af stærra samfélagi í hinum dreifðu byggðum landsins, þar sem hver hlekkur er mikilvægur öðrum. Það ætti að styrkja þá keðju frekar en vera sífellt að veikja hana með hagræðingaraðgerðum. Ég kalla því eftir opinni og málefnalegri umræðu stjórnenda MS og kúabænda á landsvísu um þessi mál.
- Eyjólfur Ingvi Bjarnason,
í framhaldsnámi við UMB í Ási í Noregi og íbúi í Dalabyggð.
Greinin birtist í Bændablaðinu 10. mars 2011.