Tenglar

3. mars 2009 |

Handhafar veiðiheimilda geta komið í veg fyrir verðmætasköpun

Þórður Már Jónsson
Þórður Már Jónsson
1 af 2
 Vissulega vilja þessir menn vernda eign sína með öllum tiltækum ráðum. Nýjasta útspilið er að afskrifa 20% af skuldum þessara fyrirtækja. Sú aðgerð er ekki til varnar fólkinu í landinu, heldur til varnar kvótahöfunum. Að afskrifa flatt 20% allra skulda er hreinasta firra og aðgerð sem þjóðarbúið getur ekki borið. Ef afskrifa á, þá verður að einblína fyrst á afskriftir fyrir heimilin. Þessi aðgerð er auðvitað enn eitt útspil þeirra sem vilja vernda hagsmunaöfl umfram aðra. Blekkingaleikur. Mörg þessara sjávarútvegsfyrirtækja ramba á barmi gjaldþrots, en ef fiskveiðiheimildirnar yrðu afmáðar úr efnahagsreikningum þeirra yrði stór hluti þeirra gjaldþrota. Það er nefnilega einmitt það sem þessi fyrirtæki gera, þau eignfæra fiskveiðiheimildirnar eins og hverja aðra eign. Og þessar heimildir eru eignfærðar á hreint fáránlega óraunhæfu virði eins og flestum er kunnugt um. Þau eignfæra m.ö.o. loft, en slíkt er vel í anda einstaklings- og nýfrjálshyggju sjálfstæðismanna og bandamanna þeirra í framsókn. Hagkvæmni er ekki alltaf réttlát, hefur verið eitt svar þeirra við spurningum um hvort þjóðin og þá ríkið væri hinn einni sanni eigandi veiðiheimildanna.

Hagkvæmt kerfi?

Ég get nefnt raunverulegt dæmi um aðila sem vill gera út á grálúðu. Þessi aðili hefur fjárfesta sem vilja koma að verkefninu. Honum er samt sem áður fyrirmunað að koma útgerðinni á fót þar sem kvótahafar sitja á kvótanum og neita að selja kvótann sem er yfirveðsettur (og geta það hugsanlega ekki einmitt þess vegna) og það sem verra er, hefur ekki verið fullnýttur síðustu ár og veiðiheimildir dottið dauðar niður. Á síðasta fiskveiðiári féllu niður nálægt 2.400 tonn af grálúðu sem ekki skila sér í þjóðarbúið! LÍÚ menn sem hafa sagt síðustu ár að sá sem vill byrja í útgerð, geti það vel, en að sjálfsögðu með því að kaupa kvóta af þeim! En svo þegar aðili sem vill koma á fót útgerð sem sækir í tegund sem ekki hefur verið fullnýtt í mörg ár og þar af leiðandi ætti kvótinn að vera ódýr, kemur sá aðili að lokuðum dyrum allsstaðar. Það er vegna þess að kvótahafarnir vilja heldur sitja á kvótanum ónýttum en að hleypa nýjum aðilum inn í kerfið með raunhæfar áætlanir um rekstur og hefur áhuga á nýta tegund sem þeir sjálfir eru ekki að nýta. En þá verður líka kvótaverðið að vera í samræmi við þá nýtingu sem núverandi kvótaeigendur hafa haft af kvótanum. Kvótaeigendur vilja frekar leigja kvótann frá sér og halda eignarhaldinu sínu. Kvótaeigendur í dag minna svolítið á einokunarverslunarmenn á fyrri tímum sem störfuðu í krafti og verndar Danakonungs og engin annar fékk að starfrækja verslun.

Ég spyr mig, væri ekki betra að ríkið væri handhafi kvótans og myndi leigja hann út til þeirra sem vilja veiða og nýta auðlindirnar í hafinu, sem þjóðin á og íslenska ríkið er umboðsaðili fyrir. Hver er hagkvæmnin í því að fyrirtæki sitji á kvótanum og  komi veg fyrir verðmætasköpun, atvinnusköpun og gjaldeyrisöflunar fyrir íslensku þjóðina? Enn og aftur spyr ég, hver er hagkvæmnin í þessu kerfi og ætlum við sem einstaklingar í þessu þjóðfélagi að láta þetta hrópandi óréttlæti að viðgangast mikið lengur?

Ég árétta að það má ekki blanda saman rekstrarlegri hagkvæmni og þjóðhagslegri. Handhafar veiðiheimilda hafa margir hverjir látið eins og þetta sé eitt og hið sama. Sem það er auðvitað ekki. Hagsmunir þjóðarinnar eru látnir víkja fyrir hagsmunum kvótahafanna.

 Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur. Formaður Samfylkingarinnar á Bifröst. Gefur kost á sér í 3ja sæti á S-lista í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31