Hið nýja þing
Guðmundur Steingrímsson skrifar:
Eftir alla þá atburðarás sem dundi á þjóðinni á liðnum vetri var krafan um að endurnýjað yrði í stjórnmálum á Íslandi bæði rík og skiljanleg. Nú að loknum kosningum verður ekki betur séð en að endurnýjunarkröfunni hafi verið mætt. Sjaldan eða aldrei munu jafnmargir nýir þingmenn taka sæti á Alþingi.
Í þessari staðreynd er auðvitað fólgin ákveðin von fyrir land og þjóð. Hugsanlega mun gæta nýrra og betri vinnubragða. Hugsanlega munu áratugalangar deilur í hinum ýmsu málaflokkum - t.d í sjávarútvegsmálum - færast upp úr mosavöxnum skotgröfum, svo að vísir að sátt geti loksins skapast og nýir snertifletir og sjónarhorn myndast. Kannski mun hið nýja þing leggja meiri áherslu á að finna viðunandi lausnir á aðkallandi vanda í efnahagsmálum, fremur en að karpa um eignarétt á lausnunum og uppruna hugmyndanna. Hugsanlega mun þingið leita skynsamlegra leiða - í krafti vitrænnar rökræðu fremur en upphrópana - til þess að skapa þjóðinni nýja og betri umgjörð til vaxtar og farsældar, t.d. með endurreistu fjármálakerfi sem þjónar öllum landsmönnum en ekki bara sumum.
Ný hugsun og vinnubrögð, ef skapast, munu gagnast víða. Kannski verður hægt loksins að brjóta niður múra, menningarlega, landfræðilega og stofnanalega, sem virðast hafa aftrað skipulagðri avinnuuppbyggingu á Vestfjörðum um langa hríð. Kannski verður hægt að leita nýrra leiða til þess að bæta samgöngur, ná niður flutningskostnaði og bæta raforkuöryggi, svo eitthvað sé nefnt af því sem setið hefur á hakanum.
Í nýju þingi felast mörg tækifæri. Margt má stokka upp. Margt má gera öðruvísi. Hugsanlega eru nýir og betri tímar runnir upp í íslenskri pólitík. Ég vona það. Sem nýr þingmaður ætla ég í öllu falli að reyna að stuðla að því.
Ég þakka stuðninginn fyrir hönd mín og míns flokks. Framsóknarmenn eru himinlifandi með góða kosningu og þakklæti er efst í huga. Flokkurinn er endurreistur. Það hljóta án efa að vera ein stærstu tíðindi nýafstaðinna kosninga. Í endurreisnarstarfi þjóðfélagsins munu því grunngildi Framsóknarflokksins - aðferðafræði samvinnunnar, trúin á dugnað fólksins, félagshyggjan - njóta sín af fullum krafti.
- Guðmundur Steingrímsson.