Tenglar

24. júní 2012 |

Hótel Bjarkalundur

Einar Örn Thorlacius.
Einar Örn Thorlacius.

 

Einar Örn Thorlacius skrifar:

 

Það var ekki fyrr en ég flutti í Reykhólahreppinn haustið 2002 að ég áttaði mig á því hvað þetta elsta sumarhótel á Íslandi (eftir að Hótel Búðir brunnu) er vel í sveit sett fyrir íbúana. Við getum tekið Hótel Flókalund til samanburðar, sem er í næsta sveitarfélagi fyrir vestan Reykhólahreppinn. Það hótel er í algerlega í útjaðri byggðar í Vesturbyggð. Í austurendanum. Sé hins vegar litið á Reykhólahreppinn, þá nær byggðin frá Gufudal í vestri að Gróustöðum í austri og síðan suður til Reykhóla (sleppi Flatey í þessu samhengi).

 

Enginn staður er meira miðsvæðis á þessu svæði en Hótel Bjarkalundur. Það er því engin tilviljun að t.d. allar kosningar bæði til Alþingis og hreppsnefndar fari fram þar. Þegar velja þurfti barnaskóla í Reykhólahreppi stað mun Bjarkalundur hafa komið sterklega til greina. Honum var þó valinn staður á Reykhólum á endanum eins og kunnugt er.

 

Sem ferðamaður hafði ég oft komið í Bjarkalund og m.a.s. gist þar einu sinni. Það var alltaf mjög vinalegt að sjá til Bjarkalundar þegar eknir voru þessir löngu og frumstæðu vegir í Reykhólasveitinni. Og eftir að ég fluttist til Reykhóla var auðvitað mjög gaman að koma á hótelið, sjá alla þessa ferðamenn og njóta veitinga. Ég minnist hátíðahaldanna 17. júní (einu sinni var ég m.a.s. látinn keppa í pokahlaupi við Jónu Valgerði í Mýrartungu) og fann hvað þetta var eðlilegur samkomustaður fyrir sveitungana. Stutt var líka á hótelið úr Berufjarðarréttinni.

 

Samt er það svo, að þegar ég lít til baka minnist ég frekar vetranna hvað Hótel Bjarkalund varðar. Það vildi svo til, að skömmu áður en ég fluttist á Reykhóla hafði Guðmundur á Grund keypt hótelið og hafði í fyrsta skipti tekið úr lás og opnað staðinn fyrir sveitungana eftir að haust og vetur voru gengin í garð.

 

Það var alveg magnað að keyra þangað í svartamyrkri og jafnvel snjó og hvergi er myrkrið í Reykhólahreppnum meira en þarna, enda held ég að hótelið sé eini byggði staðurinn í Reykhólahreppi þar sem ekki sér til sjávar.

 

Ég á fjölmargar minningar um t.d. heimsóknir Lionsklúbbs Búðardals til Reykhóladeildarinnar, en þær ógleymanlegu samkomur voru að sjálfsögðu haldnar á Hótel Bjarkalundi.

 

Síðar tóku nýir eigendur við og óska ég að sjálfsögðu Árna, Kollu & Co. góðs gengis í framtíðinni. Mikil uppbygging hefur átt sér stað þarna undanfarin ár. Mikilvægt er þá að huga að heildaryfirbragði staðarins, þannig að Hótel Bjarkalundur og umhverfi þess verði ávallt til prýði í hreppnum.

 

Einar Örn Thorlacius,

fyrrv. sveitarstjóri Reykhólahrepps.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30