Hreindýr á Vestfirði
Árið 2009 sóttu 3.265 einstaklingar um hreindýraveiðileyfi en til úthlutunar voru 1.333 leyfi. Tæplega 2.000 veiðimenn fengu sem sagt ekki leyfi til hreindýraveiða þá. Árið 2010 sóttu 3800 manns leyfi til hreindýraveiða en úthlutað var 1272 veiðileyfum, 2528 manns fengu þ.a.l. ekki leyfi.
Vegna hruns efnahagslífsins hér á landi er afar brýnt að styrkja og skapa ný störf og þá ekki síst á landsbyggðinni. Fjölgun hreindýra er einföld, auðveld og arðsöm aðgerð. Tekjur af hreindýraveiðileyfum voru 106,4 milljónir króna árið 2008. Af þessari fjárhæð renna 92.1 milljónir króna til landeigenda og sveitarfélaga í felligjöld og arðgreiðslur.
Þá er rétt að benda á að verulega hefur dregið úr sauðfjárrækt á Vestfjörðum, grasnytjar og land er því ekki nýtt sem skyldi.
Árið 1990 voru 290 bændur á lögbýlum á Vestfjörðum og 41 frístundabóndi. Sauðfé var þá 57.650 á lögbýlum og 809 hjá frístundabændum. Í dag eru 189 sauðfjárbændur á lögbýlum á Vestfjörðum en 54 frístundabændur. Sauðfé er komið niður í 46.634 á lögbýlum en hefur fjölgað hjá frístundabændum um 164 og er nú 973. Lögbýlum hefur fækkað um 101 og sauðfé um 11.016 á Vestfjörðum frá árinu 1990. Þetta eru upplýsingar frá Bændasamtökum Íslands.
Hreindýrin éta ekki nema að litlu leyti sama gróður og sauðfé. Ekki eru nein dæmi um að hreindýr hafi smitað sauðfé af búfjársjúkdómum. Í um 300 ár hafa sauðfé og hreindýr nýtt sömu hagana á Austurlandi án þess að hreindýrin hafi borið einhverja sjúkdóma í sauðfé. Dýralæknaráð Íslands hefur meðal annars ályktað að „hér á landi er að finna einn heilbrigðasta hreindýrastofn sem um getur."
Óbeinar tekjur af hreindýraveiðum eru einnig talsverðar, sennilega um 100 milljónir króna. Í grein í tímaritinu Skotvís 2008 benti Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, á að ef hreindýrum yrði fjölgað á Norðausturlandi eða á svæðinu út frá Vopnafirði gæti landið borið 2.000 hreindýr. Slíkur stofn gæti skilað um 500 veiðileyfum árlega. Tekjur af sölu veiðileyfa yrðu um 47 milljónir króna. Ef óbeinar tekjur eru teknar með í reikninginn væru heildartekjur af þessum 500 hreindýrum líklegast um 100 milljónir króna. Það væri vel þess virði að kanna hvort hreindýr gætu dafnað annars staðar á landinu, t.d. á Vestfjörðum.
Mögulega gætu 4.000 dýr hafst við á Vestfjörðum. Heildartekjur af þessum dýrum gætu numið um 200 milljónum króna. Þessar tekjur gætu hugsanlega orðið enn hærri ef erlendum veiðimönnum gæfist kostur á að stunda hér veiðar. Núverandi kerfi er afar óaðgengilegt fyrir erlenda veiðimenn.
Mikið álag er á helstu ferðamannastöðum landsins, sums staðar er álagið svo mikið að vinsælar náttúruperlum liggja undir skemmdum.
Það er enginn vafi á því að ferðaþjónusta er álitleg atvinnugrein á Vestfjörðum sem á eftir að vaxa á komandi árum. Talið er að innan ekki of margra ára muni um 1 milljón erlendra ferðamanna heimsækja Ísland. Til þess að hægt sé að taka á móti auknum fjölda erlendra ferðamanna á Vestfjörðum þarf að bæta vegakerfið talsvert og byggja fleiri gististaði og þróa áhugaverða afþreyingu.
Helsti vandi íslenskrar ferðaþjónustu á landsbyggðinni er hvað ferðamannatímabilið er stutt eða um þrír mánuðir. Þetta vandamál þekkja ferðaþjónustufyrirtækin á Vestfjörðum vel. Ef hreindýr væru á svæðinu myndi ferðamannatíminn lengjast um sex vikur og án efa myndu erlendir veiðimenn sækjast í að stunda hreindýraveiðar í hinni stórbrotnu vestfirsku náttúru. Það er því eftir miklu að sækjast.
Vestfirsk náttúra er einstök og hér eru stærstu óspjölluðu víðerni í Evrópu. Flestar veiðilendur á meginlandi Evrópu eru á ræktuðu landi og í manngerðum skógum. Hreindýraveiðar í vestfirskri náttúru yrðu án efa mjög eftirsóttar á meðal erlendra skotveiðimanna. Frumkvæðið að fjölgun hreindýra þarf að koma frá sveitarfélögunum. Fara þarf í rannsóknir á þeim svæðum sem til greina koma sem búsvæði hreindýra. Líklegast er svo heppilegast að sleppa nokkrum dýrum á fyrirhugað búsvæði og sjá hvernig þau haga sér og hvernig þau þrífast. Þetta er ódýr framkvæmd sem skilar góðum arði. Það er því eftir miklu að sækjast fyrir sveitarfélögin.
- Magnús Ólafs Hansson, Patreksfirði.